Bæjarráð

13. ágúst 2015 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3413

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir varaformaður
  • Gunnar Axel Axelsson aðalmaður
  • Ófeigur Friðriksson aðalmaður
  • Elva Dögg Ásud. Kristinsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Ólafur Ingi Tómasson varamaður
  • Unnur Lára Bryde varamaður

Auk ofangreindra ráðsmanna sat Kristján Sturluson sviðsstjóri fundinn.

Ritari

  • Jóna Ósk Guðjónsdóttir ritari bæjarráðs

Auk ofangreindra ráðsmanna sat Kristján Sturluson sviðsstjóri fundinn.

  1. Almenn erindi

    • 1508097 – Matbær, veitingatjald tækifærisleyfi, umsókn

      Lagt fram erindi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu dags. 7.8.2015 þar sem óskað er eftir umsögn um tækifærisleyfi vegna bæjarhátíðar 16. ágúst nk.

      Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við útgáfu ofangreinds tækifærisleyfis að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
      ? Að nægileg gæsla sé á svæðinu til að tryggja eftirlit með aðgangi barna og ungmenna.
      ? Að opnunartími sé innan þeirra marka sem gilda um veitingastað í flokki II, sbr 2. málsgr. 26. gr. lögreglusamþykktar fyrir Hafnarfjarðarkaupstað.

    • 1506044 – Reykjavíkurvegur 60, veitingahús, rekstrarleyfi, beiðni um umsögn

      Lagt fram erindi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðisins dags. 29. 5. þar sem óskað er eftir umsögn um endurnýjað rekstrarleyfi ofangreinds aðila.

      Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við nýtt rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki III að Reykjavíkurvegi 60 í Hafnarfirði. Hins vegar verði heimild til lengri opnunartíma, til kl. 04:00 aðfaranótt laugardags, sunnudags eða almenns frídags aðeins veitt til eins árs þar sem þar er um að ræða undanþágu frá ákvæðum Lögreglusamþykktar Hafnarfjarðarkaupstaðar.

    • 1410264 – Bæjarbíó og Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar

      Lögð fram tillaga menningar- og ferðamálanefndar um samning við Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar um rekstur Bæjarbíós.

      Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og óskar jafnframt eftir greinargerð um starfsemina síðastliðið ár áður en samningurinn verður staðfestur.

    • 1408105 – Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og stofnana hans 2015 - 2025

      Lagður fram Viðauki II við fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Hafnarfjarðar 2015.
      Fjármálastjóri mætti á fundinn og gerði grein fyrir viðaukanum.

      Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi viðauka II við fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Hafnarfjarðar.

    • 1508129 – Árshlutauppgjör 2015

      Fjármálastjóri mætti til fundarins.
      Lagt fram 6 mánaða uppgjör fyrir Bæjarsjóð Hafnarfjarðar og stofnanir hans.

      Lagt fram til kynningar.

    • 1505404 – Leikskóla- og daggæslumál

      Sviðsstjóri fræðslusviðs mætti til fundarins.
      Lagðar fram eftirfarandi tillögur í leikskóla- og dagvistarmálum sem vísað var til bæjarstjórnar á fundi fræðsluráðs 1. júní sl.

      Tillögur í leikskóla- og dagvistarmálum í Hafnarfirði

      Markmiðið með breytingum á innritunarreglum er að lækka innritunaraldur barna í leikskóla en einnig að treysta dagforeldrakerfið og minnka útgjöld barnafjölskyldna.
      Stefnt er að því að á kjörtímabilinu verði börn 18 mánaða á því ári sem þau innritast í leikskóla. Innritunaraldur verður lækkaður um einn mánuð á ári við hverja innritun í ágúst og febrúar þar til því takmarki verður náð. Með tillögunum eru einnig stigin fyrstu skref í að lækka útgjöld barnafjölskyldna. Vinna starfshóps sem m.a. tekur á gjaldskrám er enn í fullum gangi og frekari breytinga á gjöldum að vænta áður en langt um líður. Tillögurnar gera ráð fyrir að:

      Tillaga A
      1. ágúst 2015
      A.1 verði börn fædd í janúar og febrúar 2014 innrituð í leikskóla

      A2 niðurgreiðsla í dagforeldravistun hækki úr 40.000 kr. í 50.000 kr á mánuði.

      A3 mótframlag í dagforeldravistun hækki við 18 mánaða aldur

      A4 hafinn verði undirbúningur í 1-2 leikskólum á tilraunaverkefni um sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla

      Tillaga B
      1. febrúar 2016
      – verði börn fædd í mars og apríl (eftir því sem pláss leyfir) 2014 innrituð í leikskóla

      Tillaga C
      1. ágúst 2016
      – verði börn fædd í jan, feb, mars 2015 innrituð í leikskóla

      Tillaga D
      1. febrúar 2017
      – verði börn fædd í apríl og (e. plássi) maí 2015 innrituð í leikskóla.

      Greinargerð:
      Í gildi eru innritunarreglur í leikskóla Hafnarfjarðarbæjar sem miða við að börn fá leikskólapláss á árinu sem þau verða 2ja ára en börn í forgangshópi hafa komist fyrr að. Undanfarin ár hafa auk þess yngri börn verið innrituð í leikskóla eftir því sem pláss hafa losnað. Í skólastefnu Hafnarfjarðarbæjar frá árinu 2009 er kveðið á um að stefnt skuli að því að börn komist inn við 18 mánaða aldur. Með tillögunni sem hér er lögð fram er markmiðið að festa þá stefnu í sessi með skýrum og gagnsæjum hætti einkum gagnvart foreldrum og dagforeldrum og breyta um leið núgildandi innritunarreglum. Stefnt er að því að á kjörtímabilinu verði börn 18 mánaða á því ári sem þau innritast í leikskóla.
      Einnig er áhersla á að létta byrðar á barnafjölskyldum með því að auka til muna mótframlag til foreldra barna hjá dagforeldrum. Mótframlag til foreldra með börn hjá dagforeldrum verða hækkuð um 25% frá því sem nú er, eða úr 40.000 kr. í 50.000 kr. á mánuði. Í núgildandi reglum fá foreldrar barna sem orðin eru 2ja ára en hafa ekki fengið leikskólavist, aukið mótframlag vegna vistar hjá dagforeldrum. Þessum reglum verður breytt þannig að miðað verður við 18 mánaða aldur barnsins.
      Jafnframt verður tilraunaverkefni um sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla undirbúið og verða 1-2 leikskólar fengnir til að taka þátt í því. Reynsla þeirra af verkefninu verður höfð til hliðsjónar þegar ákveðið verður um slíkt skipulag til framtíðar.
      Við afgreiðslu tillögunnar í bæjarstjórn verða jafnframt lagðar fram tillögur um hvernig þessum útgjöldum verði mætt án útgjaldaauka fyrir bæjarsjóð. Verður útfærslan kynnt nánar við framlagningu viðaukans.

      Gert var fundarhlé kl. 10:25 – 10:52 að ósk fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna.

      Gert var fundarhlé að ósk Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar kl. 11:15 – 12:07.
      Gert var matarhlé til kl. 12:30

      Ólafur Ingi Tómasson vék af fundi kl. 11:50 og mætti Unnur Lára Bryde í hans stað.

      Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi tillögur með eftirfarandi hætti:

      Tillaga A1:
      Bæjarráð samþykkir tillögu A1 samhljóða með 5 atkvæðum.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG lýsa ánægju sinni með að meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafi fallið frá fyrri ákvörðun sinni um umtalsverða hækkun á innritunaraldri leikskóla frá og með næsta hausti líkt og meirihlutinn samþykkti í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram er sú ákvörðun að mestu dregin til baka og verður inntökualdurinn nær því sem hann var haustið 2014 þegar börn fædd í janúar, febrúar og fram í mars 2013 fengu úthlutað leikskólaplássi í Hafnarfirði.

      Fulltrúar minnihlutans hafa lagt áherslu á að vegna minni árganga væri svigrúm til raunverulegrar lækkunar innritunaraldurs næsta haust og hafa gert ítrekaðar tillögur þess efnis bæði i fræðsluráði og bæjarstjórn. Fyrir liggur að laus leikskólapláss eru um 30-40 talsins þegar börn fædd í janúar og febrúar hafa verið innrituð. Afgreiðslu tillagna minnihlutans hefur ýmist verið frestað eða vísað til umsagnar í starfshópum án þess að hljóta eðlilega og lýðræðislega umfjöllun í bæjarstjórn.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar benda á að samþykkt þessa nýja fyrirkomulags felur í sér varanlega lækkun á inntökualdri í hafnfirska leikskóla sem áður gat verið tilviljunum háð. Fram að þessu hefur innritun barna undir tveggja ára aldri verið frávik en ekki regla. Héðan í frá búa foreldrar við vissu um rétt barna sinna. Þetta er fyrsta formlega skrefið sem tekið er í þá átt að lækka innritunaraldur niður fyrir 2 ár, sem staðfestir styttingu hins óbrúaða bils milli fæðingarorlofs og leikskóla ekki síst í ljósi þess að verið er að auka niðurgreiðslur í dagforeldrakerfið. Ef svigrúm hefði verið fyrir hendi til að nýta enn fleiri pláss í haust hefði það verið gert.”

      Tillaga A2:
      Bæjarráð samþykkir tillögu A2 samhljóða með 5 atkvæðum.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG gera athugasemd við að ekki liggi fyrir með hvaða hætti eigi að tryggja að aukin niðurgreiðsla skili sér til foreldra.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks taka undir þá skoðun að rammi utan um dagforeldrakerfið sem hingað til hefur verið í gildi hafi ekki veitt tryggingu fyrir því að niðurgreiðslan skili sér til foreldra og áréttar að vinna við breytingar þar á hefur verið sett í farveg á þessu kjörtímabili.”

      Tillaga A3:
      Bæjarráð samþykkir tillögu A3 með 5 atkvæðum.

      Tillaga A4:

      Bæjarráð samþykkir tillögu A4 með 3 atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingar og VG sitja hjá.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Tillaga um gjaldfrjálsan leikskóla er fullkomlega órökstudd og án þess að fyrir liggi nokkuð um möguleg áhrif hennar m.a. á mismunandi tekjuhópa foreldra. Í tillögunni felst að sex klukkustundir verði gjaldfrjálsir en foreldrar sem vinna fullan vinnudag þurfi eftir sem áður að greiða óbreytt leikskólagjöld. Margt bendir því til að tillögunni sé fyrst og fremst ætlað að draga úr gjöldum hjá afmörkuðum hópi þeirra sem hæstar tekjur hefur. Ekkert virðist heldur hafa verið kannað hvaða áhrif slíkt fyrirkomulag getur haft m.a. á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ef raunverulegur vilji er til að draga úr leikskólagjöldum eða afnema þau með öllu er eðlilegra að það sé gert með tilliti til aðstæðna meirihluta foreldra og með almennum lækkunum.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG telja tillöguna ekki tæka til afgreiðslu og aðeins enn eitt dæmið um fullkomlega óboðleg vinnubrögð meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Í tillögunni felst að undirbúin verði tilraun um gjaldfrjálsan leikskóla í 1-2 leikskólum bæjarins til þess m.a. að kanna möguleg áhrif hennar á mismunandi tekjuhópa foreldra.

      Á seinasta kjörtímabili voru gjöld fyrir tíma umfram átta klukkustunda leikskóladvöl hækkuð verulega, m.a. til að stytta leikskóladag barna. Þessi tilraun getur miðað að því sama án þess að hækka álögur á íbúa og barnafjölskyldur.”

      Tillaga B:
      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi breytingartillögu:

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að ef næg leikskólapláss eru laus til ráðstöfunar svo hægt sé að mæta óskum foreldra barna fæddum í mars og apríl 2014, þá verði þeim plássum úthlutað frá og með september 2015.

      Greinargerð:
      Engin rök liggja fyrir um hvers vegna laus pláss ættu að vera til staðar í leikskólum Hafnarfjarðar í janúar á næsta ári sem ekki eru til staðar til úthlutunar í dag. Ef plássin eru laus nú þegar teljum við eðlilegt að þau séu nýtt í þágu foreldra og barna og þannig komið betur til móts við þarfir þeirra og óskir.

      Bæjarráð felldi framkomna breytingartillögu með 3 atkvæðum gegn 2.

      Bæjarráð samþykkir tillöguna með 3 atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingar og VG sitja hjá.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Það væri óskandi að fjárhagur bæjarins leyfði framkvæmd þessarar tillögu. Fulltrúar minnihlutans vita betur.”

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Það liggur fyrir að plássin eru til staðar til að taka inn börn fædd í mars og hluta þeirra barna sem eru fædd í apríl 2014. Engin gögn liggja fyrir sem styðja við þá fullyrðingu fulltrúa meirihlutans að umtalsverður sparnaður náist fram með því að nýta þau ekki heldur láta þau standa óúthlutuð fram til áramóta. Hér er því fyrst og fremst um að ræða ákvörðun sem byggir á pólitískum áherslum meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks og þeirri forgangsröðun sem í þeim endurspeglast.”

      Fulltrúar Sjálfstæðiflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Því fer fjarri að hér sé um pólistíska yfirlýsingu að ræða, heldur er verið að ganga eins lagt og hægt er í átt að lækkun innritunaraldurs.”

      Tillaga C:

      Bæjarráð samþykkir tillögu C með 5 samhljóða atkvæðum.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Fulltrúar Samfylkingar og Vg benda á að þessi tillaga er í samræmi við þá framkvæmd sem viðhörfð var við innritun leikskólabarna haustið 2014. Fulltrúar Samfylkingar og VG hafa gert ítrekaðar tillögur um lækkun inntökualdurs án þess að fulltrúar meirihlutans hafi tekið undir þær. Þrátt fyrir að hér sé ekki um slíkt að ræða ítrekum við ánægju okkar með að meirihlutinn hafi með þessu dregið til baka fyrri ákvörðun sína um hækkun innritunaraldurs leikskólabarna sem samþykkt var í desember sl. Fulltrúar Samfylkingar greiða því atkvæði með tillögunni.”

      Tillaga D:

      Bæjarráð samþykkir tillögu D með 3 atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingar og VG sitja hjá.

    • 1508131 – Leikskólar og dagforeldrar, gjaldskrá og afsláttur

      Lagðar fram tillögur um tekjuviðmið vegna afsláttar og gjaldskrá vegna dagforeldra.
      Rekstrarstjóri fræðslusviðs mætti til fundarins og gerði grein fyrir breytingunum.

      Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi tillögur um breytta gjaldskrá vegna leikskóla og niðurgreiðslur til dagforeldra.

    • 1507125 – Uppsagnir starfsfólks, fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar og VG

      Lögð fram svör við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar og VG frá 13. júlí.
      Mannauðsstjóri mætti til fundarins og ´gerði grein fyrir svörunum.

      Gert var fundarhlé að ósk Samfylkingar og VG kl. 14:20 – 14:35

      Lagt fram.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:

      “Fulltrúar minnihlutans harma það hvernig staðið hefur verið að uppsögnum starfsmanna í tengslum við skipulagsbreytingar meirihlutans á stjórnsýslu Hafnarfjarðar. Af svörum við spurningum minnihlutans má sjá að meðalaldur þeirra 12 starfsmanna sem sagt hefur verið upp er 55,3 ár og alls sjö starfsmenn eiga einungis 10 ár eða minna í áætluð starfslok ( sé miðað við 70 ár) . Af þessu má sjá að með þessum aðgerðum er vegið að eldra og reynslumeira starfsfólki bæjarins.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG benda á að í viðbótarskýringu sem fram kemur með svari við fyrirspurninni og því er haldið fram að niðurlagning stöðugilda skili 127 milljón króna sparnaði fyrir bæjarsjóð á ársgrundvelli hefur ekki verið tekið tillit til launakostnaður þeirra nýju embætta sem auglýst hafa verið laus til umsóknar. Það vekur furðu að svo villandi fullyrðingar séu settar fram í formlegu svari við fyrirspurn kjörinna fulltrúa og erfitt að sjá hvaða tilgangi það á að þjóna.

      Fulltrúar minnihlutans benda jafnframt á að ef fulltrúar meirihlutans eða bæjarstjóri vilja koma sínum sjónarmmiðum á framfæri hafa þeir til þess sömu heimildir og fulltrúar minnihlutans með framlagningu gagna og bókana. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að þeir blandi þeim inn í formleg svör stjórnsýslunnar við fyrirspurnum annarra kjörinna fulltrúa líkt og hér er gert og önnur dæmi eru um.”

    • 1507311 – Strandgata 4, veggur, regnbogafáni hinsegin fólks

      Lagt fram erindi sem barst í tölvupósti 21. júlí sl. frá Bersanum – félagi ungra jafnaðarmanna Í Hafnarfirði þess efnis að fá að mála regnbogafánann á gaflinn á Standgötu 4..

      Bæjarráð samþykkir erindið og vísar útfærslu þess til umhverfis- og skipulagsþjónustu.

    • 1308536 – Breiðhella 3 og Hringhella 7, skipti á lóðum

      Lagt fram erindi Sigurðar Gylfasonar f.h. SSG ehf sent í tölvupósti 15. 7. sl. þar sem óskar er eftir að skipta á ofangreindum lóðum.

      Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við SSG ehf um lóðaskiptin.

    • 1508130 – Eigendafundir Sorpu bs. og Strætó bs.

      Lögð fram tillaga um umboð til Rósu Guðbjartsdóttur til að mæta fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

      Bæjarráð samþykkir að Rósa Guðbjartsdóttir verði fulltrúi bæjarins á fundinum með umboð Hafnarfjarðarbæjar.

    • 1403073 – Straumur útboð

      Tekin fyrir að nýju drög að samningi við Skemmtigarðinn um nýtingu svæðisins.

      Bæjarráð hafnar fyrirliggjandi drögum að samningi.

    • 1508139 – Launakjör bæjarstjóra, fyrirspurn

      Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn Samfylkingar og VG:
      “Hver eru samanlögð heildarlaun og launatengd gjöld vegna embættis bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar á fyrstu 6 mánuðum ársins 2015, samanborið við sama tímabil árið 2014?”

      Lagt fram svar við framlagðri fyrirspurn.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Eins og fram kemur í framlögðum gögnum hefur heildarlaunakostnaður vegna embættis bæjarstjóra aukist um 28% á einu ári eða um 4,6 milljónir króna á ársgrundvelli.”

    Fundargerðir

    • 1508002F – Stjórn Hafnarborgar - 334

      Lögð fram til kynningar fundargerð Hafnarborgar frá 4. ágúst sl.

      Lagt fram til kynningar.

    • 1501023 – Fundargerðir 2015, til kynningar í bæjarstjórn

      Lögð fram eftirfarandi fundargerð til kynningar í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar.

      Fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 11. ágúst sl.

      Lagt fram til kynningar.

Ábendingagátt