Fjölskylduráð

26. október 2022 kl. 08:30

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 475

Mætt til fundar

  • Margrét Vala Marteinsdóttir formaður
  • Jóhanna Erla Guðjónsdóttir aðalmaður
  • Helga Ingólfsdóttir varaformaður
  • Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður
  • Auður Brynjólfsdóttir aðalmaður
  • Árni Stefán Guðjónsson áheyrnarfulltrúi

Ritari

  • Ása Hrund Ottósdóttir ritari fjölskylduráðs
  1. Almenn erindi

    • 2208659 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2023 og 2024-2026

      Lögð fram drög að fjárhagsáætlun fjölskyldu- og barnamálasviðs fyrir árið 2023. Guðmundur Sverrisson og Ólafur Heimir Guðmundsson frá fjármálasviði mæta til fundarins.

      Fjölskylduráð samþykkir drög að fjárhagsáætlun fjölskyldu og barnamálasviðs fyrir árið 2023 og vísað til Bæjarráðs.

      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

      Fulltrúar Samfylkingarinnar telja rétt að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf eins og kostur er og árétta mikilvægi þess að hækkun bóta- og stuðningsgreiðslna verði þær hinar sömu og hækkun gjaldskrár. Við minnum einnig á að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hlífir tekjuhæsta hópi samfélagsins með því að fullnýta ekki útsvarið. Þar er um að ræða fjármuni sem myndu sannarlega nýtast bæjarsjóði þar sem árshlutauppgjör leiddi í ljós að A-hluti bæjarsjóðs var rekinn með 1,5 milljarða tapi á fyrri hluta ársins.

      Fulltrúar Samfylkingarinnar í fjölskylduráði leggja áherslu á að félagslegum íbúðum í eigu sveitarfélagsins verði fjölgað á næsta ári. Mikill skortur er á félagslegum íbúðum hjá sveitarfélaginu og fjölgun þeirra er mikilvægur liður í að bregðast við þeim mikla vanda sem er á húsnæðismarkaði.

      Einnig lýsa fulltrúar Samfylkingarinnar yfir áhyggjum af rekstri málaflokks fólks með fötlun. Ríkisstjórnarflokkarnir sýna málaflokknum áhugaleysi. Engin skýr fyrirheit liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvernig fjármögnun málaflokksins verði tryggð. Greiningar á vegum starfshóps félags- og barnamálaráðherra sýndu að halli á rekstri málaflokksins árið 2020 var tæpir 9 milljarðar á landsvísu og gert er ráð fyrir að hann verði 12-13 milljarðar á árinu 2021. Við þessu verða ríkisstjórnarflokkarnir að bregðast í fjárlögum næsta árs.

      Ljóst er að snúin sigling er framundan í rekstri bæjarins. Nú sem fyrr leggur Samfylkingin áherslu á að staðinn verði vörður um velferðarþjónustu sveitarfélagsins og forgangsraðað í þágu hennar.

      Fulltrúi Viðreisnar leggur til að gjaldskrárhækkunum sé haldið í lágmarki. Fulltrúa Viðreisnar finnst mikilvægt að kjörnir fulltrúar standi fyrir ábyrga fjármálastjórnun, en á sama tíma er mikið af þeirri þjónustu sem við berum ábyrgð á, þjónusta sem einstaklingar komast ekki undan að greiða fyrir. Við leggjum til að gjaldskrárhækkunum á grunnþjónustu sé stillt í hóf með þetta að leiðarljósi og að fundnar verði leiðir til þess að þetta bitni ekki á þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda, til dæmis með því að gjaldskrárhækkanir verði innleiddar í skrefum.

    • 2210439 – Málefni heimilislausra, fyrirspurn

      24.10.2022
      Fjölskylduráð Hafnarfjarðar
      475. fundur 26. október 2022

      Fyrirspurn Samfylkingarinnar um málefni heimilislausra

      1.Hversu mörg stöðugildi í stjórnkerfi og þjónustu Hafnarfjarðarbæjar eru tileinkuð málefnum utangarðsfólks og heimilislausra einstaklinga?

      2. Eru einhver sértæk úrræði í boði í Hafnarfirði fyrir heimilislausa, svo sem gistiskýli?

      3. Eru einhver önnur sértæk úrræði í boði í Hafnarfirði fyrir heimilislausa, s.s. kaffistofur og súpueldhús?

      4. Er Hafnarfjarðarbær þátttakandi eða aðili að einhverjum þjónustusamningum við þriðja aðila, s.s. félagasamtök eða önnur sveitarfélög um þjónustu við fyrrgreindan hóp?

      5. Hversu mikil útgjöld eru áætluð í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar vegna úrræða og þjónustu við fyrrgreindan hóp?

      Lagt fram.

    • 2210449 – Félagslegar leiguíbúðir

      Lagðar fram upplýsingar um leiguíbúðir Bjargs íbúðafélags.

      Fjölskylduráð fagnar því að félagslegum íbúðum í Hafnarfirði fjölgi innan skamms um níu talsins þegar Bjarg íbúðafélag afhendir bæjarfélaginu nýjar íbúðir til afnota í Hamranesi. Fyrstu íbúðirnar verða tilbúnar um áramótin en alls byggir Bjarg íbúðafélag 148 íbúðir á svæðinu.
      Bjarg er sjálfseignarstofnun sem rekin er án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Hafnarfjarðarbær lagði til 12% af stofnvirði íbúðanna og var gert samkomulag við Bjarg um að bærinn fengi níu íbúðir inn í félagslega húsnæðiskerfi bæjarins.

Ábendingagátt