110 börn og ungmenni láta ljós sitt skína á ungmennaþingi

Fréttir

Rúmlega 110 fulltrúar barna og ungmenna í 8.-10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar komu saman á Ungmennaþingi Hafnarfjarðar í vikunni. Ungmennaþingið var hugsað og skipulagt sem opinn og hvetjandi vettvangur og einstakt tækifæri fyrir hafnfirsk börn og ungmenni til að koma skoðunum sínum og sjónarmiðum á framfæri.

Ungmennaþing 2022

Opinn og hvetjandi vettvangur til hugarflugs og skoðanaskipta

Rúmlega 110 fulltrúar barna og ungmenna í 8.-10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar komu saman á Ungmennaþingi Hafnarfjarðar sem haldið var í Sjónarhóli í vikunni. Ungmennaþingið var hugsað og skipulagt sem opinn og hvetjandi vettvangur og einstakt tækifæri fyrir hafnfirsk börn og ungmenni til að koma skoðunum sínum og sjónarmiðum er varða heimabæinn Hafnarfjörð og þjónustu sveitarfélagsins á framfæri. Ungmennaþingið er liður í þeirri vegferð sveitarfélagsins að hljóta viðurkenningu UNICEF á Íslandi sem barnvænt sveitarfélag.

Yngri íbúar fá sterkari rödd og tækifæri til þátttöku

Á þinginu var kallað eftir umræðu og skoðunum á ýmsum málum er varða hag barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Hópurinn var m.a. spurður að því hvort öll fái jöfn tækifæri í skólanum, íþróttum og tómstundum, hvað þau langi til að læra í skólanum og hvort þau fái rými til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þá voru börnin spurð hvað þeim finnst um umhverfið í Hafnarfirði, félagsmál, menningu, geðheilbrigði, forvarnir og samgöngumál. Fulltrúar unnu vel og nú tekur við vinna við að greina niðurstöður þingsins sem kynntar verða betur síðar. Hafnarfjarðarbær vinnur að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins, undir formerkjum verkefnisins Barnvæn sveitarfélög og er ungmennaþing liður í innleiðinunni. Ákvörðun sveitarfélagsins um að innleiða barnasáttmálann felur í sér viðurkenningu á að þekking og reynsla barna og ungmenna sé verðmæt fyrir sveitarfélagið. Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta, aðlaga og auka þjónustu sína

Um 110 börn og ungmenni létu ljós sitt skína á Ungmennaþingi Hafnarfjarðar í vikunni

Um 110 börn og ungmenni létu ljós sitt skína á Ungmennaþingi Hafnarfjarðar í vikunni

20. nóvember er dagur mannréttinda barna

20. nóvember er dagur mannréttinda barna og afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 33 ár eru síðan Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Barnasáttmálinn hefur leitt til víðtækra breytinga á viðhorfum til barna og áhrifa hans gætir víða. Þar ber helst að nefna meginreglu sáttmálans um rétt barna til þátttöku og áhrifa og þá kröfu sáttmálans að grundvalla eigi ákvarðanir og ráðstafanir sem varða börn á því sem þeim er fyrir bestu, að til þeirra sé leitað og tekið tillit til sjónarmiða þeirra. Hafnarfjarðarbær vekur athygli á degi mannréttinda barna með hugmyndasöfnun og ungmennaþing í aðdraganda dagsins. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmálinn eru grundvöllur þvert á starfsemi Hafnarfjarðarbæjar og leiðarljós í framtíðarsýn og heildarstefnu Hafnarfjarðar til ársins 2035.

Til hamingju með daginn í gær börn og ungmenni!

Ábendingagátt