Bæjarráð

24. október 2019 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3530

Mætt til fundar

  • Ágúst Bjarni Garðarsson formaður
  • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi
  • Rósa Guðbjartsdóttir varamaður

Einnig sat fundinn Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

  • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sat fundinn Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

  1. Almenn erindi

    • 1902408 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 og 2021-2023

      Tekið fyrir að nýju.
      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs, Sigurjón Ólafsson sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs og Guðmundur Sverrisson rekstarstjóri mæta til fundarins.

      1. liður úr fundargerð fjölskylduráðs 17. okt. sl.
      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram eftirfarandi bókun:
      Gjaldskrá á fjölskyldu- og barnamálasviði í Hafnarfirði er almennt lægri en í samanburðarsveitarfélögum. Samanburðarsveitarfélögin eru sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu og svo Akureyri.
      Mikilvægt er að leiðrétta gjaldskrá en samt þannig að Hafnarfjörður verður áfram með eina lægstu gjaldskrána. Fjölskylduráð óskaði eftir umsögn öldungaráðs vegna leiðréttingar á gjaldaskrá og er umsögn þeirra eftirfarandi: Öldungaráð Hafnarfjarðar gefur jákvæða umsögn um breytta gjaldskrá á fjölskyldu- og barnamálasviði. Þá vekur ráðið athygli á að þrátt fyrir breytingu á gjaldskrá til samanburðar við nágrannasveitarfélögin þá er Hafnarfjörður enn sem fyrr, lang lægstur. Ráðið fagnar því að frístundastyrk eldri borgara skuli viðhaldið. Öldungaráð Hafnarfjarðar minnir á yfirlýsingu Sambands Íslenskra sveitarfélaga vegna lífskjarasamninga.
      Tillaga Samfylkingarinnar:
      Samfylkingin leggur til að fjölskylduráð samþykki að gjaldskrárhækkanir á næsta ári verði í samræmi við yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga og fari ekki yfir 2,5%.
      Fulltrúi Samfylkingar segir já, fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar segja nei. Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram eftirfarandi tillögu varðandi leiðréttingu á gjaldskrá fjölskyldu- og barnamálasviðs:
      Heimaþjónusta, ellilífeyrisþegar og öryrkjar – hver klst.
      Í dag er hver klst. 610 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver klst. kosta 757 krónur. Meðaltal af gjaldskrá Kópavogs, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er 841 kr. hver klst. Til að tryggja að Hafnarfjörður verður áfram með einna lægstu gjaldskrána þá er tekið 90% af meðaltalinu og þá fæst 757 kr. hver klst.
      Heimaþjónusta, aðrir – hver klst.
      Í dag er hver klst. 800 kr. Frá 1. janúar 2020 mun hver klst. kosta 930 krónur. Meðatal af gjaldskrá Kópavogs, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er 1033 kr. hver klst. Til að tryggja að Hafnarfjörður verður áfram með einna lægstu gjaldskrána þá er tekið 90% af meðaltalinu og fæst þá 930 kr. hver klst.
      Ferðaþjónusta aldraðra – hver ferð.
      Í dag kostar hver ferð 240 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver ferð kosta 470 kr. Viðmiðið er fullt strætófargjald.
      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar segja já, fulltrúi Samfylkingar situr hjá. Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum.
      Tillögunni er vísað í bæjarráð vegna fjárhagsáætlunarvinnu 2020.
      Bókun fulltrúa Samfylkingarinnar:
      Fulltrúi Samfylkingarinnar styður ekki þær miklu gjaldskrárhækkanir sem lagðar eru til hér í dag. Heimaþjónusta aldraðra og öryrkja mun hækka um 24% og ferðaþjónusta aldraðra mun hækka um rúmlega 100%. Að mati Samfylkingarinnar er hér um alltof brattar hækkanir að ræða sem munu bitna á notendum og þær eru heldur ekki í neinu samræmi við yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga þar sem mælst var til þess að sveitarfélög hækkuðu ekki gjöld á þeirra vegum umfram 2,5% á næsta ári, en minna ef verðbólga væri lægri.
      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram eftirfarandi bókun:
      Undanfarin ár hefur liður 023, þjónusta við börn og unglinga, aukist umtalsvert. Helsta skýringin er vegna aukins vistunarkostnaðar. Gert er ráð fyrir að verkefnið Brúin sem er samstarfsverkefni fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs byrji að skila árangri á næsta ári. Verkefnið gengur út á snemmtæka íhlutun þegar kemur að aðstoð við börn og fjölskyldur. Vegna umfang málaflokksins og fjölgunar á málum er rétt að fara í úttekt á skipulagi barnaverndarstarfs í Hafnarfirði. Tilgangur úttektar er að fá faglegt og hlutlaust mat á skipulagi starfsins, úrræða, starfsumhverfis starfsmanna, verkaskiptingu og skilgreiningu á ábyrgðasviði. Úttektinni er m.a. ætlað að skerpa á verkferlum og styðja starfsmenn í því góða starfi sem þeir eru nú þegar að sinna.
      Fjölskylduráð leggur til að farið verði í eftirfarandi verkefni árið 2020:
      Velferðatækni fyrir eldri borgara. Námskeið fyrir eldri borgara til að nýta tæknina sem spjaldtölvur bjóða uppá. Í sveitarfélaginu höfum við mannauð og tæki til að sinna þessu verkefni. Tilgangur verkefnisins er að auka virkni, rjúfa félagslega einangrun og nýta mannauð betur.
      Yfirferð fjárhagsáætlunar fjölskyldu- og barnamálasviðs fyrir fjárhagsárið 2020 lögð fram.
      Fjölskylduráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun fjölskyldu- og barnamálasviðs til bæjarráðs.

      1. liður úr fundargerð fræðsluráðs 18. okt. sl.
      Fræðsluráð samþykkir meðfylgjandi fjárhagsáætlun og greinargerð og vísar til bæjarráðs til samþykktar.
      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun;
      Í fjárhagsáætlun mennta- og lýðheilsusviðs fyrir árið 2020 er lögð áhersla á áframhaldandi góða þjónustu fyrir börn og barnafjölskyldur. Á árinu 2019 hefur enn verið aukið við þjónustuna, líkt og undanfarin ár, og má þar nefna að nú býðst nemendum grunnskóla hafragrautur í upphafi skóladags þeim að kostnaðarlausu og boðið er upp á ávexti í millimál til kaups. Starfsmenn hafa sama aðgang að hressingu og hafragraut. Frístundastyrkur var hækkaður um 500 krónur á árinu og er nú 4500 á mánuði fyrir hvert barn. Þjónusta frístundabílsins hefur verið aukin og á næsta ári mun þeim börnum sem ekki eru á frístundaheimilum einnig standa til boða að nýta sér bílinn gegn gjaldi. Í ár hefur tekist að lækka innritunaraldur á leikskólana enn frekar, nýr leikskóli tók til starfa, starfsmannaaðstaða bætt á nokkrum leikskólum og rými barna og starfsmanna verið aukið samkvæmt áætlunum þar um.
      Fræðsluráð leggur til að börn að átján ára aldri fái frítt í sund og einnig er lagt til að lengja opnun félagsmiðstöðva fram í miðjan júní eða þar til grunnskólarnir fara í sumarfrí.
      Ekki er lagt til að gjaldskrár á mennta- og lýðheilsusviði hækki að undanskilinni hækkun á stökum sundferðum um 100 kr fyrir fullorðna og kostar þá sundferðin 700 kr. Í samanburði við nágrannasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er Hafnarfjörður enn með lægsta gjaldið á stakri sundferð, ásamt Garðabæ. Einnig leggur meirihluti fræðsluráðs til að fæðisgjald í leik- og grunnskólum hækki um 2,5% til að mæta gæðakröfum og verðlagshækkunum. Fræðsluráð þakkar starfsfólki mennta- og lýðheilsusviðs fyrir faglega og góða vinnu við undirbúning og gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.
      Fulltrúi Miðflokksins lagði fram eftirfarandi bókun;
      Kostnaður við starfsemi Frístundabílsins er langt umfram áætlanir, kostnaður bæjarsjóðs er 35 milljónir á árinu 2019 en áætlun hljóðaði uppá 10 milljónir. Mismunurinn, það er að segja 25 milljónir, lendir á bæjarsjóði.
      Óeðlilegt er að bæjarsjóður beri slíkan umframkostnað af verkefnum sem falla ekki undir lögbundna þjónustu.
      Fulltrúi Miðflokksins samþykkir framkomna fjárhagsáætlun mennta og lýðheilsusviðs með þeim fyrirvara að hafin verði vinna nú þegar við það að minnka kostnað bæjarsjóðs við rekstur Frístundabílsins.
      Fulltrúi Samfylkingar lagði fram eftirfarandi bókun;
      Fulltrúar Samfylkingar telja eðlilegt að halda áfram uppbyggingu leikskóla í Suðurbæ til að geta mætt þörfinni í hverfinu, einkum og sér i lagi yngri barna. Á meðan ekki er verið að mæta þörfinni í Suðurbænum er verið að fjölga plássum í Norðurbæ sem er óeðlileg þróun.

      1. liður úr fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. okt. sl.:
      Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar gjaldskrá, rekstrar- og framkvæmdaráætlun sviðsins 2020-2023 til bæjarráðs. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar bóka: Að mati okkar er hér um alltof brattar hækkanir að ræða sem munu bitna á notendum og þær eru heldur ekki í neinu samræmi við yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga þar sem mælst var til þess að sveitarfélög hækkuðu ekki gjöld á þeirra vegum umfram 2,5% á næsta ári, en minna ef verðbólga væri lægri. Við leggjum til að umhverfis og framkvæmdaráð samþykki að gjaldskrárhækkanir á næsta ári verði í samræmi við yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga og fari ekki yfir 2,5% Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka: Núverandi leiguverð stendur ekki undir eðlilegu árlegu viðhaldi íbúða Húsnæðisskrifstofu. Rekstrarniðurstaða var neikvæð um 77 milljónir árið 2018. Bráðarbirgðaniðurstaða ársins 2019 bendir til þess að rekstrarniðurstaða líðandi árs verði svipuð. Frá árinu 2017 hefur verið unnið að því að fjölga íbúðum og breyta úthlutunarreglum til þess að stytta biðlista. Lagt er til að leiguverð verði aðlagað að raunkostnaði við rekstur og viðhald eigna Húsnæðisskrifstofu. Eftir hækkun á leiguverði verður leiga í félagslega húsnæðiskerfinu í Hafnarfirði áfram lægri en í samanburðarsveitarfélögum.

      1. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 22. okt. sl.
      Skipulags- og byggingarráð vísar gjaldskrá, rekstaráætlun og aðkeyptri tækniþjónustu til bæjarráðs.

      Adda María Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir:
      Fulltrúi Samfylkingarinnar leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir:
      Þann 14. nóvember 2018 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fram tillögur við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun. Óskað er um upplýsingum um stöðu á eftirfarandi málum.
      1. Endurskilgreining á ráðningahlutfalli starfsmanna vegna ákvæða um hvíldartíma. Tillögunni var vísað til fjölskylduráðs og bæjarráðs. Bæjarráð samþykkti þann 6. desember 2018 að fela bæjarstjóra að skoða möguleika á útfærslu tillögunnar. Engar útfærslur hafa þó verið lagðar fram. Óskað er eftir upplýsingum um hvar málið er statt.
      2. 1811288 – Stuðningur við ungt fólk, niðurgreiðsla á strætókortum. Tillagan var fyrst flutt á fundi bæjarstjórnar í júní 2018 og síðar ítrekuð og endurflutt við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2019. Eftir að hafa verið kastað á milli fræðsluráðs, umhverfis- og framkvæmdaráðs og bæjarráðs er enn beðið eftir kostnaðargreiningu sem samþykkt var að láta gera fyrst í fræðsluráði þann 21. nóvember 2018 og síðar í bæjarráði þann 14. febrúar 2019 hefur ekkert slíkt mat verið lagt fram. Óskað er eftir upplýsingum um hvar málið er statt.
      Óskað er eftir að svör verði lögð fram á næsta fundi bæjarráðs.

    • 1704017 – Aldraðir, heilsuefling

      2. tl. úr fundargerð fjölskylduráðs 17. okt. sl.
      Heilsuefling eldri borgara er þróunarverkefni sem hefur fest sig í sessi í Hafnarfirði. Janus heilsuefling heldur utan um verkefnið sem hefur skilað góðum árangri. Almenn ánægja er með verkefnið meðal eldri borgara. Í ljósi þess að verkefnið er ekki lengur þróunarverkefni og er að festa sig í sessi er eðlilegt að kostnaðarþátttaka notenda aukist. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram eftirfarandi tillögu varðandi kostnaðarþátttöku notenda: Í dag er kostnaðarþátttakan 5000 krónur. Frá og með 1. janúar 2020 verður kostnaðarþátttakan 7000 krónur. Tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og tillögu vísað til bæjarráðs vegna fjárhagsáætlunar 2020.

      Bæjarráð vísar tillögunni til fjárhagsáætlunar 2020.

    • 1812064 – Hækkun á frístundastyrkjum

      3. tl. úr fundargerð fjölskylduráðs 17. okt. sl.
      Tillaga Samfylkingarinnar: Samfylkingin leggur til að frístundastyrkur eldri borgara verði hækkaður til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna. Fjölskylduráð hefur tvívegis bókað á þá leið að frístundastyrkur eldri borgara eigi fylgja frístundastyrkjum ungmenna, annars vegar 12.01.2018 og hins vegar 15.02.2019. Skv. minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem lagt var fram á fundi ráðsins 15.02.2019 kemur fram að hækkun frístundastyrks eldri borgara úr 4.000 kr. á mánuði í 4.500 kr. á mánuði kosti rúmlega 1,7 milljónir króna á ári. Fulltrúi Samfylkingar segir já. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsókn og óháðra og Viðreisnar segja nei. Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn einu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram eftirfarandi tillögu: Hafnarfjörður var fyrst sveitarfélaga til að setja á frístundastyrk fyrir eldri borgara. Í dag er Hafnarfjörður eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu með slíka styrki. Við erum ákaflega stolt af þessu verkefni og hversu margir nýta sér frístundastyrkinn. Frístundastyrkurinn er 4000 kr. á mánuði og verður hann óbreyttur árið 2020. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar segja já. Fulltrúi Samfylkingar situr hjá. Samþykkt með fjórum atkvæðum. Tillögunni vísað til bæjarráðs vegna fjárhagsáætlunar 2020.

      Bæjarráð vísar tillögunni til fjárhagsáætlunar 2020.

    • 1904152 – NPA miðstöðin, erindi

      4. tl. úr fundargerð fjölskylduráðs frá 17. okt. sl.
      Innleiðing NPA stendur yfir til ársins 2022. Hafnarfjörður er hlutfallslega með flesta NPA samninga ef horft er til samanburðarsveitarélaga. Á síðasta fundi fjölskylduráðs var tekin sú ákvörðun að stofna starfshóp sem hefur m.a. það verkefni að skoða framtíðarfyrirkomulag NPA, framkvæmd, reglur og tímagjald. Þann 1. janúar sl. var tímagjaldið í NPA hækkað úr 3660 kr. í rúmlega 4117 kr. Starfshópurinn tekur til starfa á næstu dögum og hefur hann m.a. það verkefni að skoða tímagjaldið sérstaklega. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram eftirfarandi tillögu varðandi tímagjald í NPA: Á meðan starfshópur hefur ekki lokið störfum þá verður tímagjaldið hækkað um launavísitölu frá 1. janúar 2020. Þessi ákvörðun verður endurskoðuð með hliðsjón af niðurstöðum starfshóps. Tillaga samþykkt af fjölskylduráði með öllum atkvæðum og tillagan send til bæjarráðs vegna fjárhagsáætlunar 2020.

      Bæjarráð vísar tillögunni til fjárhagsáætlunar 2020.

    • 1909174 – Launuð námsleyfi vor 2020

      Farið yfir umsóknir um launuð námsleyfi. Tillaga um launuð námsleyfi vor 2020 lögð fram.

      Guðrún Þorsteinsdóttir mannauðsstjóri mætir til fundarins.

      Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu um að þremur aðilum verði veitt launað námsleyfi.

    • 1910323 – Heilsubærinn Hafnarfjörður, Ársskýrsla 2018

      Lögð fram ársskýrsla heilsueflandi samfélags í Hafnarfirði fyrir árið 2018.

      Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi og verkefnastjóri stýrihóps um heilsueflandi samfélag mætir til fundarins.

      Bæjarráð þakkar kynninguna og ánægjulegt að fylgjast með góðum framgangi verkefnisins.

    • 1901112 – Bæjarráðsstyrkir 2019

      Bæjarráðsstyrkir 2019, seinni úthlutun. Tekið fyrir að nýju til afgreiðslu.

      Bæjarráð samþykkir að veita eftirtöldum aðilum styrki í síðari úthlutun 2019:
      Inga Björk Ingadóttir – Nýsköpun í tónlist – Hljóma Hafnarfirði = 850.000kr.
      Olga Björt Þórðardóttir ? Aðventuútsending Fjarðarpóstsins 2019 = 400.000kr.

    • 1909560 – Tré lífsins, minningagarðar, erindi

      Lagt fram bréf dags. 20.sept. sl. þar sem verið er að kanna áhuga á opnun Minningagarðs innan sveitarfélagsins.

      Erindið sent til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

    • 1810468 – Skipulag og framkvæmdir, frá sjónarmiði um sjálfbærni

      Lögð fram tillaga ferli vottunar og afsláttar.

      Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

    • 1910218 – Völuskarð 15, umsókn um lóð

      Lögð fram lóðarumsókn Smára Björnssonar um lóðina nr. 15 við Völuskarð.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni nr. 15 við Völuskarð verði úthlutað til Smára Björnssonar.

    • 1910111 – Völuskarð 18, umsókn um lóð

      Lögð fram lóðarumsókn Rúnars Más Jóhannssonar og Erlu Kristínar Sigurðardóttur um lóðina nr. 18 við Völuskarð.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni nr. 18 við Völuskarð verði úthlutað til Rúnars Más Jóhannssonar og Erlu Kristínar Sigurðardóttur.

    • 1810400 – Slökkvilið höfuðborgarsvæðis, gjaldskrá

      Lögð fram gjaldskrá Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu bs til afgreiðslu.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að gjaldskrá SHS verði samþykkt.

    • 1709768 – Hvaleyrarbraut 31, endurnýjun lóðarleigusamnings

      Endurnýjun lóðarleigusamnings

      Bæjarráð samþykkir endurnýjun fyrirliggjandi lóðarleigusamnings og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

    • 1910271 – Svalbarð 14H, lóðarumsókn

      Lögð fram lóðarumsókn HS veitna

      Ólafur Ingi Tómasson vék hér af fundi.

      Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og vísar til afgreiðslu á umhverfis- og skipulagssviði.

    • 1802321 – Hverfisgata 12, stofnun lóðar

      Lagt fram bréf til bæjarráðs

      Ólafur Ingi Tómasson tók aftur sæti á fundinum.

      Bæjarstjóra falið að svara erindinu.

    Fundargerðir

Ábendingagátt