Bæjarráð

16. júlí 2015 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3412

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Kristinn Andersen aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir varaformaður
  • Gunnar Axel Axelsson aðalmaður
  • Ófeigur Friðriksson aðalmaður
  • Elva Dögg Ásud. Kristinsdóttir áheyrnarfulltrúi

Auk ofangreindra ráðsmanna sat Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri fundinn

Ritari

  • Auður Þorkelsdóttir

Auk ofangreindra ráðsmanna sat Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri fundinn

  1. Almenn erindi

    • 1503437 – Iðnskólinn í Hafnarfirði og Tækniskólinn, sameining

      Skólameistari Tækniskólans mætir á fundinn.
      Bæjarstjóri gerir grein fyrir viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

      Bæjarráð þakkar Jóni B. Stefánssyni skólameistara Tækniskólans fyrir komuna á fundinn.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Fulltrúar Samfylkingar og VG lýsa furðu sinni á að þrátt fyrir skýra afstöðu bæjarstjórnar og ítrekuð mótmæli gegn fyrirhugaðri niðurlagningu Iðnskólans í Hafnarfirði og fullkomnu samráðsleysi ráðuneytis við bæjaryfirvöld, síðast með einróma samþykktri ályktun bæjarstjórnar frá 29. apríl sl. leggi meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks til að bæjaryfirvöld tilnefni fulltrúa í starfshóp ráðherra sem augljóslega hefur ekkert annað hlutverk en að ljúka við niðurlagningu Iðnskólans og leggja starfsemi hans inn í Tækniskólann ehf.

      Í því sambandi er rétt að benda á ályktun meirihluta skólanefndar Iðnskólans dags. 1. júní sl., þar sem fram kemur að nefndin hafi ekkert tækifæri fengið til að taka afstöðu til málsins, heldur hafi málið verið kynnt nefndinni eftir að ákvörðun ráðherra lá fyrir. Lýsir meirihluti skólanefndar áhyggjum sínum og telur að með þessari ráðstöfun sé framtíð iðnnáms í Hafnarfirði verulega ógnað og þegar til lengdar lætur sé hætt við að iðnnám flytjist frá Hafnarfirði. Undir ályktunina rita fjórir skólanefndarfulltrúar af fimm en formaður nefndarinnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði tillnefnir til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í nefndinni, tekur ekki þátt í bókuninni.

      Eins og fram kemur í lögfræðiáliti dags. 19. maí sl. sem unnið var fyrir bæjarráð er ákvörðun ráðherra um niðurlagningu Iðnskólans í Hafnarfirði háð samþykkt Alþingis. Sú samþykkt liggur ekki fyrir.

      Þá kemur einnig fram í áðurnefndu lögræðiáliti að ráðstöfun húsnæðis skólans til einkaaðila geti talist slík forsendubreyting á áður gerðum samningi frá 18. desember 1998 um þátttöku Hafnarfjarðarbæjar í húsnæðiskostnaði skólans að það geti leitt til þess að ríkinu beri að yfirtaka samningsskulbindingar bæjarins.

      Í ljósi framangreinds, þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun Alþingis í málinu telja fulltrúar Samfylkingar og VG óeðlilegt að bæjaryfirvöld taki þátt í vinnu við að innleiða ákvörðun ráðherra, þvert á fyrirliggjandi samþykkt bæjarstjórnar í málinu.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar óska bókað:
      Bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks harma þær dylgjur sem minnihlutinn setur fram í bókun sinni.
      Staða málsins er í óbreyttum farvegi frá síðasta fundi bæjarstjórnar og afstaða bæjarstjórnar sú sama. Varðandi mögulegan starfshóp er beðið svars frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um innihald erindisbréfs, ákvörðun um skipun í hópinn bíður þess svars.
      Hver sem framvindan verður héðan í frá mun meirihluti bæjastjórnar enn sem fyrr beita sér fyrir öflugu iðnnámi í Hafnarfirði.

    • 1407243 – Tímabundið leyfi frá bæjarstjórn

      Lagður fram töluvpóstur Margrétar Gauju Magnúsdóttur frá 10. júlí 2015 þar sem hún óskar eftir tímabundnu leyfi sem bæjarfulltrúi frá og með 21. júlí 2015 til 20. júní 2016 með vísan í 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

      Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir að veita Margréti Gauju Magnúsdóttur leyfi til ákveðins tíma eða þar til hún flytur lögheimili að nýju í sveitarfélagið.

    • 1507104 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2016

      Lögð fram tímaáætlun fyrir fjárhagsáætlunargerð 2016.
      Fjármálastjóri mætti á fundinn.

    • 1507109 – Innri endurskoðun, útboð

      Lagt fram erindi fjármálastjóra þar sem óskað er eftir heimild til útboðs á innri endurskoðun bæjarins í samvinnu við Kópavogsbæ.

      Bæjarráð felur fjármálastjóra og bæjarstjóra að vinna áfram í málinu með Kópavogsbæ.

    • 1506537 – Fasteignamat 2016

      Lagt fram erindi Þjóðskrár dags. 24. júní 2015 þar sem kynntar eru niðurstöður endurmats fasteigna og tekur nýtt fasteignamat gildi næsta 31. desember.

      Lagt fram.

    • 1212213 – Staðarmörk sveitarfélaga, óbyggðanefnd

      Lagður fram tölvupóstur Guðmundar Benediktssonar hrl dags. 13. júlí 2015 með matsbeiðni vegna mats á landi sem óbyggðanefnd úrskurðaði innan Hafnarfjarðar og fyrirspurn um hvort gerðar séu athugasemdir við tilgreinda matsmenn.

      Bæjarráð áskilur sér rétt til að skoða þetta mál frekar áður en stofnað verði til kostnaðar vegna þessa og felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

    • 1506568 – Hjúkrunarheimili Sólvangssvæði

      Tekin fyrir að nýju drög að erindisbréfi fyrir starfshóp um hjúkrunarheimilið.
      Tilnefningar í starfshóp.

      Bæjarráð tilnefnir:
      Helga Ingólfsdóttir
      Guðlaug Kristjánsdóttir
      Sigurður P. Sigmundsson
      Gylfi Ingvarsson
      Birna Ólafsdóttir

    • 1506552 – Flatahraun 5b, Norður og niður, tímabundið áfengisleyfi

      Tekin fyrir að nýju umsagnarbeiðni Sýslumannsins á höguðborgarsvæðinu vegna tímabundins áfengisleyfis.
      Lagt fram minnisblað sviðsstjóra stjórnsýslu.

      Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

    • 1507008 – Flatahraun 5b, Norður og niður, rekstarleyfi, beiðni um umsögn

      Lagt fram erindi Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu dags. 1.7.2015 þar sem óskað er eftir umsögn vegna endurnýjunar á rekstrarleyfi f. ofangreindar veitingastað.

      Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við endurnýjun rekstrarleyfis fyrir veitingastað í flokki III að Flatahrauni 5b í Hafnarfirði. Hins vegar verði heimild til lengri opnunartíma, til kl. 04:00 aðfaranótt laugardags, sunnudags eða almenns frídags aðeins veitt til eins árs þar sem þar er um að ræða undanþágu frá ákvæðum Lögreglusamþykktar Hafnarfjarðarkaupstaðar.

    • 1502365 – Kirkjuvellir 1, Ástjarnarkirkja, safnaðarheimili, nýting, lóð og bílastæði

      Lagt fram erindi sóknarnefndar Ástjarnarkirkju dags. 1.6.2015 þar sem óskað er eftir viðræðum við Hafnarfjarðarbæ vegna byggingar nýs safnaðarheimilis.

      Lagt fram. Bæjarstjóra falið að óska eftir frekari upplýsingum.

    • 1409081 – Golfklúbburinn Keilir, viðræður

      Lagður fram samningur við Golfklúbbinn Keili vegna framkvæmda við breytingar á Hvaleyrarvelli, 1. áfanga, sem undirritaður var með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning.

    • 1501094 – Lausar lóðir og verð 2015

      Lagt fram yfirlit yfir lausar íbúðalóðir.

      Bæjarstjóri kynnti málið.

    • 1506567 – Stjórnsýslubreytingar 2015

      Lögð fram úttekt Capacent á rekstri og stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar sem og greining R3 ráðgjafar á fjölskylduþjónustunni.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Fulltrúar minnihlutans ítreka athugasemdir sínar við ólýðræðisleg vinnubrögð fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í málinu og hvernig þeir hafa valið að standa að ákvörðunum sínum og framkomu gagnvart starfsfólki bæjarins.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
      Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar harma það að fulltrúar minnihlutans hafi ákveðið að segja sig frá vinnu við úttektir á greiningu og rekstri bæjarins sem brýnt var að ráðast í vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

    • 1506546 – Stjórnskipulag, tillaga að breytingum

      Lögð fram eftirfarandi tillaga sem bæjarstjórn vísaði til bæjarráðs á fundi sínum 29. júní sl.:
      “Samskiptareglur milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins
      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarstjóra að undirbúa gerð samskiptareglna milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins.
      Mikilvægt er að skýrar línur séu á milli þess hvað telja megi hlutverk kjörinna fulltrúa annars vegar og starfsmanna hins vegar, þannig að starfsmenn og kjörnir fulltrúar þekki valdsvið hvers annars. Samskiptareglur af þessu tagi eru til þess fallnar að skerpa skilin, skýra hlutverk, tryggja faglega afgreiðslu og auka öryggi við og flýta fyrir afgreiðslu mála.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar samþykkja að vísa þessum lið til umfjöllunar í forsetanefnd.
      Fulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG benda á á á Íslandi eru í gildi sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, sem m.a. kveða á um skyldur sveitarstjórnarmanna og þann rétt sem þeir hafa m.a. til að sinna hlutverki sínu. Hvergi er gert ráð fyrir því í lögum að framkvæmdarstjórar sem ráðnir eru af sveitarstjórnum setji fulltrúum í viðkomandi sveitarstjórn starfsreglur. Þvert á móti er gert ráð fyrir að það verkefni sé í höndum sveitarstjórnarmanna sjálfra.

      í upphafi síðasta kjörtímabils samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar sérstakar siðareglur kjörinna fulltrúa sem m.a. fjalla um valdmörk og verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og starfsfólks. Þrátt fyrir að kveðið sé á um það í 29. grein sveitarstjórnarlaga að slíkar reglur skuli samþykkja við upphaf hvers kjörtímabils eða þær eldri staðfestar formlega þá hefur engin slík samþykkt átt sér staðí bæjarstjórn Hafnarfjarðar eftir síðustu kosningar. Sé raunverulegur vilji til þess hjá fulltrúum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks að leiðbeina öðrum kjörnum fulltrúum um hlutverk sitt væri mögulega ráð að byrja á þeim stað sem gildandi lög kveða á um að skuli gert og hefja vinnu við endurskoðun siðareglnanna.

      Þá er rétt að benda fulltrúum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks á að í gildi eru sérstakar verklagsreglur hjá Hafnarfjarðarbæ um aðgengi bæjarfulltrúa að gögnum. Reglurnar sem samþykktar voru 2. júní 2009 byggja á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og fjalla m.a. um hvernig kjörnir fulltrúar eigi að bera sig að í upplýsingaöflun og samskiptum sínum við stjórnkerfi sveitarfélagsins í þeim tilgangi að geta sinnt lögboðnu hlutverki sínu. Telji fulltrúar meirihlutans ástæðu til þess að taka þær reglur til endurskoðunar væri eðlilegt að þeir gerðu tillögu þess efnis til bæjarstjórnar eða tækju þær upp til meðferðar í forsetnaefnd.

      Þá benda fulltrúar minnihlutans á að í tillögunni sjálfri felst slíkur skortur á skilningi á ólíkum hlutverkum kjörinna fulltrúa og embætissmanna að segja má að hún ein og sér gefi tilefni til sérstakrar skoðunar og umræðu á meðal kjörinna fulltrúa. Sú hugmynd að ætla bæjarstjóra að setja kjörnum fulltrúum reglur af þessu ber að okkar mati vott um fullkomið skilningsleysi á hlutverki kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
      Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks lýsa furðu á bókun sem tekur ekki tillit til afgreiðslu dagskrárliðarins.
      Tillaga ráðgjafa til bæjarstjórnar hljóðar upp á að fela bæjarstjóra að koma umfjöllun samskiptareglna í farveg en meirihluti bæjarráðs vísar verkefninu til forsetanefndar en ekki bæjarstjóra. Því er þessi bókun minnihlutans rökleysa, sem og sú afstaða að greiða ekki atkvæði með vísun málsins til forsetanefndar frekar en bæjarstjóra.
      Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar er endurskoðun siðareglna í farvegi hjá forsetanefnd, þar sem verið er að endurskoða þær reglur frá grunni. Í framhaldi af þeirri vinnu verða nýjar siðareglur samþykktar. Því er vel við hæfi að ræða mögulega gerð samskiptareglna á sama vettvangi, þar sem um skörun getur verið að ræða.
      Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fagna hvers konar viðleitni til að skýra ferla, ákvarðanatöku og vinnulag hjá Hafnarfjarðarbæ og telja slíkt ævinlega jákvætt og til bóta. Skilningur fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks á umræddri tillögu um starfsreglur er sá að hér sé um að ræða ábendingar frá starfsfólki bæjarins sem rétt sé að bæjarfulltrúar taki til sín og ræði með yfirveguðum hætti.
      Jafnframt má benda á að Kópavogsbær samþykkti samskiptareglur af þessu tagi árið 2012.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG benda á að tillagan er frá upphaf mjög villandi og að því er virðist lítt ígrunduð. Engin kannast við höfundarrétt á tillögunni sem frá upphafi hefur gert ráð fyrir því að bæjarstjóra verði falið að móta samskiptareglur fyrir kjörna fulltrúa.
      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG fagna aftur á móti þeim upplýsingum sem hér koma fram um að siðareglur bæjarfulltrúa séu til ítarlegrar endurskoðunar í forsetanefnd, sem síðast kom saman til fundar fyrir tæpum níu mánuðum síðan.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
      Í skýrslu Capacent um úttekt á rekstri Hafnarfjarðarbæjar, sem er að finna á vef Hafnarfjarðarbæjar, sem og í útsendum gögnum fyrir bæjarráðsfund dagsins segir á blaðsíðu 199:
      „6. Samskiptareglum verði komið á
      Lagt er til að mótaðar verði samskiptareglur milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins. Í viðtölum kom fram að oft væri til staðar óskýr lína á milli þess hvað telja megi hlutverk kjörinna fulltrúa annars vegar og starfsmanna hins vegar, slíkt gæti valdið töfum á afgreiðslu mála og skapað óöryggi á meðal starfsmanna. Kópavogsbær innleiddi slíkar reglur undir lok árs 2012 með ágætis árangri en þar voru markmið meðal annars að skerpa skilin, að skýra hlutverkin og tryggja enn frekar faglega afgreiðslu allra mála.
      Samskiptareglur af þessu tagi þarf að semja í nánu samráði við þá sem eiga að nota þær og með það að leiðarljósi að reglurnar styðji fólk í störfum sínum.
      Mögulegur ávinningur: Ávinningur felst ekki síst í faglegri stjórnsýslu og aukinni skilvirkni á milli sveitarstjórnar og stjórnsýslu.“
      Um endurskoðun siðareglna og fundi forsetanefndar hafa allir oddvitar í bæjarstjórn haft jafna vitneskju og ekkert nýtt sem hér hefur komið fram í þeim efnum.

    • 1507135 – STH ályktun vegna skipulagsbreytinga hjá Hafnarfjarðarbæ

      Tekin til umfjöllunar ályktun stjórnar STH vegna skipulagsbreytinga hjá Hafnarfjarðarbæ.

      Kynnt.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      „Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna taka undir ályktun starfsmannafélags Hafnarfjarðar þar sem vinnubrögð við skipulagsbreytingar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar eru gagnrýnd harkalega. Fólki hefur verið tilkynnt á sumarleyfistíma, munnlega um niðurlagningu og tilfærslur starfa án upplýsinga um nýjar starfslýsingar, starfskjör eða starfslok. Er það einnig algerlega óforsvaralegt að enn hafa starfsmenn ekki fengið skriflega uppsögn eða skriflegar tilkynningar þar um.“

    • 1507119 – Fjölskylduþjónustan, ályktun starfsmanna

      Tekin til umfjöllunar ályktun starfsmanna fjölskylduþjónustunnar sem bæjarfulltrúar fengu senda.

      Bæjarstjóri skýrði frá fundi sínum með starfsmönnum fjölskylduþjónunnar í gær þar sem efni ályktunarinnar var rætt og
      farið yfir ferlið framundan við úrvinnslu tillagna ráðgjafa.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna taka undir ályktun starfsmanna Fjölskylduþjónustunnar. Með breytingum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar á Fjölskylduþjónustunni er stefnt í voða því góða starfi sem unnið hefur verið þar undanfarin fimm ár. Árið 2011 vann Capacent í nánu samstarfi við starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar að gagngerum breytingum sem samrýmdust þeirri þróun og breytingum sem orðið höfðu á verkefnum Fjölskylduþjónustunnar.
      Breytingar meirihluta Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar sem staðið er frammi fyrir nú eru ekki byggðar á faglegum grunni og eru ekki unnar í neinu samstarfi við starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar.
      Munu þessar breytingar meirihlutans bitna á þeim íbúum Hafnarfjarðar sem mesta aðstoð þurfa. Gagnrýnivert er einnig að breytingar meirihlutans hafa átt sér stað á sumarleyfistíma starfsmanna, sem hafa í einhverjum tilvikum fengið símtal um að störf þeirra verði lögð niður eða að þeir verði færðir til í starfi. Þannig vinnubrögð geta ekki talist góð vinnubrögð.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
      Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fagna málefnalegum ábendingum starfsfólks sem eru nauðsynlegt innlegg í þá vinnu sem framundan er við útfærslu umbótatilagna ráðgjafa. Í ljósi mikilvægis þjónustunnar verður meginmarkmiðið að viðhalda öflugri starfsemi félagsþjónustunnar og því er hræðsluáróðri og hrakspám fulltrúa minnihlutans vísað á bug. Ábyrgð bæjarfulltrúa í vinnunni framundan lítur að því að vega saman óumflýjanlega aðlögun að slæmri fjárhagsstöðu og eflingu þjónustu til bæjarbúa. Er skorað á fulltrúa minnihlutans að láta til sín taka í því verkefni.

    • 1507125 – Uppsagnir starfsfólks, fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar og VG

      Lögð fram eftirfarandi beiðni bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um upplýsingar sem send var í tölvupósti 13. júlí sl. með ósk um svar sólarhring fyrir fund:

      Hversu mörgum starfsmönnum hefur verið sagt upp eða verið tilkynnt um uppsögn í tengslum við þær skipulagsbreytingar sem meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafa boðað?

      Hvers vegna var starfsfólki aðeins tilkynnt munnlega um fyrirhugaðar uppsagnir en ekki með formlegum hætti?

      Hver er meðalaldur þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum, flokkað eftir sviðum?

      Hversu margir af þeim sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum eiga innan við 10 ár í áætluð starfslok, m.v. 67 ára lífaldur og/eða fullan rétt til töku lífeyris.

      Hver er meðalstarfsaldur þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum, flokkað eftir sviðum?

      Hversu margir af þeim sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum hafa starfað í 20 ára eða meira fyrir Hafnarfjarðarbæ?

      Hver er áætlaður heildarkostnaður vegna greiðslu biðlauna þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum?

      Hver er áætlaður heildarkostnaður vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum?

      Hvaða skipulagsbreytingar kalla á flutning starfsfólks á milli sviða og hvar hafa þær verið samþykktar?

      Bæjarstjóri skýrði frá því að starfsmannamálin væru enn í vinnslu hjá bæjarstjóra, mannauðs- og sviðsstjórum og spurningunum yrði svarað þegar þau væru til lykta leidd.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Engin svör voru lögð fram á fundinum við spurningum bæjarfulltrúa til bæjarstjóra. Fulltrúar minnihlutans hafa ekki verið upplýstir um uppsagnirnar, umfang þeirra og framkvæmd, heldur hafa þeir þurft að lesa um þær í fjölmiðlum. Það erfitt að sjá hvernig kjörnir fulltrúar eiga að geta sinnt hlutverki sínu við slíkar aðstæður.
      Á fundinum upplýstist að ekki lægi enn fyrir endanlegt umfang uppsagna og fjöldi þeirra sem færðir verða til í starfi. Engin greining liggur heldur fyrir um áætlaðan kostnað vegna breytinganna, m.a. vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti og vegna biðlauna.
      Engin svör komu fram um hvers vegna starfsfólki var aðeins tilkynnt munnlega um fyrirhugaðar uppsagnir en ekki með formlegum hætti.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
      Aðkoma kjörinna fulltrúa að starfsmannamálum takmarkast í samræmi við samþykktir bæjarins við ráðningu bæjarstjóra og aðra starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður. Komið hefur fram á fundinum að bæjarstjóri mun gera kjörnum fulltrúum grein fyrir stöðunni þegar hún liggur endanlega fyrir.

    • 1507120 – Aðkeypta ráðgjöf sl. 12 mánuði, kostnaður

      Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, sem barst var í tölvupósti 13. júlí sl., og svar við henni, Yfirlit yfir ráðgjafa og lögfræðikostnað:

      “Hver er heildarkostnaður aðkeypta ráðgjöf og lögfræðikostnað (fyrir öll svið bæjarins þar með talið úttekt á Hafnarfjarðarhöfn og staðsetningu hjúkrunarheimilis) síðustu 12 mánuði?”

      Bæjarstjóri gerði grein fyrir kostnaði vegna úttektar sem fram hefur farið á rekstri bæjarins:

      Úttekt R3 ráðgjöf vegna fjölskylduþjónustu 3.417.500
      Úttekt Capacent vegna annarra sviða 8.225.000
      Samtals úttekt vegna rekstur bæjarsjóðs 11.642.500

      Úttekt Capacent vegna hafnar 3.052.000
      Úttekt R3 ráðgjöf vegna íþróttamála 1.562.500
      Samtals úttekt vegna sviða, íþróttamála og hafnar 16.257.000

      Á síðasta ári gerði Capacent samanburð á kostum og göllum þess að staðsetja hjúkrunarheimili við Sólvang eða Skarðshlíð kostnaður við þá úttekt nam samtals 1.700.000 kr.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
      Samkvæmt framlögðum gögnum nema viðskipti Hafnarfjarðarbæjar við ráðgjafafyrirtækin R3 og Capacent tæpum 18 milljónum króna sl. 12 mánuði.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
      Kostnaður vegna úttekta undanfarna mánuði á rekstri bæjarins, hafnarinnar sem og samskipta við íþróttafélög er sem hér segir:
      Rekstrarúttekt (Capacent og R3 samtals): 11.642.500
      Höfnin: 3.052.000
      Íþróttaskýrsla: 1.562.500.
      Til samanburðar má nefna að ráðgjöf vegna Áfram verkefnisins sem unnin var fyrir fjölskyldusvið árið 2014, kostaði rúmar 16 milljónir á meðan nýleg rekstrarúttekt á öllum sviðum bæjarins nam innan við 12 milljónum.
      Sé heildarkostnaðurinn settur í samhengi þá nam hann síðustu 12 mánuði um 140 milljónum, en sambærileg tala fyrir árið 2014 var 252 milljónir, þar af greiðslur til HF verðbréfa upp á um 140 milljónir. Einn samningur frá árinu 2014 var því jafnstór og síðustu 12 mánuðir í heild.

    • 1507130 – Aðkeypt ráðgjöf frá árinu 2011

      Lagt fram yfirlit yfir ráðgjafa- og lögfræðiþjónustu tímabilið 2011 – 30.6.2015 skv. beiðni formanns bæjarráðs sendí í tölvupósti 14. júlí sl.

      Vísað til gagna sem lögð voru fram undir lið 18 í fundargerðinni.

    Fundargerðir

    • 1507006F – Hafnarstjórn - 1472

      Lögð fram til kynningar fundargerð hafnarstjórnar frá 7. júlí sl.

    • 1507004F – Stjórn Hafnarborgar - 333

      Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Hafnarborgr frá 1. júlí sl.

    • 1501023 – Fundargerðir 2015, til kynningar í bæjarstjórn

      Lagðar fram eftirfarandi fundargerði til kynningar í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar:

      Fundargerð fjölskylduráðs frá 3.7. sl.
      Fundargerð fræðsluráðs frá 9.7. sl.
      Fundargerðir skipulags- og byggingarráðs frá 3.7., 10.7. og 14.7 sl.
      Fundargerðir umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 1.7. sl.

Ábendingagátt