Bæjarstjórn

1. mars 2023 kl. 14:00

í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg

Fundur 1905

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri
  • Kristinn Andersen forseti
  • Kristín María Thoroddsen aðalmaður
  • Valdimar Víðisson aðalmaður
  • Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður
  • Sigrún Sverrisdóttir aðalmaður
  • Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður
  • Hildur Rós Guðbjargardóttir aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
  • Stefán Már Gunnlaugsson varamaður
  • Guðbjörg Oddný Jónasdóttir varamaður

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

Ritari

  • Ívar Bragason Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

  1. Almenn erindi

    • 1709249 – Samþykktir um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar

      2.liður úr fundargerð forsetanefndar frá 27.febrúar sl.
      Til afgreiðslu.

      Drögum að breyttri samþykkt um stjórn sveitarfélagsins visað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

      Sigrún Sverrisdóttir 1. varaforseti tekur við fundarstjórn.

      Kristinn Andersen tekur til máls. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur til andsvars sem Kristinn svarar. Árni kemur þá til andsvars öðru sinni sem Kristinn svarar öðru sinni.

      Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi breytingum á samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar til annarrar umræðu.

    • 1809320 – Siðareglur kjörinna fulltrúa

      3.liður úr fundargerð forsetanefndar frá 27.febrúar sl.
      Til afgreiðslu.

      Forsetanefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breytingu á siðareglum kjörinna fulltrúa og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

      Til máls tekur Kristinn Andersen. Einnig tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls og Kristinn kemur til andsvars.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu forsetanefndar.

    • 2209564 – Hringhamar, samfélagsþjónusta

      2.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 21.febrúar sl.
      Lagt fram.

      Fjölskylduráð leggur til að óskað verði eftir tilboðum í uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilis, heilsugæslu og mögulega annarri lífsgæðatengdri starfsemi, á lóðinni við Hringhamar 43 í Hamranesi.
      Fjölskylduráð vísar tillögunni til umræðu í Bæjarstjórn.

      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

      Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka bókun sína frá 20. sept. sl. um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarheimilis í Hamranesi. Mikilvægt er að sú uppbygging hefjist sem allra fyrst. Miðað við þau gögn sem liggja fyrir fundinum í dag er ljóst að ekki hefur mikil vinna farið fram vegna málsins. Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir upplýsingum um þá fundi sem fulltrúar sveitarfélagsins hafa átt með heilbrigðisráðuneytinu, og eftir atvikum öðrum ráðuneytum, til þess að þrýsta á um aðkomu ríkisins að málinu. Farið er fram á að þessar upplýsingar liggi fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar.

      Til máls tekur Margrét Vala Marteinsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir.

      Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls og Rósa kemur til andsvars.
      Árni Rúnar tekur þá til máls öðru sinni og leggur fram svohljóðandi tillögu: Í ljósi þess að engar upplýsingar liggja fyrir um aðkomu ríkisins að þessu stóra verkefni á þessum tímapunkti samþykkir bæjarstjórn að vísa tillögunni til frekari umræðu og vinnslu í bæjarráði.

      Þá tekur Stefán Már Gunnlaugsson til máls. Þá tekur Árni Rúnar til máls öðru sinni.

      Margrét Vala Marteinsdóttir tekur þá næst til máls og leggur til að bæjarstjórn samþykki að óskað verði eftir tilboðum í uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilis, heilsugæslu og mögulega annarrar lífsgæðatengdrar starfsemistarfsemi, á lóðinni við Hringhamar 43 í Hamranesi og að skipulags- og umhverfissviði og innkauparáði verði falið að undirbúa útboð.

      Stefán Már Gunnlaugsson tekur þá næst til máls öðru sinni.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls og Rósa kemur til andsvars. Jón Ingi tekur til máls öðru sinni og Rósa kemur jafnframt til andsvars öðru sinni. Þá kemur Árni Rúnar Þorvaldsson til andsvars sem Jón Ingi svarar. Árni Rúnar kemur þá til andsvars öðru sinni sem Jón Ingi svarar öðru sinni. Árni Rúnar kemur að stuttri athugasemd.

      Forseti ber þá upp til atkvæða framkomna tillögu um að vísa málinu til frekari umræðu og vinnslu í bæjarráði. Er tillagan felld þar sem fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni en sjö fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar greiða atkvæði gegn tillögunni.

      Fundarhlé kl. 15:16.

      Fundi framhaldið kl. 15:18.

      Þá ber forseti upp framkomna tillögu um að bæjarstjórn samþykki að óskað verði eftir tilboðum í uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilis, heilsugæslu og mögulega annarrar lífsgæðatengdrar starfsemistarfsemi, á lóðinni við Hringhamar 43 í Hamranesi og að skipulags- og umhverfissviði og innkauparáði verði falið að undirbúa útboð. Er tillagan samþykkt samhljóða.

      Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Með tillögunni er þess freistað að fá hugmyndir fagaðila að uppbyggingu og þjónustu- og rekstrarfyrirkomulagi hjúkrunarheimilis og heilsugæslu með því að auglýsa eftir tilboðum í lóðina.
      Undanfarin ár hafa verið stigin mikilvæg skref í uppbyggingu þjónustu við eldra fólk í Hafnarfirði, sem rekja má til ákvörðunar frá árinu 2015 um að undirbúa skyldi uppbyggingu slíkrar þjónustu á Sólvangsreitnum, en hinkrað með uppbyggingu í Skarðshlíð/Hamranesi. Þegar tillaga var lögð fram í júní 2015 um undirbúning uppbyggingar á Sólvangi sem gerði ráð fyrir nýju hjúkrunarheimili og að þjónustuframboð í eldra húsi Sólvangs yrði eflt og samþætt, greiddu fulltrúar Samfylkingar atkvæði gegn henni á fundi fjölskylduráðs og samþykktu ekki heldur í bæjarstjórn. Samfylkingin studdi ekki uppbyggingu öldrunarþjónustu á Sólvangi!
      Nú blasir við að ákvörðun um öldrunarmiðstöð á Sólvangi var mikið heillaskref. Þar blómstrar nú starfsemin. Nýtt hjúkrunarheimili hefur risið, hjúkrunarrýmum var fjölgað í eldra húsi Sólvangs, einnig er nú starfrækt þar nýtt og spennandi þjónustuúrræði, Sóltún heilsusetur, þar sem í boði er einstaklingsmiðuð og heildræn endurhæfing fyrir 67 ára og eldri. Auk þessa er tvenns konar dagdvöl fyrir eldri borgara rekin í húsinu. Allt þetta hefur orðið að veruleika vegna framsýni og metnaðar meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar undanfarin ár sem haldið hefur verkefninu áfram þrátt fyrir harða andstöðu fulltrúa Samfylkingarinnar í upphafi. Því er miður að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar styðji ekki þessa tillöguna nú um uppbyggingu í Hamranesi. úverandi meirihluti vinnur markvisst að því að halda áfram að efla og auka þjónustu við eldri borgara í bænum og er tillagan sem hér hefur verið samþykkt einn liður í því.

      Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Samfylkingin hefur lengi barist fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Hamranesi. Árið 2013 var samþykkt af öllum flokkum sem þá voru í bæjarstjórn að hefja undirbúning að byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð en að baki þeirri ákvörðun lá mikil þverpólitísk vinna sem náði aftur til ársins 2006. Nýr meirihluti undir forystu Sjálfstæðisflokksins árið 2014 ákvað hins vegar að víkja þessum áformum til hliðar. Á fundi bæjarstjórnar þann 23. júní 2021 samþykkti bæjarstjórn samhljóða ályktun um mikilvægi þess að heilsugæsla og hjúkrunarheimili myndi rísa í Hamranesi og var bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir. Í Vallahverfi, Skarðshlíð og Hamranesi munu um 10 þús. manns búa þegar þessi hverfi verða fullbyggð. Fjölskylduráð samþykkti á fundi sínum þann 20. september sl. að fela fjölskyldu- og barnamálasviði að vinna að fjölbreyttum útfærslum á lóð í Hamranesi með áherslu á eldra fólk, heilsugæslu og heilsu- og lífsgæðatengdri starfsemi í þágu íbúanna á svæðinu sem og í öllum Hafnarfirði. Á þeim gögnum sem fylgja málinu er ljóst að lítil sem engin vinna hefur farið fram vegna málsins frá þessari samþykkt fjölskylduráðs í september á síðasta ári. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur því miður dregið lappirnar í þessu mikilvæga máli og það eru íbúar sem súpa seyðið af því. Fulltrúar Samfylkingarinnar styðja tillögu fjölskylduráðs en lýsa yfir áhyggjum af því að málið sé vanreifað og ekki nógu vel undirbúið. Einnig höfum við áhyggjur af því að þessi vinnubrögð geti seinkað ferlinu. Því miður felldu fulltrúar meirihlutans tillögu okkar í Samfylkingunni um að vísa málinu til bæjarráðs til frekari vinnslu og undirbúnings sem við teljum að hefði getað orðið málinu til framdráttar.

    • 2208659 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2023 og 2024-2026

      1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 23.febrúar sl.
      Þar sem komið hefur í ljós að markmið meirihlutans um lækkun fasteignagjalda skilaði sér ekki að fullu til íbúðaeigenda vegna mistaka við útreikning álagningar, er lagt til að gjöldin verði nú leiðrétt sem því nemur. Tillagan felur í sér að álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði fer úr 0,246% í 0,223%.

      Samfykingin leggur fram eftirfarandi bókun:
      Í ljós hefur komið að skattahækkun meirihlutaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fasteignaskatta var enn meiri en þeir gerðu ráð fyrir. Fulltrúar jafnaðarmanna vöruðu við þessari vegferð og lögðu til að íbúar Hafnarfjarðar yrðu varðir gegn fasteignabólu sem orsakaði stórhækkun fasteignamats. Þetta hlustuðu meirihlutaflokkarnir ekki á og héldu sínu striki. Nú leiðrétta þeir að hluta þessa skattahækkun, en betur má ef duga skal. Samfylkingin styður þessa lækkun, enda skref í rétta átt.

      Samþykkt samhljóða og lagt fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

      Rósa Guðbjartsdóttir tekur til máls. Einnig Jón Ingi Hákonarson og kemur Rósa til andsvars.

      Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði fer úr 0,246% í 0,223%.

      Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:

      Þegar ljóst var fyrir um hálfu ári að fasteignamat á íbúðahúsnæði hækkaði umtalsvert lýstu fulltrúar meirihlutans því strax yfir að komið yrði til móts við íbúðaeigendur með lækkun fasteignagjalda. Markmiðið í fjárhagsáætlun var að hækkunin yrði að meðaltali ekki umfram almennar verðlagshækkanir í landinu. Þegar álagningarseðlar voru birtir um síðustu mánaðamót kom í ljós að sú lækkun á álagningarhlutfalli skilaði sér ekki að fullu vegna mistaka við útreikning gjaldanna. Þetta verður nú leiðrétt og eigendur íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði fá að njóta þeirrar lækkunar á álagningarhlutfalli eins og til stóð. Gert er ráð fyrir að breytingin taki gildi frá og með apríl 2023.

      Árni Rúnar Þorvaldsson leggur fram svohljóðandi bókun f.h. Samfylkingar:

      Skattahækkun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á fasteignaskatti reyndist enn meiri en meirhlutaflokkarnir gerðu ráð fyrir. Jafnaðarfólk í bæjarstjórn varaði við þessari vegferð og lagði áherslu á að íbúar bæjarins yrðu verndaðir gegn fasteignabólu sem orsakaði stórhækkun fasteignamats. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hlustaði ekki á þessi varnaðarorð jafnaðarfólks og hélt sínu striki. Þegar álagningarseðlar lágu fyrir brá mörgum þegar ljóst var að fasteignagjöldin höfðu snarhækkað, langt umfram verðlagshækkanir eins og meirihlutinn hafði lofað. Samfylkingin fylgdi málinu eftir með fyrirspurn og svörin við henni leiddu í ljós að meðaltalshækkun á fasteignagjöldum sem átti að vera 9,5%, skv. verðlagsþróun, reyndist 15,8%. Aðhald bæjarbúa og Samfylkingarinnar hefur nú orðið til þess að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks samþykkti að færa niður álagningarprósentuna á íbúðarhúsnæði. Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skýla sér á bak við mistök við útreikning álagningar en Samfylkingin varaði einmitt við þessu í desember sl. og meirihlutinn hefði betur hlustað á þau varnaðarorð. Klúður og hringlandi einkenna vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í þessu máli líkt og svo mörgum öðrum. En hér er stigið skref í rétta átt í samræmi við ábendingar jafnaðarfólks og við styðjum því þessa tillögu að lækkun.

      Fundarhlé kl. 15:49. Fundi Framhaldið kl. 16:00.

      Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Meirihlutafulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar urðu þess áskynja um síðustu mánamót að lækkunin hefði ekki skilað sér að fullu, fyrirspurnir Samfylkingar höfðu þar engin áhrif á. Það hefur verið verkefni meirihluta undanfarinna ára að taka til í rekstri sveitarfélagsins og lækka umtalsvert álögur á bæjarbúa og fyrirtæki eftir áralanga fjármálaóstjórn og óráðsíu Samfylkingarinnar í bænum. Með umtalsverðri lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts, vatns- og fráveitugjald stígur meirihluti bæjarstjórnar mikilvæg skref í að létta álögum á bæjarbúa. Einnig að halda álagningarhlutfalli útsvars ekki í hæsta leyfilega hlutfalli eftir að það var lækkað fyrir nokkrum árum. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur nánast árlega lagt til við fjárhagsáætlunarvinnu að sá skattur á bæjarbúa verði hækkaður. Það að leiðrétta rangan útreikning nú sem enginn sá við fjárhagsáætlunargerðina, hvorki fulltrúar meiri- eða minnihluta í bæjarstjórn, ber vott um ábyrgð og stefnufestu meirihlutafulltrúa.

      Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

      Grunnur fasteignagjalda er ósanngjarn og ógagnsær skattur. Það að grunnur fasteignaskatts, vatsgjalds og fráveitugjalds fari eftir bókhaldslegur virði fasteigna en ekki notkun er ósanngjarnt. Skattur er ávallt greiddur með tekjum en ekki bókhaldlegum verðmætum. Auðvitað eiga fasteignagjöld að taka mið af hækkun launavísitölu en ekki verðbólgu og bólumyndun. Fulltrúi Viðreisnar leggur áherslu á þá staðreynd að hér er um skattahækkun að ræða þar sem greiðslubyrði fólks eykst til muna þrátt fyrir þessa leiðréttingu.

      Fundarhlé kl. 16:04. fundi framhaldið kl. 16:20.

      Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun f.h. Samfylkingar:

      Greinilegt er að fulltrúar meirihlutans eru fullir gremju vegna þess klúðurs sem átti sér stað við álagningu fasteignaskatts. Á því klúðri ber meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks fulla ábyrgð. Fulltrúar jafnaðarfólks í bæjarstjórn vöruðu ítrekað við því í fjárhagsáætlunarvinnunni að markmiðin um að hækkanir yrðu ekki umfram verðlagsþróun myndu ekki nást með þeim tillögum sem meirihlutinn lagði fram og fullyrti að myndu duga til. Fyrirspurn okkar í bæjarráði dró þessar upplýsingar fram í dagsljósið og meirihlutinn getur ekki neitað því. Til að dreifa athyglinni frá klúðrinu leggur meirihlutinn svo lykkju á leið sína og fer að ræða álagningarhlutfall útsvars. Lækkun útsvars skilar sér mest til tekjuhæsta hópsins í samfélaginu sem er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins en vont hefur verið að fylgjast með Framsóknarflokknum fylgja þeim trúarbrögðum Sjálfstæðisflokksins eftir í blindni.

    • 1604079 – Húsnæðisáætlun

      4.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 23.febrúar sl.
      Lagt fram. Sigurður Haraldsson sviðsstjóri mætir til fundarins.

      Lagt fram og vísað til samþykktar í bæjarstjórn.

      Til máls taka Valdimar Víðisson, Árni Rúnar Þorvaldsson og Jón Ingi Hákonarson. Árni Rúnar kemur til andsvars.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi húsnæðisáætlun.

      Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
      Meirihluti Framsóknar -og Sjálfstæðisflokks hafnaði tillögu Samfylkingarinnar um að ganga til samninga við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Innviðaráðuneytið um gerð rammasamkulags við ríkið um gerð húsnæðissáttmála til 2032 á fundi bæjarstjórnar þann 1. feb. sl. Fulltrúar meirihlutans vísuðu til þess að unnið væri að uppfærslu húsnæðisáætlunar bæjarins og fundir hefðu verið haldnir með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í svörum við fyrirspurn Samfylkingarinnar, dags. 8. febrúar 2023, kom fram að haldnir hefðu verið tveir fundir með Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en enginn með innviðaráðuneytinu. Eina eiginlega vinnan sem fram hefur farið er árleg uppfærsla á húsnæðisáætlun bæjarins. Húsnæðisáætlunin gerir ráð fyrir sömu markmiðum um hagkvæmar íbúðir og voru í tillögu okkar jafnaðarfólks þann 1. febrúar sl., 30% af öllum nýjum íbúðum verði hagkvæmar íbúðir og 5% allra nýrra íbúða verði félagslegar íbúðir. Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því en benda hins vegar á að í svörum við fyrirspurn Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, dags. 7. febrúar 2023 kemur fram að af þeim 1000 íbúðum sem eru á framkvæmdastigi í bænum séu 116 á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga, eða tæplega 12%. Þar kemur einnig fram að bærinn fær úthlutað 9 íbúðum frá leigufélaginu Bjargi til félagslega íbúðakerfisins á þessu ári. Ef 1000 íbúðir eru á framkvæmdastigi í bænum í dag þyrftu 300 þeirra að vera hagkvæmar íbúðir til þess að ná markmiðum um 30% allra nýrra íbúða og 50 að vera félagslegar íbúðir til þess að ná markmiðum um 5% allra nýrra íbúða. Það er því ljóst að langur vegur er frá raunveruleika meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks til þeirra markmiða sem sett eru fram í húsnæðisáætlun 2023. Verst er þó áhuga- og metnaðarleysi meirihlutans á þessum mikilvægu málum sem birtist þegar meirihlutinn hafnaði tillögu okkar jafnaðarfólks um að ganga til samninga við ríkið um húsnæðissáttmála á fundi bæjarstjórnar 1. febrúar. sl.

      Valdimar Víðisson kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi bókun.
      Húsnæðisáætlun 2023 sýnir fram á metnaðarfulla stefnu meirihlutans í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Lögð er áhersla á það að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða í nýjum hverfum. Mikil fjölgun hefur orðið á sérstökum búsetuúrræðum síðustu ár. Opnaðir hafa verið þrír nýir búsetukjarnar, auk þess sem við erum með tvö pláss á Andrastöðum sem er nýr búsetukjarni á Kjalarnesi. Unnið er að því jafnt og þétt að fjölga í félagslega íbúðarkerfinu. Á þessu ári verða tilbúnar 148 íbúðir Bjargs íbúðarfélags. Af þessum 148 íbúðum munu bætast við 9 íbúðir í félagslega húsnæðiskerfið. Þessi fjölgun inn í félagslega kerfið er sú mesta sem hefur orðið á einu ári í langan tíma. Nú þegar eru 32 íbúðir komnar í notkun, þar af tvær í félagslega kerfinu. Hinar 116 íbúðirnar verða tilbúnar í haust.
      Samtal er hafið um rammsamning milli ríkis og sveitarfélaga um íbúðaruppbyggingu. Samhliða því samtali og þeirri vinnu þurfum við jafnframt að beita okkur fyrir því að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið upp því við þurfum að hafa landsvæði til uppbyggingar til að mæta þeim samningsmarkmiðum sem rammasamningur kveður á um.

    • 2301428 – Mengunarslys

      7. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 23.febrúar sl.Til umræðu.

      Tekið fyrir.
      Sigurður Haraldsson sviðsstjóri mætir til fundarins og leggur fram minnisblað.

      Samfylkingin leggur fram eftirfarandi bókun:
      Bæjarráðsmenn Samfylkingarinnar þakka umbeðnar upplýsingar, sem leiða í ljós að um gríðarlegt magn olíu , meira en 110 þúsund lítrar, hafa lekið um gagnakerfi Hafnarfjarðarbæjar frá bensínstöð Costco í Garðabæ. Mikil mildi er að uppgufun á heimilum hafi ekki leitt til varanlegs heilsutjón fyrir þá Hafnfirðinga, sem urðu varir við mengunina og tilkynntu hana á sínum tíma. Olían lak um fleiri vikna skeið um lagnakerfið. Eins er fagnaðarefni að þetta mengunarslys hafi ekki leitt til umtalsverðrar mengunar í sjó og fjörum í Hafnarfirði. Kunnugir telja að ef um bensín hefði verið að ræða, en ekki olíu, hefði getað farið mun ver. Þetta slys kallar á enn frekara eftirlit í þessum efnum. Eins er ljóst að uppsögn á samningi við Garðabæ vegna móttöku frárennslis frá þúsundum íbúabyggð í Urriðaholti og viðamiklu atvinnusvæði, þarf að fylgja fast eftir og þeirri móttöku lokað eins fljótt og kostur er. Í þriðja lagi þarf að hækka umtalsvert gjald frá Garðabæ vegna þessara þjónustu, sem er aðeins 12 milljónir árlega skv. fyrirliggjandi samningi.

      Hildur Rós Guðbjargardóttir tekur til máls sem og Árni Rúnar Þorvaldsson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Árni Rúnar svarar andsvari.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls.

      Hildur Rós Guðbjargardóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Samfylkingin leggur fram eftirfarandi bókun:
      Þær upplýsingar sem kynntar voru á fundi bæjarráðs þann 23. febrúar sl. leiða í ljós að gríðarlegt magn dísilolíu, meira ein 110 þús. lítrar hafa lekið um lagnakerfi Hafnarfjarðarbæjar frá bensínstöð Costco í Garðabæ. Mikil mildi er að uppgufun á heimilum hafi ekki leitt til varanlegs heilsutjóns fyrir þá Hafnfirðinga, sem urðu varir við mengunina og tilkynntu hana á sínum tíma. Olían lak um fleiri vikna skeið um lagnakerfið. Gott er að starfsmenn fráveitunnar hafa ekki orðið varir við ummerki af olíu við fjöruna sem og að sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun telji líklegt að olían hafi hvarfast hratt vegna mikillar uppblöndunar í sjó. Kunnugir telja að ef um bensín hefði verið að ræða en ekki olíu, hefði getað farið mun verr. Þetta slys kallar á enn frekara eftirliti í þessum efnum. Eins er ljóst að uppsögn á samningi við Garðabæ vegna móttöku frárennslis frá stórri íbúabyggð í Urriðaholti og viðamiklu atvinnusvæði, þarf að fylgja fast eftir og þeirri móttöku lokað eins fljótt og kostur er. Í þriðja lagi þarf að hækka umtalsvert gjald frá Garðabæ vegna þessarar þjónustu sem er aðeins 12 milljónir árlega skv. fyrirliggjandi samningi.

      Guðbjörg Oddný Jónasdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar áréttar að í upphafi var mjög faglega tekið á málinu og uppruna lyktarinnar strax leitað. Eftir nokkra vinnu kom í ljós að ólíulekinn kom frá Costco í Garðabæ. Núna er málið í eðlilegum farvegi hjá Heilbrigðiseftirlitinu og mikilvægt að tryggja að álíka atburður eigi sér ekki stað.

      Eftirfarandi er bókun UMFRAM frá xx dagsetning sem vert er að endurflytja hér:

      Umhverfis og framkvæmdaráð þakkar fyrir greinargott minnisblað og þakkar starfsfólki fyrir vel unnin störf við að finna uppruna lyktarinnar. Umhverfis- og framkvæmdaráð harmar að ekki hafi verið brugðist við af rekstraraðila bensínstöðvar Costco þegar í ljós kom að búnaður í olíuskilju bilaði með þeim afleiðingum að um umtalsvert mengunarslys var um að ræða.
      Umhverfis- og veitustjóra er falið að endurheimta kostnað við aðgerðirnar sem farið var í til Garðabæjar og einnig að tilkynna atvikið til Umhverfisstofnunar.

    • 2206137 – Ásland 4, úthlutun

      11.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 23.febrúar sl.
      Teknar fyrir umsóknir um einbýlishúsalóðir.

      Búið er að yfirfara allar umsóknir um einbýlishúsalóðir. Dregið var um lóðir á aukafundi bæjarráðs 22.11.2022. Umsækjendur völdu sér svo lóðum sem var skilað á valfundi sem haldinn var þriðjudaginn 07.02.2023. Umsækjendur völdu í þeirri röð sem þeir voru dregnir.
      Bæjarráð staðfestir umsækjendur um einbýlishúsalóðir og samþykkir að auglýsa lausar lóðir sem eftir eru og vísar þessu til samþykktar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.

    • 1708692 – Strætó bs, aukin þjónusta, næturakstur og fleira

      19.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 23. febrúar sl.
      Endurflutt tillaga Samfylkingar.

      Samfylkingin óskar eftir umræðum um næturstrætó.

      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu: Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkir að ná samningi við Strætó um að hefja hið fyrsta næturstrætó milli höfuðborgarinnar og Hafnarfjarðar. Sú leið var mikið notuð og var í jafnvægi áður en starfsemin var lögð niður.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja til að afgreiðslu tillögunnar sé frestað til næsta fundar til þess að fá frekari upplýsingar fyrir næsta fund.
      Samþykkt að fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við þá tillögu.

      Sigrún Sverrisdóttir tekur til máls. Einnig Kristín Thoroddsen. Sigrún Sverrisdóttir kemur til andsvars.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls. Einnig Hildur Rós Guðbjargardóttir. Kristín kemur til andsvars sem Hildur Rós svarar. Kristín kemur þá til andsvars öðru sinni sem Hildur Rós svarar öðru sinni.

      Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls. Jón Ingi tekur næst til máls öðru sinni. Kristín tekur einnig til máls.

      Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls undir fundarstjórn forseta.

      Forseti ber næst þá upp tillögu um að afgreiðslu málsins verði frestað og er það samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta. Fulltrúar Samfylkingar og viðreisnar sitja hjá.

      Fundarhlé kl. 17:42. Fundi framhaldið kl. 17:44.

      Sigrún Sverrisdóttir kemur að svohljóðandi bókun:
      Fulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir vonbrigðum sínum með afstöðu meirihlutans til tillögu Samfylkingarinnar um að hefja hið fyrsta akstur næturstrætó á nýjan leik. Stóra myndin í málinu liggur fyrir og það er mkilvægt að Hafnarfjörður taki forystu í málinu. Akstur næturstrætó er mikilvægur liður í almenningssamgöngum og mikið öryggistæki fyrir íbúa bæjarins. Því er mikilvægt að koma akstri næturstrætó á sem allra fyrst og frávísun meirihlutans er enn eitt merkið um tafataktík meirihlutans í stórum málum og skort á pólitískum vilja til að taka á þessu mikilvæga máli.

      Kristín kemur að svohljóðandi bókun:

      Meirihluti bæjarstjórnar fellst ekki á tillögu minnihluta um að samþykkja næturstrætó að svo stöddu þar sem kostnaðartölur liggja ekki fyrir og ítreka bókun bæjarráðs þar sem lagt var til að afgreiðslu tillögunnar yrði frestað til næsta fundar bæjarráðs til þess að fá frekari upplýsingar.

    • 2111539 – Straumsvík, deiliskipulag

      2.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.febrúar sl.
      Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Straumsvíkur sunnan Reykjanesbrautar.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi Straumsvíkur sunnan Reykjanesbrautar og að málsmeðferð verði í samræmi við 43 gr. skipulagslaga. Jafnframt er erindinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2205256 – Stekkjarberg 11, lóðarstækkun

      3.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.febrúar sl.
      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum 21. desember að auglýsa í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 breytingu á deiliskipulagi miðhverfis Setbergs, vegna Stekkjarberg 11
      Breytingin felst í að gert er ráð fyrir að lóðin stækki og á henni rísi 26 íbúðir í þremur tveggja hæða fjölbýlishúsum. Einnig er gert ráð fyrir byggingarreit fyrir hjól og vagnageymslu.
      Tillagan var auglýst 29.12.2022-9.2.2023. Athugasemdir bárust. Lögð fram samantekt athugasemda og svör.

      Skipulags- og byggingarráð tekur undir svör við athugasemdum og samþykkir framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi miðhverfis Setbergs, vegna Stekkjarbergs 11, og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

      æjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2302624 – Álhella 1, breyting á deiliskipulagi

      10.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráð frá 23.febrúar sl.
      Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kapelluhrauns 2. áfanga vegna lóðarinnar að Álhellu 1. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 9. febrúar sl. stækkun lóðar.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa framlagða tillögu að deiliskipulagi og að málsmeðferð verði í samræmi við 43. gr. skipulagslaga. Jafnframt er erindinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2302617 – Rauðamelsnáma, deiliskipulag

      11.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.febrúar sl.
      Lögð fram á ný tillaga að deiliskipulagi sem kynnt var á fundi ráðsins þann 9. feb. s.l.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa framlagða tillögu að deiliskipulagi Rauðamelsnámu og að málsmeðferð verði í samræmi við 37. gr. skipulagslaga. Jafnframt er erindinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2111279 – Reykjanesbraut, deiliskipulag

      12.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.febrúar sl.
      Lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi Reykjanesbrautar vegna undirgangna við dælu- og hreinsistöð austan við lóð Álversins.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi og að málsmeðferð verði í samræmi við 43 gr. skipulagslaga. Jafnframt er erindinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 10022261 – Skilti á bæjarlandi

      14.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.febrúar sl.
      Lögð fram að nýju til samþykktar endurskoðuð samþykkt um skilti á bæjarlandi.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir framlagða samþykkt um skilti á bæjarlandi og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    Fundargerðir

    • 2301126 – Fundargerðir 2023, til kynningar í bæjarstjórn

      Fundargerð fjölskylduráðs frá 21.febrúar sl.
      Fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 23.febrúar sl.
      Fundargerð bæjarráðs frá 23.febrúar sl.
      a. Fundargerð hafnarstjórnar frá 8.febrúar sl.
      b. Fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 15.febrúar sl.
      c. Fundargerð stjórnar SSH frá 6.febrúar sl.
      Fundargerð fræðsluráðs frá 22.febrúar sl.
      a. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 14.febrúar sl.
      Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 22.febrúar sl.
      Fundargerð forsetanefndar frá 27.febrúar sl.

      Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls undir liðum 14 og 15 í fundargerð bæjarráðs frá 23. febrúar sl. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars sem Árni Rúnar svarar.

Ábendingagátt