Álfahringur um Hafnarfjörð

Á þjónustukorti af bænum má nálgast skemmtilega gönguleið um álfaslóðir í Hafnarfirði sem Silja Gunnarsdóttir eigandi alfar.is tók saman.

Leiðin liggur frá Strandstígnum að Hafnarfjarðarkirkju, upp á Hamarinn um Flensborgartröppurnar og þaðan niður Öldugötu og fyrir aftan Menntasetrið við Lækinn. Þaðan er gengið inn Austurgötu í áttina að Hellisgerði og þaðan niður Vesturbraut að Norðurbakka á Strandstíginn aftur.

Hafnarfjarðarhöfn

Við Strandstíginn er gott að setjast á bekk, loka augunum og anda að sér ferskum blæ hafsins. Þegar hugurinn hefur kyrrast, opnaðu augun og líttu eftir Marbendlinum í hafinu.

Hafnarfjarðarhöfn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju

Steinninn sem stendur á milli kirkjunnar og safnaðarhússins var ekki fluttur þegar kirkjan var byggð árið 1914 því enginn vildi hætta á ófrið við hinar huldu verur sem þar bjuggu.

Dvergsteinn

Hamarinn

Á Hamrinum er fagurt útsýni yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Á góðum degi sést til Snæfellsjökuls. Á Hamrinum er ung og kraftmikil orka, enda eru álfabörn þar oft að leik. Í Hamrinum býr einnig hefðarfólk hulduveranna. Að sögn sjáanda eru hýbýli þeirra skreytt með gullmunum og rauðum teppum.

Menntasetrið við Lækinn

Kona kom að orði við verkstjóra sem vann við byggingu skólans árið 1930. Hún bað hann að hætta að brjóta niður bergið við
skólann. Ef þeir yrðu við bón hennar myndu álfarnir sjá til þess börn sem væru að leik í klettum í kring myndu ekki slasast.

Menntasetrið við lækinn

Hellisgerði

Hellisgerði er hrauni prýddur skrúðgarður. Þar er tjörn með gosbrunni, fjölskrúðugt líf og gróður og kjörið umhverfi til fjölskylduskemmtunar. Hellisgerði býr einnig yfir djúpstæðri sögu og þar er stærsta byggð álfa, dverga og huldufólks. Í Hellisgerði er gott að koma, finna sér stað og hugleiða í léttri og jákvæðri orku sem í garðinum er. Hver veit nema skilaboð komi fá hulduverum í gegn um hugleiðsluna.

hellisgerdi

Álfasteinninn á horni Vesturbrautar og Vesturgötu

Í þessum steini býr álfakona og unglingssynir hennar tveir. Þegar húsið var byggt var ekki hróflað við heimili þeirra, því þau vildu ekki flytja.

Í Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar fæst huliðsheimakort þar sem byggðir huliðsvætta í Hafnarfirði hafa verið skráðar eftir leiðsögn Erlu Stefánsdóttur sjáanda. Þar segir: „Hafnarfjörður er bær manna og hulduvera. Um leið og hægt er að skynja álfaverur í hverjum húsagarði er hraunið sérlega lifandi, með dvergum, jarðdvergum og allskyns álfaverum“. Tilvalið er að verða sér úti um huliðsheimakort og fara í leit að álfum og huldufólki.

Álfasteinn

Ábendingagátt