Fræðsluráð

24. febrúar 2016 kl. 13:00

í Krosseyri, Linnetsstíg 3

Fundur 343

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Einar Birkir Einarsson aðalmaður
  • Hörður Svavarsson aðalmaður
  • Algirdas Slapikas varamaður
  • Sverrir Garðarsson aðalmaður

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Úlfhildur Guðbjartsdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Sigrún Kristinsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskóla og Inga Nína Sigríður Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

Ritari

  • Elísabet Sverrisdóttir ritari

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Úlfhildur Guðbjartsdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Sigrún Kristinsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskóla og Inga Nína Sigríður Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

  1. Almenn erindi

    • 1602123 – Fundargerðir ÍTH

      Lögð fram fundargerð 225. fundar

      Fræðsluráð samþykkir ÍTH tillögu um frían aðgang að sundlaugum Hafnarfjarðar í vetrarfríi grunnskóla. Einnig að gert verði ráð fyrir því fyrirkomulagi í vetrarfríum grunnskóla á ári hverju.

    • 16011209 – Gallup, þjónusta sveitarfélaga 2015, könnun

      Samskiptastjóri kynnti niðurstöður Gallup könnunar á þjónustu sveitarfélaga 2015.

      Árdísi Ármannsdóttur samskiptastjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar þökkuð kynningin.

      Niðurstöður könnunar Gallup ber að taka alvarlega. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut að bæta þjónustuna og lækka gjöldin.

      Samfylking og VG koma að sameiginlegri bókun:
      “Niðurstöður þjónustukönnunar Gallup sýna að óánægja með þjónustu við barnafjölskyldur hefur aukist á milli ára. Foreldrar eru ósáttir við langa biðlista bæði hjá dagforeldrum og í leikskólum. Niðurstöðurnar koma ekki á óvart þegar horft er til aðgerða í málaflokknum þar sem þjónusta hefur verið skert með fækkun og lokun leikskólaúrræða og niðurskurði í kennsluúthlutun. Til að standast samanburð við önnur sveitarfélög og kröfur nútímasamfélags er mikilvægt að blásið verði til sóknar í þessum málaflokki og hlustað á raddir foreldra.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:

      Undanfarið ár hefur bæjarstjórn fjallað mjög opinskátt um stöðu bæjarins, samanburð þjónustu við önnur sveitarfélög og hvar þurfi að bæta úr. Meðal þess sem fram hefur komið er að Hafnarfjörður hefur verið dýr bær fyrir barnafjölskyldur hvað þjónustu varðar og núverandi meirihluti hefur þegar hafist handa við að bæta úr því. Ber þar fyrst að nefna raunlækkun leikskólagjalda tvö ár í röð, auknar niðurgreiðslur með þjónustu dagforeldra og lækkaðan inntökualdur barna á leikskóla, sem er markvisst beint að þessum hópi

    • 0810213 – Stóra upplestrarkeppnin

      Vegna þessa liðar mætir Ingibjörg Einarsdóttir, skrifstofustjóri Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar

      Ingibjörgu Einarsdóttur þökkuð kynningin.

    • 1602430 – Gjaldfrjáls leikskóli

      Lögð fram eftirfarandi tillaga:
      “Fræðsluráð samþykkir að stofna starfshóp sem ætlað er útfæra tillögur ráðsins frá því 1. júní 2015 um 6 tíma gjaldfrjálsan leikskóla í samráði við fræðslu- og frístundaþjónustuna. Hópurinn skal gera grein fyrir stöðu verkefnisins á fundi fræðsluráðs 23. mars næstkomandi og eftir það eins oft og þurfa þykir að mati ráðsins. Starfshópinn skipa þrír fulltrúar fræðsluráðs, tveir fulltrúar meirihluta og einn fulltrúi minnihluta auk sviðsstjóra fræðslu- og frístundaþjónustu og þróunarfulltrúa leikskóla.”

      Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum meirihlutans.

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:

      “Fulltrúar Samfylkingar og Vg benda á tillaga um gjaldfrjálsan leikskóla komu fyrst fram í frétt á vef Hafnarfjarðarbæjar þann 29. maí á síðasta ári. Tillagan var í framhaldinu kynnt á fundi fræðsluráðs þann 1. júní sama ár. Í þeirri tillögu kom fram að gera ætti tilraun með gjaldfrjálsan leikskóla í tveimur leikskólum í Hafnarfirði og byggt yrði á reynslu þeirra til að ákveða slíkt fyrirkomulag til framtíðar. Engin rökstuðningur fylgdi tillögunni og hefur hann ekki enn verið lagður fram. Raunar hefur tillagan hvergi komið til umfjöllunar í bráðum heilt ár eftir að hún var fyrst kynnt. Í umræðum um málið, m.a. í fjölmiðum og í greinarskrifum fulltrúa meirihlutans hefur komið fram að ætlunin sé að skilgreina
      fyrstu sex tímana af skóladegi leikskólabarna sem gjaldfrjálsan. Ekki standi hins vegar til að breyta leikskólagjöldum barna sem hafa lengri skóladag en sex stundir. Það þýðir að leikskólagjöld þeirra barna sem eru lengur en 6 klukkustundir á dag í leikskóla verða óbreytt frá því sem þau eru í dag.

      Fulltrúar Samfylkingar og VG telja það ekki boðleg vinnubrögð í þriðja stærsta sveitarfélagi landsins að slíkar tillögur séu lagðar fram til efnislegrar meðferðar án þess að þeim fylgi nokkur greinargerð eða rökstuðningur. Teljum við m.a. fyrirsjánlegt að slík framkvæmd standist ekki skilyrði um jafnræði og eðlilegt að það sé kannað áður en lengra er haldið. Þar sem tillagan hefur aldrei fengið efnislega umfjöllun né heldur hlotið formlega afgreislu, hvorki í fræðsluráði né bæjarstjórn, teljum við það hvorki tímabært né eðlilegt á nokkurn hátt að ráðið taki afstðu til þess með hvaða hætti eigi að ráðast í framkvæmd hennar. Tökum við því ekki þátt í afgreiðslu málsins.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
      “Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks vilja benda að umrædd tillaga var samþykkt á fundi ráðsins þann 1. júní 2015 og á fundi bæjarráðs 13. ágúst. Með henni fylgdi greinargerð og eru því fullyrðingar í bókun minnihlutans rangar. Jafnframt er bent á að umræddum starfshópi er ætlað að útfæra tillögur ráðsins. Það vekur vonbrigði að fulltrúar minnihlutans telja sig ekki geta staðið að tillögu um gjaldfrjálsan leikskóla.”

      Á næsta fundi verður lagt fram erindisbréf og tilnefningar í starfshópinn.

    • 1602275 – Gaflaraleikhúsið

      Lagt fram erindi frá Gaflaraleikhúsinu þar sem boðið er upp á sýningar á leikritinu Hvítt fyrir leikskóla, alls 14 sýningar á kostnaðarverði.

      Ekki er hægt að verða við beiðni þar sem fjármagn er ekki til staðar í fjárhagsáætlun ársins 2016.

    • 1410618 – Dagforeldrar - leyfisbeiðnir

      Lögð fram umsókn um endurnýjun á starfsleyfi sem dagforeldri í Hafnarfirði frá Elínborgu Ragnarsdóttur.
      Daggæslufulltrúi mælir með umsókninni.

      Samþykkt.

    • 1105363 – Aðalnámskrár grunn- og leikskóla

      Kynntur nýr matskvarði við lok grunnskóla.

      Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, var með kynningu.

    • 1602217 – Grunnskólar, einkunnir, nýtt kerfi

      Lagt fram bréf frá ungmennaráði Hafnarfjarðar varðandi breytingu á einkunnakerfi við lok grunnskóla.

      Fræðsluráð beinir því til skólastjórnenda grunnskólanna að kynna nýtt einkunnakerfi vel fyrir nemendum.

    • 1602277 – Samræmd könnunarpróf í grunnskólum 2016-2017

      Lagt fram bréf frá Menntamálastofnun varðandi dagsetningar og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa skólaárið 2016 – 2017.

      Lagt fram.

    • 1602125 – Erindi frá umboðsmanni barna

      Lagt fram bréf frá umboðsmanni barna vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á frístundasviði Reykjavíkurborgar þar sem minnt er á þá skyldu sveitarfélaga að setja hagsmuni barna í forgang.

      Lagt fram.

    • 1602276 – Heimili og skóli, ályktun

      Lögð fram ályktun stjórnar Heimilis og skóla um niðurskurð í leik- og grunnskólum landsins.

      Lagt fram.

    • 16011139 – Leikskólinn við Bjarkavelli.

      Kynntar umsóknir um stöðu leikskólastjóra.
      Umsækjendur eru:
      Charlotte Kirkedal Jensen
      María Petrína Berg
      Ragnhildur Ólafsdóttir
      Svanhildur Ósk Garðarsdóttir
      Svava Björg Mörk
      Sverrir Jörstad Sverrisson

      Lagt fram.

    • 1511157 – Dagforeldrar, innritun og aðstaða

      Lögð fram eftirfarandi tillaga:
      “Fræðsluráð samþykkir að stofna starfshóp sem ætlað er útfæra tillögur ráðsins frá því 1. júní 2015 um nýtt dagforeldrakerfi í samráði við fræðslu og frístundaþjónustuna. Markmið vinnu starfshópsins er að samræma innritun barna í dagvistun hjá dagforeldrum og hefja samningaviðræður við stjórn félags dagforeldra í Hafnarfirði um samræmda þjónustu dagforeldra. Hópurinn skal gera grein fyrir stöðu verkefnisins á fundi fræðsluráðs 23. mars næstkomandi og eftir það eins oft og þurfa þykir að mati ráðsins. Starfshópinn skipa þrír fulltrúar fræðsluráðs, tveir fulltrúar meirihluta og einn fulltrúi minnihluta auk sviðsstjóra fræðslu- og frístundaþjónustu og þróunarfulltrúa leikskóla.”

      Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

      Á næsta fundi verður lagt fram erindisbréf og tilnefningar í starfshóp.

    • 1510009 – Gervigrasvellir

      Umræða um gúmmíkurl á sparkvöllum við grunnskóla.

      Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir stöðu mála.

      Fræðsluráð beinir því til umhverfis- og skipulagsþjónustu að skipta út efnum á sparkvöllum á næstu misserum.

    Leikskólamál

    • 1601182 – Skólaskipan í Suðurbæ

      Málið er sett á dagskrá að ósk fulltrúa minnihlutans.

      Sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu lýsti framgangi vinnunnar sem ætlað var frá upphafi að ljúka 1. mars nk. Niðurstöður verða kynntar á næsta fundi fræðsluráðs eins og gert var ráð fyrir.

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:
      “Við gerum athugasemdir við að formaður fræðsluráðs hafi ekki orðið við formlegri beiðni okkar um að staða leikskólamála í Suðurbæ yrði tekin á dagskrá ráðsins en slík beiðni var send formanni og fræðslustjóra þann 17. febrúar sl. Fræðsluráð samþykkti þann 13. janúar sl. að fela fræðslu- og frístundaþjónustu að gera úttekt á þörf fyrir leikskólapláss í Suðurbæ. Var sviðinu falið að leggja fram niðurstöður fyrir 1. mars. Í ljósi þeirrar ákvörðunar meirihlutans að ráðast í lokun annarrar tveggja starfsstöðva leikskóla í þessu hverfi má gera ráð fyrir að foreldrar barna á leikskólaaldri í Suðurbæ bíði eftir niðurstöðum úttektarinnar, enda má ætla að ákvörðun um lokun verði tekin til endurskoðunar í bæjarstjórn leiði úttektin í ljós að ekki séu til staðar þær forsendur til fækkunar leikskólaplássa í hverfinu sem áður var talið. Samþykkt ráðsins frá 13. janúar sl. kvað á um að niðurstöður úttektarinnar yrði kynntar fyrir 1. mars. Þar sem fundur fræðsluráðs í dag er sá síðasti fyrir 1. mars, hefði verið eðlilegt að niðurstöðurnar hefðu verið kynntar á fundinum.”

Ábendingagátt