Fræðsluráð

18. desember 2015 kl. 08:15

í Krosseyri, Linnetsstíg 3

Fundur 339

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Einar Birkir Einarsson aðalmaður
  • Hörður Svavarsson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Sverrir Garðarsson aðalmaður

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla.

Ritari

  • Vigfús Hallgrímsson þróunarfulltrúi grunnskóla

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla.

  1. Almenn erindi

    • 1409495 – Grunnskóli, stofnun nýs skóla

      Tekin til afgreiðslu eftirfarandi tillaga frá síðasta fundi fræðsluráðs:
      “Fræðsluráð samþykkir fyrir sitt leyti umsókn frá Framsýn skólafélagi ehf. dagsettri 16. september 2014 um stofnun grunnskóla í Hafnarfirði.
      Samþykktin er bundin því að rekstraraðilar uppfylli öll skilyrði reglugerður nr. 699 frá 25. júlí 2012 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan og hljóti viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra skv. henni.
      Samþykktin tekur til greiðslu skv. 7. gr. reglugerðarinnar fyrir allt að 45 nemendur í 8.-10. bekk skólaárið 2016-2017, en nemendum fjölgi síðan ár frá ári þar til hámarki verður náð. Fjöldi nemenda og greiðslur sveitarfélagsins verða bundin í þjónustusamningi milli Framsýnar skólafélags ehf. og Hafnarfjarðarbæjar, fáist rekstrarleyfi hjá mennta- og menningarmálaráðherra.”

      Hörður Svavarsson leggur fram eftirfarandi tillögu:
      “Undirritaður fulltrúi Bjartar framtíðar leggur til að afgreiðslu málsins verði frestað til næstu viku svo minnihlutanum gefist kostur á koma fram með málamiðlun í þessu máli niðustöðu sem fræðsluráð getur verið sammála um.”
      Hörður Svavarsson.

      Frestunartillagan tekin til atkvæðagreiðslu. Fulltrúar Bjartrar framtíðar samþykkja tillöguna, fulltrúi Sjálfstæðisflokks situr hjá og fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna greiða atkvæði gegn tillögunni. Tillagan er felld á jöfnum atkvæðum.

      Fyrirliggjandi tillaga er samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna sem greiddu atkvæði á móti henni.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun:
      “Tekið skal fram að áður en til viðræðna getur komið af hálfu Hafnarfjarðarbæjar og Framsýnar skólafélags ehf. um hugsanlegan þjónustusamning, þarf mennta- og menningarmálaráðherra fyrst að veita félaginu rekstrarleyfi. Komi til þess verða sett skilyrði um fjölda nemenda, að innritunarreglur verði skýrar og gagnsæjar og að jafnræðis verði gætt við aðgengi í skólann. Upphæð greiðslna með nemendum skólans ræðst af því hvort bekkjardeildum fækki í öðrum skólum á móti, en á næsta ári gæti kostnaðurinn þá numið um 25-33 milljónum króna í mesta lagi, eftir því hvort til innheimtu skólagjalda komi eða ekki. Áður en til samninga kæmi yrði að vera búið að tryggja fjármagn sem hefði ekki íþyngjandi áhrif á rekstrarafkomu sveitarfélagsins. Stofnun skóla fyrir nemendur í 8.- 10. bekk myndi falla vel við áherslur meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sem leggja áherslu á aukið val, meiri fjölbreytni í skólastarfi og betri þjónustu í bæjarfélaginu.”

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:
      “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vísa í fyrri bókanir um málið, m.a. frá 16. des. sl. Við ítrekum athugasemdir okkar varðandi það að á sama tíma og verið er að skera niður í rekstri grunnskóla bæjarins og dregið úr kennsluúthlutun eru framlög til einkarekinna skóla hækkuð um tugi milljóna. Það er því orðið ljóst að ráðist hefur verið í niðurskurð í leik- og grunnskólum bæjarins til að standa straum af kostnaði við aukna einkavæðingu í rekstri grunnskóla.
      Sú tillaga sem hér er lögð fram er að okkar mati samþykki sveitarfélagsins fyrir rekstri nýs grunnskóla. Í tillögu meirihlutans er vísað í áætlanir tilvonandi rekstraraðila um nemendafjölda og rekstrarforsendur. Í samþykktinni, ef af verður, felst því augljóslega fjárhagsleg skuldbinding fyrir sveitarfélagið upp á tugi milljóna króna eins og fram kemur í bókun meirihlutans. Kostnaður vegna 45 nemenda er áætlaður 50-60 milljónir króna á ársgrundvelli og sú tala mun hækka enn frekar við aukinn nemendafjölda eins og tillaga meirihlutans gerir ráð fyrir. Það er mat okkar að ekki sé forsvaranlegt að leggja til frekari útgjaldaaukningu í einkareknum skólum á meðan skorið er niður í almennum grunnskólum sem reknir eru af Hafnarfjarðarbæ.”
      Adda María Jóhannsdóttir
      Sverrir Garðarsson

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka:
      “Meðan ákvörðun ráðuneytisins liggur ekki fyrir er of snemmt að gera ráð fyrir endanlegu fjármagni til verkefnisins. En sökum batnandi horfa í fjárhag sveitarfélagsins, standist fjárhagsáætlanir, eru fulltrúar meirihlutans bjartsýnir á að til framtíðar og vonandi fyrr en síðar, verði hægt að styrkja enn frekar allt skólastarf í bænum nemendum til heilla. Og þess ber að geta að á milli áranna 2015 og 2016 hækkar framlag til málaflokksins um 650 milljónir króna.”

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:
      “Fjármagnið sem nefnt er í fyrri bókun fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna er það sem fulltrúar meirihlutans tilgreina sjálfir í sinni bókun. Aukin framlög til fræðslumála eru að mestu komin til vegna hækkanna á kjarasamningum leik- og grunnskólakennara og starfsmats starfsfólks innan STH eins og glöggt má sjá í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.”
      Adda María Jóhannsdóttir
      Sverrir Garðarsson

Ábendingagátt