Lausar lóðir

Yfirlit yfir allar lausar lóðir í Hafnarfirði. Þinglýstir eigendur lóða gera lóðarleigusamninga við bæinn. Einnig má sjá allar lausar lóðir á kortavefnum.

Byggingarleyfi

Hesthús

Sækja um

Lausar lóðir á Sörlasvæðinu

Hesthúsalóðir eru lausar á athafnasvæði Hestamannafélagsins Sörla við Fluguskeið og Kaplaskeið. Lóðirnar eru mismunandi að stærð, sú minnsta 452,2 m² og sú stærsta 1.909,3 m² með rými fyrir 8-48 hesta. Byggingarmagn í fermetrum er frá 93,6 – 608 m² og verðið hlutfallslegt í takti við stærð.

Við samþykkt á byggingaráformum bætast við þjónustugjöld byggingarfulltrúa og tengigjöld veitna. Í yfirliti yfir lausar lóðir má finna nánari upplýsingar um stærðir, húsagerðir, fjölda hesta í húsi, byggingarmagn og verð. Á kortavefnum má sjá allar lausar lóðir (færa þarf kortið til svo að hesthúsalóðirnar sjáist).

Að sækja um lóð fyrir hesthús

Umsókn ásamt fylgiskjölum þarf að hafa borist fyrir kl. 16 á mánudegi til þess að tryggja að umsóknin verði tekin fyrir á reglulegum bæjarráðsfundi á fimmtudegi þar á eftir.

Sótt er um á Mínum síðum.

Hugmyndir að hesthúsagerðum

Nýir hesthúsaeigendur geta látið hanna og teikna húsin sín í takt við byggingarmagn í fermetrum á tiltekinni lóð. Sveinn Ívarsson arkitekt hefur teiknað hugmyndir að þremur stærðum af húsum (A, B og C) sem hægt er að byggja á svæðinu (S stendur fyrir steypa og T fyrir timbur). Ef lóðarhafi vill nýta uppdrætti Sveins þá þarf að hafa beint samband við hann.

Mæliblöð

Mæliblöð sýna stærðir lóða, lóðamörk, byggingarreiti húsa, bindandi byggingarlínu, fjölda bílastæða og aðrar kvaðir, ef einhverjar eru.

Hæðarblöð

Hæðarblöð sýna hæðir á lóðamörkum fjær götu (L) og hæðir lóða að gangstétt (G). Hæðartölur (H) eru leiðbeinandi fyrir aðalhæð og skulu frávik koma til umfjöllunar hjá bæjarskipulagi. Á hæðarblöðum er einnig sýnd lega vatns- og frárennslislagna og inntakshliða fyrir veitustofnanir eftir atvikum.

Sörlasvæði með því besta í bænum

Hestamannafélagið Sörli var stofnað 7. febrúar 1944. Reiðvegasvæði Sörla er með því besta og fallegasta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þar má meðal annars finna:

  • Upplýsta reiðleið milli Hlíðarþúfna og Sörlaskeiðs.
  • Tvo reiðhringi um Gráhelluhraun.
  • Reiðleið um Smyrlabúðarhraun sem tengir Sörlasvæðið við reiðleiðir í Heiðmörk.
  • Reiðveg meðfram Flóttamannaleið sem tengir inn á reiðvegakerfi annarra hestamannafélaga.

Við reiðleiðirnar hefur Sörli sett upp áningarstaði þar sem hestafólk getur bundið hesta sína á meðan áð er. Landssamband Hestamanna hefur útbúið rafrænt kort með fjölmörgum reiðleiðum. Félagsaðstaða og reiðhöll Sörla er við Sörlaskeið 13a og ber hestamannafélagið ábyrgð á svæðinu.