107 ára kaupstaðarafmæli

Fréttir

Hafnarfjarðarbær fagnar 107 ára kaupstaðarafmæli í dag.  “ Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. Sama dag var fyrsti kjörfundurinn haldinn í Góðtemplarahúsinu við Suðurgötu.

Hafnarfjarðarbær fagnar 107 ára kaupstaðarafmæli í dag.

“ Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. Sama dag var fyrsti kjörfundurinn haldinn í Góðtemplarahúsinu við Suðurgötu. Fundurinn hófst á hádegi og lauk þremur klukkutímum síðar. 25 manns komu á kjörstað, en talið er að um 400 manns hafi verið á kjörskrá. Í Kvásum, nýstofnuðu bæjarblaði, segir að bæjarbúar hafi yfirleitt verið ánægðir með kosninguna, einn listi hafi verið i boði, „góðir menn og framtakssamir“.

Eitt af fyrstu verkefnum bæjarstjórnarinnar var að koma upp safnþróm enda full þörf á. Neysluvatnið var mengað og upp kom taugaveiki, hafði nýráðinn héraðslæknir því nóg að starfa. Hjálpræðisherinn setti svip á bæinn og það gerðu líka tveir lögreglumenn sem ráðnir voru til löggæslu. Báðir voru þeir heljarmenni að burðum og vöktu lögreglubúningar þeirra mikla athygli bæjarbúa.

109 börn voru í barnaskólanum og ungmenni æfðu glímu af kappi með Ungmennafélaginu 17. júní. Bæjarbúar höfðu lifibrauð sitt af sjávarútvegi og fyrsti togari Hafnfirðinga, Coot, strandaði við Keilisnes.“

Til hamingju með daginn.

Texti úr bókinni HUNDRAÐ sem gefin var út á 100 ára kaupstaðarafmælinu.

Ábendingagátt