Jólabærinn

Hafnarfjörður býður jólin velkomin með sínu árlega jólaþorpi, ljósadýrð og ævintýraveröld í Hellisgerði, Hjartasvelli og svo miklu fleiru. Þú finnur jólaandann í Hafnarfirði!

Við erum jólabærinn Hafnarfjörður

Á aðventunni er notalegt að koma til Hafnarfjarðar, njóta og hafa gaman saman. Hafnarfjörður er sannkallaður jólabær þar sem fjölskyldur og vinahópar upplifa hlýlega og afslappaða jólastemningu.

Við tökum hlýlega á móti þér og öllum þínum!

Heiti lags: Nú mega jólin
Söngur: Rakel Björk Björnsdóttir
Lag: Héðinn Svavarsson
Texti: Ólafur Heiðar Harðarson

Jólaleiðin liggur um Hafnarfjörð

Jólaleiðin liggur um hjarta Hafnarfjarðar. Skelltu þér á safn, í sund, í skógarferð með fjölskylduna, tónleika með vinahópnum, út að borða með makanum, á kaffihús með foreldrunum eða í alvöru kaupstaðarferð í hjarta Hafnarfjarðar. Skildu jólastressið eftir heima og komdu í heimsókn í huggulegasta heimabæ höfuðborgarsvæðisins.

Jólaleiðin 2022

Jólaleiðin 2022

Hér eru mild jólaljós, ljúfir tónar, freistandi vörur, blómstrandi menning, óvæntar uppákomur og öðruvísi jóladagskrá. Einnig eru fjölbreyttar verslanir, veitingastaðir og kaffihús af bestu gerð þar sem njóta má á staðnum eða grípa dýrindis bakkelsi og njóta heima.

Þú finnur jólaandann í Hafnarfirði

Þú finnur jólaandann í Hafnarfirði

Jólaþorpið í Hafnarfirði

Jólaþorpið í Hafnarfirði er jólamarkaður sem er opinn á aðventunni alla föstudaga frá kl. 17-20 og alla laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-18. Þar iðar allt af lífi og fjöri. Öll eru velkomin í miðbæ Hafnarfjarðar í desember að njóta óvæntra skemmtiatriða á Thorsplani, kíkja í litlu jólahúsin og hver veit nema þú rekist á Grýlu eða jólasveinana á vappi um bæinn.

Jólaþorpið í Hafnarfirði

Jólaþorpið í Hafnarfirði

Fagurlega skreyttu jólahúsin í Jólaþorpinu eru orðin landsþekktur söluvettvangur fyrir ýmis konar gjafavöru, sælkerakrásir, handverk og hönnun sem tilvalið er að setja í jólapakkann. Einnig eru á boðstólnum gómsætar veitingar til að borða á staðnum og ljúfmeti til að taka með heim á veisluborðið.

Jólahúsin í Jólaþorpinu í Hafnarfirði

Jólahúsin í Jólaþorpinu í Hafnarfirði

Jólaþorpið í Hafnarfirði er með Facebook síðu þar sem hægt er að fylgjast með því sem er á döfinni hverju sinni.

Ljósadýrð og ævintýraveröld í Hellisgerði

Sannkallað jólaævintýraland er risið í Hellisgerði, þessum nær 100 ára gamla og gullfallega lystigarði í miðbæ Hafnarfjarðar. Við innganginn frá Reykjavíkurvegi tekur fallegt rautt jólahjarta á móti gestum og gangandi og síðan tekur við ævintýraveröld ljósa og lystisemda. Ljósaseríur og ljósafígúrur gleðja augað og andann. Mikið af fólki leggur leið sína um garðinn á göngu sinni um jólabæinn auk þess sem sjá má fjölskyldur í nestisferð með kakó og jólakökur, börn við létt hraunklifur og hellaskoðun og skautandi á tjörninni sem liggur í botni garðsins. Einhverjir hafa verið í ævintýraferð og í leit að álfum og huldufólki enda segir sagan að þarna búi mikill fjöldi álfa og huldufólks. Álfabúðin í Hellisgerði er opin allar aðventuhelgarnar frá kl. 12-17 en þar er hægt að versla fallegt handverk og hönnun og gæða sér á álfakakói og piparkökum.

Hellisgerði er skrúðgarður Hafnarfjarðar

Hellisgerði er skrúðgarður Hafnarfjarðar

Hjartasvellið fyrir framan Bæjarbíó og Bókasafn Hafnarfjarðar

Frá 10. nóvember til 30. desember 2023 mun Hafnarfjarðarbær í samvinnu við Bæjarbíó starfrækja Hjartasvellið, 200 m² skautasvell fyrir fólk á öllum aldri. Svellið var fyrst opnað á aðventunni 2021 og komu fjölmargir og nutu samveru á skautum í hjarta Hafnarfjarðar. Hjartasvellið er staðsett á Ráðhústorgi, fyrir framan Bæjarbíó og Bókasafn Hafnarfjarðar og tengir þannig skemmtilega saman Jólaþorpið í miðbænum og ljósadýrðina í Hellisgerði. Tilvalið er að skella sér á Bókasafn Hafnarfjarðar eftir skautaferðina, ylja sér og glugga í bók.

Hjartasvellið er 100% vistvænt þar sem hvorki vatn né rafmagn er notað til að frysta það. Svellið er byggt á sérhönnuðum gerviísplötum sem hafa sömu eiginleika og venjulegur ís sem býður uppá frábæra afþreyingu, upplifun og hreyfingu fyrir alla fjölskylduna. Skautaferðir eru til sölu á tix.is, innifalin er leiga á skautum og hjálmi. Hver skautaferð er 40 mín og hefst á heila tímanum. Mikilvægt er að mæta tímanlega til að forðast raðir. Hægt er að kaupa allt að átta ferðir á 4.000 kr í sérstökum fjölskyldupakka og reiknast afslátturinn í körfunni sjálfkrafa.

Hjartasvellið er skautasvell í hjarta Hafnarfjarðar

Hjartasvellið er skautasvell í hjarta Hafnarfjarðar

Jólablað Hafnarfjarðar 2023: Jólabærinn Hafnarfjörður

Jólablað Hafnarfjarðar er gefið út í sömu viku og Jólaþorpið opnar ár hvert og er dreift 72.000 eintökum á öllu heimili á höfuðborgarsvæðinu. Jólablaðið hefur þann tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, gestum og gangandi, og varpa ljósi á hlýleikann og fjölbreytileikann sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í Hafnarfirði.

Jólablaðið er aðgengilegt í Fjarðarkaupum, Firði verslunarmiðstöð, þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar, Bókasafni Hafnarfjarðar, Hafnarborg, Byggðasafni Hafnarfjarðar og í sundlaugum bæjarins.

Jólablað Hafnarfjarðar 2023: Jólabærinn Hafnarfjörður – vefútgáfa:

Jólablað Hafnarfjarðar 2022: Jólabærinn Hafnarfjörður – vefútgáfa:

.embed-container { position: relative; padding-bottom:56.25%; height:0; overflow: hidden; max-width: 100%; } .embed-container iframe, .embed-container object, .embed-container embed { position: absolute; top: 0; left: 0; width: 100%; height: 100%;}

Lifandi miðbær og heillandi hafnarsvæði

Jólabærinn Hafnarfjörður er að mörgu leyti einstakur, ekki síst fyrir lifandi og skemmtilegan miðbæ, heillandi hafnarsvæði og gott aðgengi að fjölbreyttum og fallegum náttúruperlum allt árið um kring.  Margir áhugaverðir staðir eru í göngufæri frá miðbænum, til dæmis Hellisgerði, Víðistaðatún, Hamarskotslækur og Hamarinn.

Tónlistarveisla í Hafnarborg

Tónlistarveisla í Hafnarborg

Menningarveisla víða um bæinn

Aðventan verður ekki bara jólaleg í Hafnarfirði heldur afar lífleg og fjörug og munu viðburðir og skemmtun sýna fjölbreytileikann sem ríkir í menningarlífi bæjarins. Þar spilar Bæjarbíó stórt hlutverk ásamt Byggðasafni HafnarfjarðarHafnarborg og Bókasafni Hafnarfjarðar. Öll áhugasöm eru hvött til að kynna sér dagskrána sem í boði er á hverjum stað. Vakin er sérstök athygli á því að frítt er á söfn bæjarins.

Komdu í sund um jólin!

Jólasund er góð samverustund og sundlaugarnar í Hafnarfirði vel til þess fallnar að uppfylla þarfir allra samfélagshópa enda ólíkar. Notum tækifærið og skellum okkur í sund með allri fjölskyldunni og/eða vinum um jólin. Sundlaugarnar eru þrjár og hafa þær allar sína sérstöðu og sjarma. Þannig einkennir Sundhöll Hafnarfjarðar gömul saga og rólegt andrúmsloft, Ásvallalaug fjölskylduvænt umhverfi og heitur salur fyrir yngri börnin og Suðurbæjarlaug fallegt og gott útisvæði og útilaug.

Jólabærinn Hafnarfjörður tekur vel á móti þér. Komdu í heimsókn!