Fjölskylduráð

4. desember 2019 kl. 15:00

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 405

Mætt til fundar

  • Valdimar Víðisson formaður
  • Helga Ingólfsdóttir varaformaður
  • Guðbjörg Oddný Jónasdóttir aðalmaður
  • Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður
  • Árni Stefán Guðjónsson aðalmaður
  • Hulda Sólveig Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi

Einnig sat Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri, fundinn.

Ritari

  • Karlott Gunnhildarson ritari fjölskylduráðs

Einnig sat Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri, fundinn.

  1. Almenn erindi

    • 1902408 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 og 2021-2023

      Á fundi bæjarstjórnar þ. 13.nóvember sl. var eftirfarandi tekið fyrir og samþykkt að vísa til fjölskylduráðs:

      Tillögur Samfylkingarinnar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2020
      Tillaga 2 – Gjaldskrár
      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum umfram það sem mælst er til í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. Samkvæmt tillögum sem fram koma í fjárhagsáætlun mun heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækka um 24% og ferðaþjónusta aldraðra um rúm 100%. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að gjaldskrárhækkanir á næsta ári styðji við lífskjarasamninga og verði ekki umfram 2,5%.
      Tillagan verði tekin til umfjöllunar í fjölskylduráði og bæjarráði.
      Fulltrúi Samfylkingar segja já, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra segja nei, fulltrúi Viðreisnar situr hjá. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn einu.

      Fulltrúar meirihluta, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra, leggja fram eftirfarandi bókun:
      Við hér í Hafnarfirði erum með lægstu gjaldskrána þegar borin eru saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
      Gjaldskráin er í ellefu liðum. Leiðrétting nær til þriggja liða gjaldskrár:

      Heimaþjónusta, ellilífeyrisþegar og öryrkjar – hver klst.
      Í dag er hver klst. Á 610 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver klst. Kosta 757 krónur. Meðaltal af gjaldskrá Kópavogs, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er 841 króna. Til að tryggja að Hafnarfjörður verður áfram með lægstu gjaldskrána þá er tekið 90% af meðaltalinu og fæst þá 757 krónur hver klst.

      Heimaþjónusta, aðrir – hver klst.
      Í dag er hver klst. 800 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver klst. Kostar 930 krónur. Meðaltal af gjaldskrá Kópavogs, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er 1033 krónur. Til að tryggja að Hafnarfjörður verður áfram með lægstu gjaldskrána er tekið 90% af meðaltalinu og og fæst þá 930 krónur hver klst.

      Ferðaþjónusta aldraðra – hver ferð.
      Í dag kostar hver ferð 240 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver ferð kosta 470 krónur. Viðmiðið er fullt strætógjald. Til samanburðar má geta það að í Kópavogi kostar hver ferð 500 krónur fyrstu 16 ferðirnar og 1000 krónur eftir það. Í Reykjavík kostar hver ferð 1185 krónur.

      Ef tekið er dæmi um einstakling sem nýtir sér fulla heimaþjónustu, 6 tímar á mánuði, og fulla akstursþjónstu, 8 ferðir á mánuði, þá eykst greiðsluþátttaka hans um 2802 kr. á mánuði.

      Meirihlutinn leggur á það ríka áherslu að þjónustigið sé hátt á fjölskyldu- og barnamálasviði og kostnaður fyrir notendur sé sá lægsti þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru borin saman. Það heldur sér þrátt fyrir leiðréttingu á gjaldskrá.

      Vísað í bæjarráð.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
      Samfylkingin harmar að fjölskylduráð skuli ekki taka mið af tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár hækki ekki umfram 2,5% á næsta ári til að leggja sitt af mörkum til lífskjarasamninganna. Samfylkingin styður því ekki tillögur meirihlutans um gjaldskrárhækkanir á heimaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja upp á 24,5% og akstursþjónustu upp á rúmlega 100%.

      Fulltrúi Miðflokksins óskar bókað:
      Nú liggur fyrir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hefur samþykkt að seilast í vasa þeirra sem minnst hafa. Sem dæmi hækkar dæmigerður einstaklingur sem þarf á þrifum að halda frá félagsþjónustu (aldraður eða öryrki) um tæpar 1000 krónur á mánuði. Það er langt umfram það sem gert hefur verið ráð fyrir í lífskjarasamningunum. Þessi viðkvæmi þjóðfélagshópur er ekki aflögufær með meiri hækkanir en lífskjarasamningarnir kveða á um.

      Tillaga 4 – Frístundastyrkir eldri borgara
      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að frístundastyrkur eldri borgara verði hækkaður til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna eins og samþykkt var í bæjarstjórn þann 17. janúar 2018. Skv. minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem lagt var fram á fundi ráðsins þann 15. febrúar 2019 kemur fram að hækkun frístundastyrks eldri borgara úr 4.000 kr. á mánuði í 4.500 kr. á mánuði kosti tæplega 1,2 milljónir króna á ársgrundvelli. Óskað er eftir að bæjarstjórn taki afstöðu til tillögunnar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.
      Tillögunni verði vísað til fjölskylduráðs.

      Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar segja já, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra segja nei. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

      Fulltrúar meirihluta, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra, leggja fram eftirfarandi bókun: Hafnarfjörður var fyrst sveitarfélaga til að setja á frístundastyrk fyrir eldri borgara. Í dag er Hafnarfjörður eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu með slíka styrki. Almenn ánægja er meðal eldri borgara með frístundastyrkinn. Við erum ákaflega stolt af þessu verkefni og hversu margir nýta sér þennan styrk. Frístundastyrkurinn er 4000 krónur á mánuði og verður hann óbreyttur árið 2020.

      Fulltrúi Samfylkingar óskar bókað:
      Samfylkingin leggur áherslu á að frístundastyrkur eldri borgara haldist í hendur við frístundastyrk fyrir börn og ungmenni líkt og fjölskylduráð hefur áður ályktað um. Því eru það vonbrigði að meirihlutinn í fjölskylduráði skuli ekki fallast á tillögu um það.

      Tillögur bæjarfulltrúa Miðflokksins við gerð fjárhagsáætlunar 2020 og 2021-2023
      Tillaga 2
      Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur til í ljósi lífskjarasamninganna að fyrirhugaðar hækkanir á félagslegri þjónustu við aldraða og öryrkja verði teknar til baka og að hækkanir þeirra verði ekki meiri en lífskjarasamningarnir segja til um eða 2,5%. Fyrirhugaðar hækkanir eru: Hækkun á leigu í félagslegum íbúðum um 21%, hækkun á heimaþjónstu um 24%, hækkun á ferðaþjónustu aldraðra um 104%, hækkun á tímabundinni stoðþjónustu fólks t.d. vegna slysa hækki um 16,1%.
      Er lagt til að tillagan verði send fjölskylduráði og umhverfis-og framkvæmdaráði til afgreiðslu.

      Fjölskylduráð tekur afstöðu til tillögu sem snýr að gjaldskrá hvað varðar heimaþjónustu og ferðaþjónustu. Tillaga um leigu í félagslega íbúðarkerfinu er rædd og afgreidd í umhverfis- og framkvæmdarráði.

      Fulltrúi Samfylkingar segir já, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra segja nei, fulltrúi Viðreisnar situr hjá. Tillaga um hækkun þriggja liða í gjaldskrá fjölskyldu- og barnamálasviðs um 2,5% er felld með þremur atkvæðum gegn einu.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra vísa í bókun meirihluta við tillögu Samfylkingar, tillaga 2 – gjaldskrár, hér fyrr í þessari fundargerð.

      Fulltrúi Miðflokksins óskar bókað:
      Nú liggur fyrir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hefur hafnað því að sá þjóðfélagshópur sem hvað höllustum fæti standa skuli standa til jafns við aðra þjóðfélagshópa með því að hækka gjaldskrár í félagslegri þjónustu langt umfram það sem lífskjarasamningarnir segja til um. Þessi viðkvæmi þjóðfélagshópur er ekki aflögufær með meiri hækkanir en lífskjarasamningarnir kveða á um.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar vísar í bókun sína við við afgreiðslu á tillögu Samfylkingar, tillaga 2 – Gjaldskrár.

      Tillögur Viðreisnar vegna vinnu við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar
      Tökum hækkun/leiðréttingu á leigubílaakstri eldri borgara á lengri tíma.

      Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar segja já, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra segja nei. Tillagan er felld með 3 atkvæðum gegn tveimur.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra vísa í bókun meirihluta við tillögu Samfylkingar, tillaga 2 – gjaldskrár, hér fyrr í þessari fundargerð.

      Fulltrúi Viðreisnar leggur fram eftirfarandi bókun:
      Eftir að hafa hlustað á og tekið þátt í umræðum í kjölfar þess að tillögur að gjaldskrá fyrir komandi fjárhagsáætlun voru lagðar fram, telur Viðreisn að heppilegast sé að fara ákveðna millileið að hækkununum og taka þær á lengri tíma. Þannig væri hægt að mæta þörfum á leiðréttingu á gjaldskrá sveitarfélagsins og eins líka að koma til móts við þau tilmæli að sveitarfélög fari hóflega í gjaldskrárhækkanir í tengslum við lífskjarasamningana.

    • 1310334 – Fjölskylduþjónusta, lykiltölur

      Lagt fram.

    • 1811177 – Félagslegar leiguíbúðir, kaup, fyrirspurn

      Lagt fram. Vísað í bæjarráð.

      Fulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

      Um leið og þakkað er fyrir framlögð svör við fyrirspurninni þá harmar fulltrúi Samfylkingarinnar að ekki hafi gengið betur að fjölga félagslegum íbúðum á þessu ári. Einungis hafa verið keyptar 7 íbúðir á þessu ári samborið við 14 íbúðir árið 2018. Biðlistar eru langir og margt fólk í brýnni þörf og því mikilvægt að hraða fjölgun íbúða í kerfinu eins og kostur er. Fulltrúi Samfylkingarinnar hvetur bæjarstjórn til þess að hækka heimild til lántöku til kaupa á félagslegum íbúðum á næsta ári sem samsvarar þeirri upphæð sem ekki var nýtt af heimildinni á þessu ári. Þannig má fjölga íbúðum í kerfinu hraðar ef aðstæður á húsnæðismarkaði verða hagstæðar til kaupa á slíkum íbúðum.

    • 1505162 – Blindrafélagið, lögblindir íbúar Hafnarfjarðar, ferðaþjónusta, útfærsla og fyrirkomulag

      Drög að samningi við Blindrafélagið um akstursþjónustu.

      Lagt fram. Fjölskylduráð óskar eftir kynningu á samningi á fyrsta fundi ráðsins í janúar.

    • 1903304 – Sérstakur húsnæðisstuðningur

      Á fundi fjölskylduráðs þann 14.okt. 2019 var lögð til breyting á reglum Hafnarfjarðarkaupstaðar um sérstakan húsnæðisstuðning. Felld var út síðasta málsgrein 1.greinar í reglunum þar sem segir: „Ekki er greiddur sérstakur húsnæðisstuðningur í félagslegu húsnæði.“

      Sérstakur húsnæðisstuðningur er greiddur frá dagsetningu umsóknar og greiðist frá fyrsta degi umsóknarmánaðar.

      Fulltrúi Viðreisnar þakkar fyrir svörin og fagnar því að Hafnarfjarðarbær hafi brugðist skjótt við og breytt reglum um sértækan húsnæðisstuðning í kjölfar úrskurðar Úrskurðarnefndar velferðarmála. Einnig vill Viðreisn hvetja til þess og ítreka að reglubreyting um sértækan húsnæðisstuðning verði kynnt vel og skilmerkilega fyrir bæjarbúum.

      Fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar
      Félagslega íbúðakerfið – hækkun leigu og breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning:

      1.Ef tillaga um hækkun leigu á félagslegum íbúðum um 21% gengur eftir eins og gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun næsta árs mun það á óbreyttu hafa veruleg áhrif á stöðu leigjenda hjá bænum. Í því ljósi er óskað upplýsinga um eftirfarandi atriði:
      a.Hversu margar íbúðir eru í útleigu í félagslega íbúðakerfinu í dag hjá Hafnarfjarðarbæ?
      b.Hvað er áætlað að 21% hækkun á leigu skili húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar í auknum tekjum á næsta ári?
      c.Við breytingar á reglum um félagslegar íbúðir hjá Hafnarfjarðarbæ og reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, hversu mikið má ætla að sérstakur húsnæðisstuðningur hækki hjá Hafnarfjarðarbæ á næsta ári?
      d.Í hve mörgum tilvikum mun greiðslubyrði leigjenda minnka með breytingum á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning?
      e.Í hve mörgum tilvikum mun aukin greiðslubyrði vera innan viðmiða Sambands íslenskra sveitarfélaga leigjenda í tengslum við lífskjarasamninganna um að hækkanir fari ekki yfir 2,5% á næsta ári?
      f.Í hve mörgum tilvikum mun greiðslubyrði leigjenda hækka um 2,5 – 5,0%?
      g.Í hve mörgum tilvikum mun greiðslubyrði leigjenda aukast um 5,0% – 10,0%?
      h.Í hve mörgum tilvikum mun greiðslubyrði leigjenda aukast um meira 10,0%?
      i.Að teknu tilliti til hækkunar á leigu um 21%, skv. fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar, og breytinga á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, hvað má áætla að meðaltalshækkun verði á greiðslubyrði leigjenda í félagslega íbúðakerfinu á næsta ári?

    • 1901204 – Styrkir 2019

      Fjölskylduráð samþykkir eftirfarandi styrki:
      Frú Ragnheiður 500.000.- kr.
      Barnaheill 200.000.- kr.

    • 0701243 – Málskot

    Fundargerðir

Ábendingagátt