Bæjarráð

31. október 2018 kl. 13:00

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3506

Mætt til fundar

  • Ágúst Bjarni Garðarsson formaður
  • Kristinn Andersen varaformaður
  • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

  • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

  1. Almenn erindi

    • 1808075 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022

      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri mætir til fundarins.

      1. liður úr fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 29.október sl.
      Fjárhagsáætlun 2019-2022 tekin til umræðu.

      Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir framlagða rekstrar og fjárfestingaráætlun sviðsins og vísar til afgreiðslu bæjarráðs. Fulltrúi Samfylkingar, Friðþjófur Helgi Karlsson, situr hjá við atkvæðagreiðslu og óskar eftir því að eftirfarandi sé fært til bókar:
      Ég sit hjá m.a. vegna þess að mér finnst sú forgangsröðun sem birtist í henni ekki vera ásættanleg. Það er nauðsynlegt að mínu mati að forgangsraðað sé með skýrari hætti t.d. í þágu viðhalds á fasteignum bæjarins, eflingar á þjónustugetu þjónustumiðstöðvar, umhverfismála og uppbyggingu á grunnþjónustu s.s. eins og á leikskólarýmum í þeim hverfum þar sem vöntun er á slíku. Hvorki sú rekstraráætlun né fjárfestingaráætlun sem liggja hér fyrir sem hluti af fjárhagsáætlun endurspegla þær áherslur nægjanlega vel og þar eru m.a. áætlaðar háar fjárhæðir til framkvæmda í bæjarfélaginu sem ekki teljast til grunnþjónustu.
      Vil einnig ítreka athugasemdir mínar um það hversu seint gögn eru að berast ráðsmönnum og hversu lítið samráð hefur verið við vinnuna. Drög að fjárfestingaráætlun kom fyrst fyrir augu ráðsmanna síðastliðinn miðvikudag. Það er óásættanlegt og gerir ráðsmönnum erfitt með að setja sig inn í mál og taka afstöðu til þeirra svo vel sé. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram á fundi bæjarstjórnar næstkomandi miðvikudag þannig að tíminn fyrir fulltrúa minnihlutans til að fara yfir fjárhagsáætlunina hefur verið mjög naumur.

      Fulltrúar Bæjarlistans, Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, og Viðreisnar, Þórey Svanfríður Þórisdóttir, harma það að bærinn sé hér með að falla frá þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili, að bærinn byggi og eigi íþróttamannvirkin sín sjálfur. Við hörmum það einnig að hluti þeirra greiðslna til FH skuli hafa farið fram án þess að viðaukinn hafi fengið gildi. Einnig finnst okkur það fráleitt að haldið skuli áfram með málið á meðan kæruferli er í gangi. Er þessi leið, sem núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hefur kosið að fara; að greiða FH fyrir eignarhluti, sem virðast vera á reiki hverjir eru, á meðan að virði húsnæðisins sem fjárfesta á í er ekki á hreinu, finnst okkur vítavert kæruleysi með fjármuni bæjarbúa.

      3.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 29.október sl.
      Yfirferð á fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundarþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019

      Yfirferð fjárhagsáætlunar fræðslu- og frístundarþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019 lögð fram. Meirihluti fræðsluráð samþykkir fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundasviðs 2019 og samþykkir að vísa fjárhagsáælun fræðslu- og frístundasviðs til bæjarráðs. Fulltrúar Bæjarlistans og Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

      Fulltrúar minnihluta í fræðsluráði lögðu fram eftirfarandi bókun;
      Í fyrsta lagi: Góð vinna við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvægur hluti af vinnu kjörinna fulltrúa. Að geta unnið hana í sátt, með góða yfirsýn og skilning er grundvöllur góðrar stjórnsýslu. Það að gögn berist seint og tímarammi umræðu og vinnslu áætlunarinnar sé jafn þrjöngur og raun ber vitni er kjörnum fulltrúum og bæjarbúum ekki bjóðandi.

      Í öðru lagi: Við hörmum þá ákvörðun að ekki hafi verið gert ráð fyrir stöðugildi sálfræðs fyrir hvern skóla Hafnarfjarðar, inn í fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundaþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019.

      Teljum við mikilvægt að tryggt verði aðgengi að geðheilbriðgðisþjónstu innan veggja skólanna til að sinna þeim fjölmörgu og áríðandi verkefnum sem þar þarf að vinna. Felst sú vinna m.a. í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks, stuðningsviðtöl við börn og annarskonar forvarnir.

      Í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er beinlínis lögð sú skylda á skólayfirvöld að láta fara fram greiningar á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Ljóst er að sú greiningarvinna sem í dag er unnin, nægir ekki til að grípa strax inn í erfiðleika nemenda eða áður en vandinn verður að veruleika. Vegna þessa geta nemendur fallið aftur úr námslega séð, einangrað sig félagslega sem allt eykur á vanlíðan þeirra. Finni nemandi sig ekki í skóla vegna þeirra sálrænu erfiðleika, sem nemandinn fær ekki bót á, getur það verið greiðasta leiðin inn í heim þunglyndis, kvíða eða þaðan af verra.

      Að mati okkar er það fyrirkomulag að bæta við einum sálfræðing í fullt starf í hvern grunnskóla, ekki of dýrt þegar litið er til þeirra hagsmuna sem þar eru undir. Þurfum við öll að bera ábyrgð á efla allt geðheilbrigði innan skóla Hafnarfjarðarbæjar. Þá fyrst verður hægt að standa við loforð nánast allra flokka um snemmtæka íhlutun.

      Skorum við því á bæjaryfirvöld að breyta afstöðu sinni í þessu máli, sem hægt væri að koma í gagnið strax á fyrstu mánuðum næsta árs.

      Undir þetta rita fulltrúa minnihluta í fræðsluráði:
      Vaka Ágústsdóttir – Viðreisn
      Sigrún Sverrisdóttir – Samfylking
      Birgir Örn Guðjónsson – Bæjarlistinn
      Bjarney Grendal Jóhannesdóttir – Miðflokkurinn

      1.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 26.okt. sl.
      Yfirferð fjárhagsáætlunar fjölskylduþjónustsu fyrir fjárhagsárið 2019 lögð fram.
      Fjölskylduráð samþykkir fjárhagsáætlun fjölskylduþjónustu 2019. Fjölskylduráð samþykkir að vísa fjárhagsáælun fjölskylduþjónustu til bæjarráðs.

      4.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.okt.sl.
      Lögð fram tillaga að skipulagsverkefnum 2019-2022.

      Skipulags- og byggingarráð vísar tillögu að skipulagsverkefnum 2019-2022 til Bæjarráðs. Ráðið telur jafnframt að nauðsynlegt sé að ráðin sé lögfræðingur til Umhverfis- og skipulagsþjónustu. Skipulagsgerð og vinna tengdri henni er flókin og þarfnast oftar en ekki lögfræðilegrar yfirferðar. Viðkomandi lögfræðingur gæti verið hluti af lögfræðiteymi bæjarins.

      Fulltrúi Bæjarlistans leggur fram svohljóðandi bókun:
      Bæjarfulltrúi Bæjarlistans minnir á tillögu sína frá bæjarstjórnarfundi í júní síðastliðnum, sem vísað var til bæjarráðs en hefur ekki komið hér á dagskrá síðan. Tillagan er eftirfarandi:
      “Stytting vinnuviku hjá starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, tilraunaverkefni Hafið verði verkefni um styttingu vinnuviku í samráði við stéttarfélög og starfsfólk bæjarins. Starfsfólk félagsþjónustu hefur þegar óskað eftir slíkri tilraun og fjallaði bæjarráð um þá tillögu á fundi sínum þann 20. apríl síðastliðinn. Var bæjarstjóra falið að taka málið til skoðunar (1803258 – Stytting vinnuvikunnar, erindi). Einnig verði tekið upp samtal við aðrar stofnanir bæjarins um mögulegan áhuga á sambærilegu verkefni.” Forseti ber upp tillögu um að framkominni tillögu verði vísað til bæjarráðs og er það samþykkt samhljóða.
      Óskað er eftir því að afstaða verði tekin til þessarar tillögu í vinnu við fjárhagsáætlun 2019-2022.

      Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Ábendingagátt