Álfa- og víkingabær

Álfabærinn

Að margra mati leynist ýmislegt í Hafnarfjarðarhrauni sem ekki er öllum gefið að sjá. Alla tíð hafa menn trúað því að huldufólk og dvergar ættu sér bólstaði í klettum og hraunhólum. Þessar hulduverur hafa löngum lifað í sátt og samlyndi við mennska íbúa staðarins og eru til margar munnmælasögur af því. Margir hafa talið sig verða vara við hvítklæddu konuna með silfurbeltið sem sögð er búa í Hamrinum, höll álfanna.

Eftirfarandi frásögn er byggð á reynslu konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Hvítklædd kona leiddi hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur rennir stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.

Mörg dæmi finnast um það á Íslandi að vegastæðum hafi verið breytt vegna óhappa sem rakin hafa verið til álfa eða huldufólks. Þar má nefna við Merkurgötu í Hafnarfirði þar sem akvegurinn þrengist mjög við álfaklett sem skagar út í götuna.

Álfahringurinn

Silja Gunnarsdóttir hefur útbúið skemmtilega gönguleið um álfaslóðir sem má kynna sér nána hér.

Huliðsheimakort

Til er huliðsheimakort þar sem byggðir huliðsvætta í Hafnarfirði hafa verið skráðar eftir leiðsögn Erlu Stefánsdóttur sjáanda. Þar segir: „Hafnarfjörður er bær manna og hulduvera. Um leið og hægt er að skynja álfaverur í hverjum húsagarði er hraunið sérlega lifandi, með dvergum, jarðdvergum og allskyns álfaverum.” Huliðsheimakortið fæst í Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar.

 

Víkingabærinn

Í júní á hverju ári stendur Víkingafélagið Rimmugýgur fyrir Víkingahátíð á Víðistaðatúni. Á hátíðinni fara fram bardagasýningar, leikjasýningar, sögumenn, bogfimi, handverk, markaður, víkingaskóli barna, tónlist og veitingar til sölu. Víkingahátíð hefur verið haldin í Hafnarfirði í næstum þrjá áratugi en fyrsta hátíðin fór fram á Víðistaðatúni árið 1995. 

Það er óhætt að fullyrða að á hátíðinni ríki sannkölluð miðaldastemning, gleði og glaumur.