14 mánaða börn komin með leikskólapláss í Hafnarfirði
Öllum fjórtán mánaða börnum, sem sóttu um fyrir tilskilinn frest hefur verið tryggt pláss í leikskólum Hafnarfjarðar frá hausti. Hafnarfjarðarbær hefur hingað til miðað við 15 mánaða aldur en tekst nú að bjóða enn yngri börnum pláss fyrir haustið.
Staða leikskólamála góð í Hafnarfirði
„Staðan er með allra besta móti. Það er afar ánægjulegt að sjá hversu jákvæð þróun leikskólamála hefur verið síðustu misseri hér í Hafnarfirði,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri.
Fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar fagnar því hversu vel hefur gengið að manna leikskóla Hafnarfjarðar. Alls hefur 431 barn fengið boð um leikskólapláss. „Þær breytingar sem gerðar hafa verið á leikskólastarfi í Hafnarfirði eru farnar að skila árangri og stuðla að betri þjónustu við fjölskyldur bæjarins,“ segir í bókun ráðsins sem fundaði á miðvikudag, 2. apríl.

Bæjarstjóri hefur heimsótt um 70 stafsstöðvar bæjarins frá því að hann tók við taumunum á áramótum. Hér er hann á leikskólanum að Hamravöllum fyrr á árinu.
Hafnarfjarðarbær hefur markvisst unnið að því að fjölga fagmenntum í leikskólum bæjarins. Nú stunda til að mynda 40 leikskólakennaranám með starfi í Hafnarfirði og fá námsstyrki til þess. Uppbyggingu leikskóladagsins hefur einnig verið breytt til að auka sveigjanleika í starfi. Fjölskyldum hefur einnig boðist sveigjanlegri vistunartími til að lækka leikskólagjöldin. Aðgerðirnar hafa margvíslegar.
„Við fögnum árangrinum og stefnum að því að halda áfram á þessari sömu braut. Markvisst hefur verið unnið að breyta skipulagi leikskóladagsins í samstarfi við starfsfólk. Einnig hafa foreldrar nú meira ráðrúm til þess að stýra vistunartíma sinna barna. Allt liðir í því að efla leikskólastarfið hér í Hafnarfirði,“ segir bæjarstjóri.
Nýr leikskóli verður opnaður í dag, Áshamar. Hann mun þjóna 120 börnum. Rekstrarleyfi skólans var samþykkt á fundi fræðsluráðs í gær.
Gera má ráð fyrir að allri innritun í leikskóla Hafnarfjarðar verði lokið um næstu mánaðarmót. Í lok apríl maí verða umsóknir sem bárust eftir frest fyrir haustpláss, þann 11. mars, teknar fyrir.