Fjölskylduráð

10. desember 2020 kl. 14:30

á fjarfundi

Fundur 432

Mætt til fundar

  • Valdimar Víðisson formaður
  • Helga Ingólfsdóttir varaformaður
  • Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður
  • Kristjana Ósk Jónsdóttir aðalmaður
  • Hulda Sólveig Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi
  • Daði Lárusson varaáheyrnarfulltrúi

Einnig sat Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri, fundinn.

Ritari

  • Karlott Gunnhildarson ritari fjölskylduráðs

Einnig sat Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri, fundinn.

  1. Almenn erindi

    • 1806149 – Ráð og nefndir 2018-2022, kosningar

      Á fundi bæjarstjórnar þann 9. desember sl. var eftirfarandi tekið fyrir:

      Breytingar í ráðum og nefndum
      Breytingar í fjölskylduráði: Kristjana Ósk Jónsdóttir, Heiðvangi 58 í Hafnarfirði, verður aðalmaður í stað Guðbjargar Oddnýjar Jónasdóttur.

    • 2001456 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 og 2022-2024

      Tillögur Samfylkingarinnar sem lagðar eru fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2021 í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

      Tillaga:
      Efla starf Brúarinnar með fjölgun stöðugilda. Fjölga þarf stöðugildum og efla enn frekar starf Brúarinnar. Það er ljóst að þverfaglegt starf í grunnskólum bæjarins hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú um stundir. Í kjölfar farsóttarinnar og þeirra efnahags- og félagslegu áhrifa sem hún hefur haft verður mikil þörf á að mæta nemendum í leik- og grunnskólum með markvissum hætti með snemmtækri íhlutun. Því er það tillaga okkar að í það minnsta tveimur stöðugildum verði bætt við til að efla þetta mikilvæga starf strax á næsta ári. Vísa inn í fjölskylduráð, fræðsluráð og bæjarráð.

      Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlistans segja já. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja nei. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
      Verið er að innleiða verkferla Brúarinnar. Verkferlar innan barnaverndar, leik- og grunnskóla hafa nú þegar tekið breytingum með tilkomu Brúarinnar. Á næstu mánuðum má gera ráð fyrir enn frekari breytingum á verkferlum. Verkefnið er að festa sig í sessi enda um þróunarverkefni að ræða. Einnig er í gangi innleiðing á breyttum verkferlum innan barnaverndar í kjölfar úttektar sem var gerð fyrr á árinu. Meðal þess sem var lagt til í úttektinni er að mæla árangur af Brúnni. Um áramót verður ráðinn inn starfsmaður í 100% starf til að styrkja fjölskyldu- og skólaþjónustu Brúarinnar.

      Tillaga:
      Barnavernd fjölga stöðugildum til að mæta auknu álagi. Það er ljóst að brýnt er að fjölga stöðugildum í barnavernd vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur þegar haft á samfélag okkar. Einnig er ljóst að þörfin á aðkomu barnaverndar verður ekki minni á komandi ári. Það er ekki viturlegt að láta okkar góða fagfólk sem við eigum hér í bænum á þessu sviði hlaupa bara hraðar og hraðar, það mun koma niður á þjónustunni til lengri tíma litið og leiða til kulnunar starfsfólks. Til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar hér í bænum á næsta ári þá er að okkar mati nauðsynlegt að fjölga stöðugildum í barnavernd að minnsta kosti um tvö á næsta ári. Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð.

      Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlistans segja já. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja nei. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
      Það er verið að innleiða breytta verkferla í barnavernd í kjölfar úttektar sem var gerð fyrr á árinu. Sú vinna er í fullum gangi, búið er að stofna stýrihóp og vinna farin af stað með starfsmönnum. Einnig er verið að innleiða breytta verkferla með tilkomu Brúarinnar. Þessum breyttu verkferlum er m.a. ætlað að minnka álag og auka skilvirkni.

      Fulltrúi Miðflokksins tekur undir umrædda tillögu Samfylkingarinnar. Samkvæmt úttekt sem gerð var á starfi barnaverndar Hafnarfjarðar á árinu þá er mikið álag á barnaverndarstarfsmönnum sem nauðsynlegt er að fylgjast vel með. Fulltrúi Miðflokksins telur því nauðsynlegt að bregðast við því ástandi enda afar brýnt að málatími sé sem stystur og málin unnin hratt og vel.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
      Fulltrúi Samfylkingarinnar harmar það að meirihlutinn skuli ekki taka undir tillögur Samfylkingarinnar um fjölgun stöðugilda til að efla og styðja við starf Brúarinnar og barnarverndar. Á báðum stöðum er um gríðarlega mikilvægt starf að ræða, ekki síst á meðan við glímum við alvarlega afleiðingar vegna heimsfaraldurs Kórónuveirunnar.Fram hefur komið að starfsmenn barnaverndar eru undir miklu álagi og mikilvægt er að við bregðumst við því. Þó tilkynningum vegna barnaverndamála hafa ekki farið fjölgandi í Hafnarfirði á síðustu mánuðum þá er ljóst að þeim hefur fjölgað mikið á öðrum stöðum og því er ekki ólíklegt að tilkynningum geti fjölgað í Hafnarfirði á næstunni og mikilvægt að við séum viðbúin því.

      Tillaga:
      Nýsköpun í velferðarþjónustu. Komið verði á laggirnar þróunarsjóði sem ýtir undir nýsköpun í velferðarþjónustu. Mikilvægt er að fjárfesta í þekkingu í þeirri þjónustu sem krefst mannlegrar nándar. Samdóma álit hagfræðinga um allan heim er að efla þurfi velferðarþjónustu og hvetja til nýsköpunar hvort sem um er ræða verkefni, lausnir eða hugmyndir opinberra eða einkaaðila. Við leggjum því til að settar verði 50 milljónir í sjóð til efla velferðarþjónustu í sveitarfélaginu. Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð.

      Fulltrúar Samfylkingar segir já. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja nei. Fulltrúi Bæjarlistans situr hjá. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn einu.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
      Á þessu ári var lagt töluvert í nýsköpunarvinnu í Hafnarfirði, m.a. með fjölgun á sumarstörfum sumarið 2020 sem höfðu það m.a. að markmiði að auka nýsköpun í Hafnarfirði. Á fjölskyldu- og barnamálasviði má nefna innleiðingu á Köru Connect, skjáinnlit til eldri borgara og Brúin sem nýsköpunarverkefni sem eru farin af stað. Áfram verður stutt við þessi verkefni.

      Tillaga:
      Þjónusta við aldraða. Gert er ráð fyrir minna fjármagni inn í þennan þjónustuþátt á næsta ári þegar við ættum einmitt að vera að efla þjónustuna eða í það minnsta að halda í horfinu á milli ára. Það er óásættanlegt að gert sé ráð fyrir 6% samdrætti í þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu. Við leggjum til að horfið verði frá því og sett fram aukning sem nemur að minnsta kosti 3% við þennan lið í fjárhagsáætluninni. Eldri íbúar bæjarins hafa margir hverjir búið við mikla einangrun undanfarin misseri. Það er því mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu þessa hóps að efla félagsstarf þeirra sem og aðra þjónustu við hann. Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð.

      Fulltrúar Samfylkingar segir já. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja nei. Fulltrú Bæjarlistans situr hjá. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn einu.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
      Ekki er gert ráð fyrir samdrætti í þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu. Um er að ræða minnkun á milli ára sem er tilkomin þar sem það var gerður viðauki á árinu 2020 vegna rekstrarkostnaðar á gamla Sólvangi. Sá rekstrarkostnaður er ekki á fjölskyldu- og barnamálasviði á árinu 2021 og þess vegna er minna fjármagn á málaflokkinn.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
      Fulltrúi Samfylkingarinn telur mikilvægt að Hafnarfjörður sýni frumkvæði þegar kemur að nýsköpun í velferðarþjónustu og því er brýnt að við setjum að fót sjóð til að styðja við nýsköpun og eflingu velferðarþjónustu. Það er alltaf mikilvægt að við séum alltaf að leita leiða til þess að efla og styrkja þá velferðarþjónustu sem bærinn veitir og það á enn frekar við núna þegar við glímum við afleiðingar Kórónuveirufaraldursins. Einnig harmar fulltrúi Samfylkingarinnar að meirhlutinn hafni því að auka við þjónustu við aldraða á næsta ári. Það er ljóst að heimsfaraldur Kórónuveirunnar hefur haft margvísleg neikvæð áhrif á stöðu þessa hóps í samfélaginu og því brýnt að við leitum allra leiða til þess að styðja við bakið á honum og rjúfa félagslega einangrun.

      Tillögur Viðreisnar sem lagðar eru fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2021 í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

      Tillaga:
      Setja aukna áherslu á að vinna gegn félagslegri einangrun eldri borgara.

      Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun: Sú vinna er þegar farin af stað, m.a. með skjáinnlitum til eldri borgara og símtölum frá starfsmönnum á sviðinu. Gert er ráð fyrir að sú vinna eflist enn frekar á næsta ári.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað: Fulltrúi Samfylkingarinnar er sammála því sjónarmiði sem kemur fram í tillögu Viðreisnar en hefði talið æskilegt til þess að ná fram þessu markmiði hefði fjármagn í málaflokkinn verið aukið sbr. fjórðu tillögu Samfylkingarinnar hér á undan. Að öðru leyti er vísað í bókun undirritaðs undir fjórðu tillögu Samfylkingarinnar.

      Fulltrúi Miðflokksins tekur undir umrædda tillögu Viðreisnar.

      Tillaga:
      Fjölga stöðugildum hjá Barnavernd.

      Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlistans segja já. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja nei. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
      Það er verið að innleiða breytta verkferla í barnavernd í kjölfar úttektar sem var gerð fyrr á árinu. Sú vinna er í fullum gangi, búið er að stofna stýrihóp og vinna farin af stað með starfsmönnum. Einnig er verið að innleiða breytta verkferla með tilkomu Brúarinnar. Þessum breyttu verkferlum er m.a. ætlað að minnka álag og auka skilvirkni.

      Fulltrúi Miðflokksins styður umrædda tillögu Viðreisnar. Samkvæmt úttekt sem gerð var á starfi barnaverndar Hafnarfjarðar á árinu þá er mikið álag á barnaverndarstarfsmönnum sem nauðsynlegt er að bregðast við áður en kulnun og frekari fjarvistir fari að verða raunin. Fulltrúi Miðflokksins telur því afar brýnt og nauðsynlegt að bregðast við því ástandi sem uppi er. Málefni barna eiga að vera forgangsmál og brýnt að málatími er varðar börn sé sem stystur. Slíkt er afar mikilvægt þegar ábjátar í lífi barna í Hafnarfirði. Fulltrúa Miðflokksins finnst aumt af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra að geta ekki stutt þetta mál.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar vísar í bókun sína undir annarri tillögu Samfylkingainnar hér að framan.

      Tillaga:
      Að fjölga starfstækifærum í gegnum Áfram verkefnið.

      Tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi bókun:
      Á árinu 2021 verður auknum fjármunum varið í verkefnið til að fleiri geti komist af fjárhagsaðstoð og út á vinnumarkaðinn.

    • 1604079 – Húsnæðisáætlun

      Lögð fram svör við fyrirspurnum Samfylkingarinnar um félagslegt húsnæði og húsnæði fatlaðs fólks í sveitarfélaginu.

      Lögð fram svör við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
      Fulltrúi Samfylkingarinnar þakkar framlögð svör. Það er hins vegar ljóst að þörf er á stórfelldu átaki í uppbyggingu íbúða í Hafnarfirði. Fáar íbúðir hafa verið byggðar í bænum í samanburði við Reykjavík og nágrannasveitarfélögin og kyrrstaða hefur einkennt stöðuna í Hafnarfirði. Það hefur haft mikil áhrif á fjölgun félagslegra íbúða hjá Hafnarfjarðarbæ. Á yfirstandandi ári hafa einungis verið keyptar þrjár íbúðir í félagslega kerfið. Á sama tíma eru 140 umsóknir á biðlista, þ.e. 80 umsóknir frá einstaklingum og 60 umsóknir frá fjölskyldum. Flestir eru á biðlista eftir tveggja herbergja íbúðum og meðalbiðtíminn eftir þeim er þrjú ár. Margt fólki á biðlistanum er í brýnni þörf eftir húsnæði. Lítið hefur þokast í þessum málum á kjörtímabilinu og því nauðsynlegt fyrir fólk í brýnni þörf að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sýni þessum málaflokki meiri áhuga og taki hann fastari tökum.

    • 0701243 – Málskot

      Lögð fram niðurstaða málskotsnefndar í málum nr. 21/2020.

      Farið yfir úrskurð frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ábendingagátt