Bæjarbío

Bæjarbíó var stofnað 1945 og er elsta starfandi kvikmyndahús landsins. Í dag þjónar Bæjarbíó fjölbreyttum tilgangi sem menningarhús Hafnarfjarðar og glæðir miðbæinn lífi. Þar eru haldnir tónleikar og viðburðir að ýmsu tagi, meðal annars tónlistar- og bæjarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar.

Sagan

Vefur Bæjarbíós

Bæjarbíó var innréttað á árunum 1942–43 af Sigmundi Halldórssyni húsameistara og Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt. Það var tekið í notkun 10. janúar 1945. Mjög var vandað til hönnunar bíósins á sínum tíma. Bæjarbíó er eina kvikmyndahúsið frá miðri 20. öld sem varðveist hefur í upphaflegri mynd.

Höfundar veggmynda í forsal, sem eru eins konar táknmyndir fyrir Hafnarfjörð (sjómaðurinn og fiskvinnslustúlkan), eru Ásgeir Júlíusson og Atli Már. Einnig er stórt málverk eftir listmálarann Eirík Smith af Sólvangi en hagnaðurinn af rekstri Bæjarbíós var nýttur til byggingar þessa víðkunna elliheimilis.

Árið 1970 var reglubundnum kvikmyndasýningum hætt í húsinu en Leikfélag Hafnarfjarðar fékk þar aðstöðu. Kvikmyndasafn Íslands tók við bíóinu árið 1997. Þá var ráðist í faglega endurgerð bíósalarins og hófust kvikmyndasýningar þar að nýju í desember 2001. Við endurgerðina voru upphaflegar teikningar Skarphéðins hafðar sem fyrirmynd og kappkostað var að halda í veggmyndir og önnur sérkenni sem gefa bíóinu sögulegt gildi. Meðal annars voru upphaflegar kvikmyndasýningavélar gerðar upp þannig að hægt yrði að sýna kvikmyndir eins og gert var þegar bíóið hóf starfsemi sína 1945. Þetta upprunalega verklag við kvikmyndasýningar hefur verið aflagt annars staðar á landinu.

Í dag er rekstur menningarhússins í höndum Páls Eyjólfssonar og Péturs Stephensen sem hafa það að leiðarljósi að halda úti fjölbreyttri og öflugri menningarstarfsemi í Bæjarbíói.