Vinnuskólinn

Vinnuskóli Hafnarfjarðar býður unglingum bæjarins upp á skemmtilega og fræðandi sumarvinnu.

Vinnuskólinn - upplýsingar

Umsókn

Allir unglingar, 14–17 ára, sem búa í Hafnarfirði geta fengið vinnu á sumrin hjá Vinnuskólanum. Þar er boðið upp á uppbyggileg störf og fræðslu í öruggu umhverfi. Starfsfólk fær skemmtilega innsýn í atvinnulífið auk þess að fá að undirbúning fyrir almenna vinnumarkaðinn.

Skrifstofa Vinnuskóla Hafnarfjarðar er staðsett  á Strandgötu 41. Frá 2. maí er skrifstofan opin frá kl. 8–16 mánudaga til fimmtudaga og kl. 8–14 á föstudögum. Einnig er hægt að ná í starfsfólk skrifstofunnar í síma 565-1899 og á netfangið vinnuskoli@hafnarfjordur.is.

Byrjað verður að taka á móti umsóknum um miðjan mars.

Helstu verkefni

  • Götu og hverfahreinsun.
  • Gróðursetning sumarblóma.
  • Beðahreinsun.
  • Sláttur og rakstur.
  • Tyrfing.

Með vinnu sinni fegrar og bætir starfsfólk Vinnuskólans umhverfið um leið og það þjálfast í vinnubrögðum sem skila sér út í samfélagið til framtíðar. Oftast er þetta fyrstu kynni unglinga af launuðu starfi og mikilvægt að vel takist til því lengi býr að fyrstu gerð.

Það er reynt eftir bestu getu að hafa fjölbreytni í verkefnum og ýta undir starfsánægju. Hópunum er dreift í ýmis verkefni innan bæjarins en reynt er að hafa hópa ekki mjög langt frá heimilum sínum. Flokkstjóri er alltaf með sínum hóp og er hlutverk hans meðal annars að kenna unglingum rétt handtök við þau verk sem unnin eru hverju sinni.

Vinnuskóli Hafnarfjarðar starfar undir stefnu skóla án aðgreiningar þar sem reynt er að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Unglingar innan Vinnuskólans geta farið í sérverkefni, til dæmis að aðstoða á íþrótta- og leikjanámskeiðum eða stofnunum innan bæjarins.

Starfsfólk Vinnuskólans á rétt á bæði matar- og kaffitímum. Þar sem starfsfólk hefur ekki neina sérstaka aðstöðu á vinnusvæðum sínum er eðlilegt að þau sjáist sitja og hvíla sig öðru hvoru. Til að tryggja sem árangursríkast vinnuuppeldi er mikilvægt að samskipti og samtöl við flokkstjóra séu á vingjarnlegum nótum án þess að það bitni á vinnuframlaginu.

Vinnuskóli Hafnarfjarðar er með öllu tóbaks-, veip- og vímuefnalaus vinnustaður.

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Haldnar verða kynningar fyrir allt starfsfólk um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Þannig verða nemendur fróðari um vinnumarkaðinn eftir störf sín hjá Vinnuskólanum.

Jafningjafræðsla

Á hverju sumri heimsækja jafningjafræðarar hvern hóp 14, 15 og 16 ára unglinga. Umræðuefnið er umhverfisfræðsla sem er stór þáttur í starfi Vinnuskólans. Vinnuskólinn er einn af fáum vinnuskólum landsins sem er þátttakandi í verkefninu Skóli á grænni grein þar sem unnið er markvisst í þágu umhverfis.

Börn með ofnæmi

Á hverju ári koma unglingar með alls kyns ofnæmi í Vinnuskólann. Vinnuregla Vinnuskólans er að þeir unglingar þurfa að koma með læknisvottorð. Þá verður fundið verkefni sem hentar viðkomandi einstaklingi með tilliti til ofnæmis.