100% greiðsluþátttaka til sjálfstætt starfandi grunnskóla

Fréttir

Frá og með hausti 2022 munu skólagjöld falla niður og Hafnarfjarðarbær greiða 100% rekstrarframlag til sjálfstætt starfandi grunnskóla í sveitarfélaginu.  Með nýjum þjónustusamningum við skólana er enn eitt skrefið stigið í þá átt að tryggja jöfn tækifæri allra barna með beinum stuðningi við fjölbreytt rekstrarform og einstaklingsbundið val í menntun.

Skólagjöld í sjálfstæðum grunnskólum í Hafnarfirði lögð niður

Frá og með hausti 2022 munu skólagjöld falla niður og Hafnarfjarðarbær greiða 100% rekstrarframlag til sjálfstætt starfandi grunnskóla í sveitarfélaginu. Sjálfstætt starfandi grunnskólar í Hafnarfirði eru tveir; NÚ Framsýn menntun og Barnaskóli Hjallastefnunnar. Með nýjum þjónustusamningum við skólana er enn eitt skrefið stigið í þá átt að tryggja jöfn tækifæri allra barna með beinum stuðningi við fjölbreytt rekstrarform og einstaklingsbundið val í menntun.

IMG_6041

Bóas Hallgrímsson framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Kristján Ómar Björnsson handsala hér nýja þjónustusamninga.  

Fjölbreytni og frelsi í námsvali

Þjónustusamningar við skólana tvo hafa hin síðustu ár hljóðað upp á 75% greiðsluþátttöku sveitarfélags í rekstri skólanna en framlagið verður 100% frá og með skólaárinu 2022-2023. Rekstrarframlagið nemur 100% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningum Hagstofu Íslands. Innifalið í þeim kostnaði er húsnæðiskostnaður, öll stjórnun, kennsla, skólaþjónusta og annar almennur rekstrarkostnaður við skólastarf. Þessi breyting og útreikningur á rekstrarframlagi á sér ekki önnur fordæmi meðal íslenskra sveitarfélaga.

„Ný menntastefna fyrir Hafnarfjarðarbæ er við það að líta dagsins ljós og í henni er undirtóninn þroski, vellíðan og einstaklingsmiðaður árangur. Við viljum að hver og einn nemandi finni sig í sínu námi og fái tækifæri til að dafna á eigin verðleikum og forsendum. Aukið valfrelsi til menntunar skiptir miklu máli í heildarmyndinni og með þessari ákvörðun er verið að tryggja öllum börnum jafnan aðgang að skólunum í bænum“, segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar við undirritun á nýjum samningi við fulltrúa NÚ og Barnaskóla Hjallastefnunnar.

IMG_6047

Hópurinn sem viðstaddur var undirritun nýrra þjónustusaminga. Vigfús Hallgrímsson þróunarfulltrúi grunnskóla hjá Hafnarfjarðarbæ,  Gísli Rúnar Guðmundsson skólastjóri NÚ, Kristján Ómar Björnsson eigandi og heilsustjóri NÚ, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Bóas Hallgrímsson framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og Hildur Sæbjörg Jónsdóttir skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði. 

Þjónustusamningurinn nær til þeirra barna og ungmenna sem eiga lögheimili í Hafnarfirði og fósturbarna ef fósturforeldrar eiga lögheimili í Hafnarfirði. Skólunum er heimilt að taka nemendur í skólann sem ekki eiga lögheimili í Hafnarfirði, en bærinn greiðir ekki rekstrarframlag vegna þeirra. Breytingar á þjónustusamningum við skólanna voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þann 8. júní síðastliðinn.  

Ábendingagátt