Menning og listir

Hér geturðu skoðað í tímaröð alla þá skemmtilegu árlegu viðburði sem haldnir eru í bænum.

Þrettándagleði á Ásvöllum

Á þrettándanum, 6. janúar ár hvert, eru jólin kvödd með dansi og söng á glæsilegri Þrettándagleði á Ásvöllum. Jólasveinn, Grýla, Leppalúði, álfar og púkar skemmta og hátíðinni lýkur með glæsilegri flugeldasýningu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Vetrarhátíð

Vetrarhátíð er haldin í febrúar ár hvert. Megintilgangurinn er að gefa íbúum höfuðborgarsvæðisins tækifæri til að njóta menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi.

Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti hefst á víðavangshlaupi Hafnarfjarðar í umsjón Frjálsíþróttadeildar FH. Að því loknu er haldið í skrúðgöngu á Víðistaðatún þar sem skátafélagið Hraunbúar sér um fjölbreytta fjölskyldudagskrá.

Bjartir dagar

Bjartir dagar er menningarhátíð sem endurspeglar allt fjölbreytta menningarstarfið sem á sér stað í Hafnarfirði sem stofnanir, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa að. Bjartir dagar hefjast á afmælisdegi bæjarins 1. júní á því að þriðjubekkingar syngja inn sumarið. Kraftur og gróska í listalífinu í Hafnarfirði hefur meðal annars endurspeglast í viðburðinum Gakktu í bæinn. Þá opna listamenn, hönnuðir og handverksfólk vinnustofur sínar og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Hafnarfirði síðan 1953 enda tengist saga Hafnarfjarðar náið sjósókn og fiskvinnslu. Fjölbreytt dagskrá og heiðrun sjómanna fer fram við Flensborgarhöfn og Björgunarsveit Hafnarfjarðar setur upp fjölbreytt björgunarleiktæki á landi og í sjó.

Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir. Endilega gerðu þér ferð niður að höfn og njóttu þess sem höfnin, sem bærinn er kenndur við, hefur upp á að bjóða.

Menningar- og heilsugöngur

Yfir sumarmánuðina er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20 nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní

Þjóðhátíðardagurinn hefst í Hafnarfirði með fánahyllingu á Hamrinum. Að lokinni skrúðgöngu, sem skátafélagið Hraunbúar og Lúðrasveit Hafnarfjarðar leiða, flytur fjallkona Hafnarfjarðar ávarp við setningu þjóðhátíðardagskrár. Þá tekur við fjölbreytt hátíðar- og skemmtidagskrá sem teygir sig um allan miðbæinn og enginn ætti að láta Austurgötuhátíðina framhjá sér fara.

Víkingahátíð á Víðistaðatúni

Víkingafélagið Rimmugýgur stendur árlega fyrir Víkingahátíð á Víðistaðatúni. Hátíðin er haldin vikuna í kringum 17. júní. Á hátíðinni fara fram bardagasýningar, leikjasýningar, sögumenn, bogfimi, handverk, markaður, víkingaskóli barna og veitingar til sölu. Víkingahátíð hefur verið haldin í Hafnarfirði í næstum þrjá áratugi en fyrsta hátíðin fór fram á Víðistaðatúni árið 1995.

Bóka- og bíóhátíð

Bóka- og bíóhátíð barnanna sem er haldin að hausti í Hafnarfirði minnir á mikilvægi lestrar og bóka og tengsl þeirra við kvikmyndir. Stofnanir bæjarins standa fyrir viðburðum og fjölbreytt verkefni eru unnin í leik- og grunnskólum bæjarins.

Jólaþorpið

Jólaþorpið er opið alla föstudaga frá kl. 17-20, laugardaga og sunnudaga á aðventunni frá kl. 13–18. Þar iðar allt af lífi og fjöri í kringum jólin. Litlu fagurlega skreyttu jólahúsin í Jólaþorpinu í Hafnarfirði eru orðin landsþekktur söluvettvangur fyrir ýmiss konar gjafavöru, handverk og hönnun sem tilvalið er að setja í jólapakkann. Einnig eru á boðstólum gómsætar veitingar til að borða á staðnum og ljúfmeti til að taka með heim á veisluborðið. Endilega komdu í miðbæ Hafnarfjarðar í desember til að njóta skemmtidagskrár á Thorsplani, kíkja í litlu jólahúsin og hver veit nema þú rekist á Grýlu eða jólasveinana á vappi um bæinn.