Hamarskotslækur

Hamarskotslækur, oft kallaður einfaldlega Lækurinn, rennur neðan Kinnahverfis, um Hörðuvelli og með Hamrinum. Þar er tilvalið að gefa öndunum brauð, en einstakt dýralíf og skemmtilegar gönguleiðir einkenna lækinn.

Upptök lækjarins

Lækurinn á upptök sín í tveimur kvíslum. Önnur þeirra kallast Kaplakrikalækur og rennur úr Urriðakotsvatni með suðurbrún Garðahrauns um Kaplakrika, síðan með Reykjanesbrautinni í vestanverðu Setbergshverfi og kallast þá Setbergslækur. Hin kvíslin kemur upp í Lækjarbotnum syðst í Stekkjarhrauni, rennur til norðurs með hrauninu og sameinast Setbergslæk í Þverlæk neðan Setbergsskóla og kallast eftir það Hamarskotslækur.

Hörðuvallastífla

Lækurinn var stíflaður við Brekkuna undir Hamrinum þegar Jóhannes Reykdal trésmiður virkjaði hann til rafmagnsframleiðslu í 15 hús og reisti fyrstu rafstöðina á Íslandi til almenningsnota árið 1904. Síðar var Hörðuvallastíflan gerð ofar í læknum þar sem hús Frímúrarareglunnar stendur núna. Þar var stærri rafstöð byggð 1906 til að knýja trésmíðavélar Reykdals og lýsa upp húsin í bænum. Hörðuvallastöðin er talin elsta sjálfstæða rafmagnsstöðin á landinu. Við stífluna var einnig sett á laggirnar íshús sem nýtti ísinn á læknum áður en hraðfrystihúsin komu til sögunnar.

Ábendingagátt