Aðalskipulag

Aðalskipulag Hafnarfjarðar markar framtíðarsýnina um hvers konar bæ við viljum byggja á næstu árum: hver markmið okkar eru, hvernig við ætlum að ná þeim og hvaða kostnað það hefur í för með sér.

Hvað er aðalskipulag?

Aðalskipulag snýst um fólkið sem býr í bænum og þarf að lifa í því umhverfi sem við búum okkur. Það snýst líka um hvaða fyrirtæki bærinn vill laða að sér til að skapa atvinnu og tekjur fyrir bæjarfélagið, og til að taka þátt í að skapa umhverfi okkar. Það snýst líka um fjármagn, því án fjármagns er ekki hægt að byggja þann bæ sem við óskum.

Á kortavefnum má finna undir Skipulag allar upplýsingar um aðalskipulag, deiliskipulag og hverfaskiptingu bæjarins. Gildandi aðalskipulag er frá 2013–2025.

  • Aðalskipulagið sýnir stefnu um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál Hafnarfjarðar næstu 20 árin. Það sýnir hvernig byggðinni er ætlað að þróast og veitir upplýsingar fyrir þá sem hyggja á búsetu eða framkvæmdir um hvaða möguleikar eru fyrir hendi og hverjir kosti sveitarfélagsins eru.
  • Aðalskipulagið stuðlar að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, varðveislu náttúru og menningarverðmæta og vinnur gegn umhverfisspjöllum og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
  • Aðalskipulaginu er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála en með skipulagi eru réttindi og kvaðir skilgreind til að forðast hagsmunaárekstra.
  • Aðalskipulagið  liggur til grundvallar fyrir ýmsa grunngerð, svo sem vegaframkvæmdir, veitur og stofnanir.
  • Með skipulagi er tryggður faglegur undirbúningur mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannvirkja sé fullnægt.