Menningar­bærinn

Menningarlíf bæjarins er fjölbreytilegt og lifandi.

Upplifðu stemninguna

Hafnarfjörður er vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga og aðsókn erlendra ferðamanna hefur einnig verið að aukast jafnt og þétt. Heilsubærinn Hafnarfjörður er vinalegur bær og hefur haldið heimilislegu yfirbragði sínu og hlýleika, samhliða því að byggt hefur verið upp fjölbreytt verslun og þjónusta. Í dag má finna fjölda kaffihúsa og veitingastaða um allan bæ sem öll búa yfir sínum sjarma og sérstöðu.

 

Vikulegir viðburðir og skemmtanir sýna fjölbreytileikann sem ríkir í menningarlífi bæjarins. Þar spila Bæjarbíó, Gaflaraleikhúsið og Leikfélag Hafnarfjarðar stórt hlutverk ásamt Byggðasafni Hafnarfjarðar, Hafnarborg og Bókasafni Hafnarfjarðar. Ekki er verra að frítt er inn á öll söfn og í sundlaugar fyrir börn og eldra fólk.

 

 

Margir árlegir viðburðir eru á dagskrá. Til dæmis má kynnast fornri menningu landnámsmanna og víkinga í víkingaveislum Fjörukrárinnar og á víkingahátíðum. Lista- og menningarhátíðin Bjartir dagar er haldin á hverju ári í tengslum við Sumardaginn fyrsta og á aðventunni heimsækja fjölmargir Jólaþorpið og Hellisgerði. Ekki má heldur gleyma alþjóðlega Höggmyndagarðinum á Víðistaðatúni, HEIMA hátíðinni sem haldin er síðasta vetrardag og Hjarta Hafnarfjarðar, lengstu tónlistarhátíð landsins sem haldin er í Bæjarbíó í júlí ár hvert. 

Lifandi miðbær og heillandi hafnarsvæði

Hafnarfjörður er að mörgu leyti einstakur bær, ekki síst fyrir lifandi og skemmtilegan miðbæ, heillandi hafnarsvæði og gott aðgengi að fjölbreyttum og fallegum náttúruperlum. Margir áhugaverðir staðir eru í göngufæri frá miðbænum, til dæmis Hellisgerði, Víðistaðatún, Lækurinn og Hamarinn.

Fjölmargir Hafnfirðingar búa við þann munað að vera með Helgafellið, Hvaleyrarvatn, Ásfjallið og Ástjörn í bakgarðinum hjá sér. Fyrir aðra íbúa leynast þessar perlur rétt við bæjarmörkin.

Hafnarfjörður styrkir menningu

Á hverju ári er tilnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Tilkynnt er um valið við hátíðlega athöfn á síðasta vetrardag í upphafi bæjarhátíðarinnar Bjartra daga. Síðustu ár hefur listafólk á borð við Friðrik Dór, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Björk Jakobsdóttur verið útnefnt. 

Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna og viðburða á sviði menningar og lista í Hafnarfirði tvisvar sinnum á ári. Markmiðið er að styrkja einstaklinga og félagasamtök til lista- og menningarsköpunar og efla þannig hafnfirskt menningarlíf.