Valdimar Víðisson

Valdimar Víðisson er bæjarstjóri í Hafnarfirði en hann er oddviti Framsóknar. Valdimar var kjörinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí 2022 og hefur síðan þá verið formaður bæjarráðs. Bæjarstjóraskiptin eru í samræmi við samkomulag Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2022 um að oddviti Sjálfstæðisflokks myndi sitja í stóli bæjarstjóra til 1. janúar 2025 þegar oddviti Framsóknar myndi taka við. 

Valdimar er vel kunnur bæjarmálum í Hafnarfirði. Hann sat sem varabæjarfulltrúi Framsóknar í Hafnarfirði kjörtímabilið 2018 til 2022 og var formaður fjölskylduráðs á tímabilinu. 

Valdimar er menntaður grunnskólakennari með framhaldsmenntun í stjórnun. Hann var skólastjóri í Grenivíkurskóla í fjögur ár frá árinu 2004. Árið 2008 flutti Valdimar til Hafnarfjarðar, hóf störf sem aðstoðarskólastjóri í Öldutúnsskóla og tók við sem skólastjóri í sama skóla árið 2013.  

Valdimar er fæddur 10. september 1978, giftur Sigurborgu Geirdal grunnskólakennara og á einn son Víði Jökul, tvær stjúpdætur þær Lilju Rut og Elísu Rún og tvö barnabörn. Valdimar fæddist á Ísafirði og ólst upp í Bolungarvík til 16 ára aldurs. Þá lá leið Valdimars norður til Akureyrar þar sem hann kláraði bæði menntaskóla og háskóla.  

Bæjarstjórar í tímaröð frá 1946

Tímabil Nafn
2025–núverandi Valdimar Víðisson
2018–2024 Rósa Guðbjartsdóttir
2014–2018 Haraldur L. Haraldsson
2012–2014 Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
2010–2012 Guðmundur Rúnar Árnason
2002–2010 Lúðvík Geirsson
1998–2002 Magnús Gunnarsson
1995–1998 Ingvar Viktorsson
1986–1993 Guðmundur Árni Stefánsson
1979–1986 Einar Ingi Halldórsson
1966–1979 Kristinn Ó. Guðmundsson
1962–1966 Hafsteinn Baldvinsson
1954–1962 Stefán Gunnlaugsson
1949–1954 Helgi Hannesson
1948–1948 Guðmundur Gissurarson (sat í tvo mánuði)
1946–1948 Eiríkur Pálsson