Barnavernd

Markmið barnaverndar er fyrst og fremst að koma börnum og fjölskyldum til aðstoðar.

Hlutverk barnaverndar

Í barnaverndarlögunum segir að aðstoða eigi börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu. Barnavernd Hafnarfjarðar gerir það með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og vernda einstaka börn þegar það á við.

Það er lögð áhersla á samvinnu við foreldra og börn. Velferð barnsins er alltaf í forgangi. Börn eru höfð í samráði, eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir.

Verkefni barnaverndar eru:

  • vinnsla mála samkvæmt barnaverndarlögum
  • félagsráðgjöf fyrir fjölskyldur og barnavernd
  • umsagnir í ættleiðingarmálum
  • úttektir á fósturfjölskyldum og stuðningsfjölskyldum
  • sumardvalir barna
  • forvarnarstarf

Barnavernd sinnir ekki málum um umgengni eða forsjárdeilur. Það er gert hjá sýslumanni.

Að tilkynna til barnaverndar

Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita. Allir einstaklingar undir 18 ára teljast börn, einnig ófædd börn.

Tilkynning til barnaverndarnefndar er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi. Best er að tilkynna rafrænt til barnaverndar Hafnarfjarðar  en einnig er hægt að hringja í símavakt barnaverndar í síma 585 5500 frá 13–16 alla virka daga, nema föstudaga til 14.

Í bráðatilfellum á skrifstofutíma er best að hringja í neyðarvakt barnaverndar í síma 585 5500. Utan skrifstofutíma á að hafa samband við 112 í síma eða gegnum netspjall.

Þú þarft að segja til nafns þegar þú tilkynnir en getur alltaf óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnavernd. Börn geta líka haft samband sjálf.

Hvað á að tilkynna?

Það er allt í lagi að tilkynna þótt maður sé ekki alveg viss. Börn eiga alltaf að njóta vafans.

  • Vanræksla.
  • Líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi.
  • Ung börn skilin eftir ein eða í umsjá annarra barna.
  • Eldri börn skilin eftir ein langtímum saman.
  • Slök skólasókn.
  • Endurtekin afbrot.
  • Ofbeldishegðun.
  • Þunglyndi, geðræn vandamál, sjálfsvígshugleiðingar.
  • Læknisaðstoð ekki sinnt þrátt fyrir þörf.
  • Endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra.
  • Óeðlileg útivist og endurtekin brot á útivistarreglum.
  • Vanhæfi foreldra, til dæmis vegna neyslu eða veikinda.
  • Áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga.

Hvað gerist eftir tilkynningu? 

Þegar tilkynning berst tekur starfsfólk barnaverndar afstöðu til þess hvort málið verði kannað frekar. Sú ákvörðun byggir á upplýsingum sem tilkynnandi veitir og fyrri afskiptum barnaverndar. 

Foreldrar eru alltaf látnir vita að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin um aðkomu barnaverndar. Í vissum aðstæðum má tala við barnið án þess að láta foreldra vita fyrst, til dæmis þegar grunur er um ofbeldi af hálfu foreldra. 

Ef barnavernd telur þörf á að kanna málið frekar er aflað upplýsinga um aðstæður fjölskyldunnar frá foreldrum og aðilum úr nærumhverfi. 

Könnun máls getur endað á tvo vegu:

  • Ekki er talin þörf á frekari aðkomu barnaverndar. Þá er málinu lokað með formlegu bréfi til foreldra. 
  • Talin er þörf á frekari aðkomu barnaverndar. Þá er unnin áætlun um meðferð máls í samráði við foreldra. Börn 15 ára og eldri taka þátt í að móta áætlunina.

Til að vernda trúnað þess sem er tilkynntur fær tilkynnandi ekki upplýsingar um næstu skref máls.

Úrræði

Á vef Neyðarlínunnar má finna ýmsar upplýsingar um velferð barna, ofbeldi gegn börnum og fræðsluefni fyrir börn og unglinga.

Ýmis úrræði eru til staðar til að aðstoða þegar vandamál koma upp. Þau má finna bæði á úrræðasíðu 112.is og með úrræðaleitarvélinni Eitt líf.

Allar fyrirspurnir eru velkomnar á netfangið barnavernd@hafnarfjordur.is.