14 verkefni hlutu menningarstyrk

Fréttir

Styrkir til verkefna og viðburða voru afhentir við hátíðlega athöfn í Bæjarbíó á síðasta vetrardag og hlutu 14 verkefni styrk að þessu sinni.

Aðilar og verkefni sem auðga og dýpka enn frekar listalíf Hafnarfjarðarbæjar 

Styrkir menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar til verkefna og viðburða voru afhentir við hátíðlega athöfn í Bæjarbíó á síðasta vetrardag samhliða útnefningu bæjarlistamanns og hlutu 14 verkefni styrk að þessu sinni. Þá eru í gildi samstarfssamningar vegna Hjarta Hafnarfjarðar, Sönghátíðar í Hafnarborg, Víkingahátíðar á Víðistaðatúni, HEIMA hátíðarinnar og vegna tónleikahalds Lúðrasveitar Hafnarfjarðar.

Menningarstyrkir eru afhentir tvisvar sinnum á ári til aðila og verkefna sem líkleg eru til að auðga og dýpka enn frekar listalíf bæjarins. Úthlutun styrkja Hafnarfjarðarbæjar byggir á mati á umsóknum. Menningarviðburðir, listamenn, félagasamtök eða stofnanir sem sækja um styrk verða að tengjast Hafnarfirði með einhverjum hætti. Hér telur t.a.m. föst búseta, að viðburður/verkefni fari fram í Hafnarfirði og/eða að verkefni feli í sér kynningu á menningarstarfsemi Hafnarfjarðar.

Heildarupphæð styrkja í þessari úthlutun er 2,9 milljónir. Samtals verður úthlutað 11 milljónum í formi menningarstyrkja á árinu 2021.

Styrkþegar í fyrri úthlutun menningarstyrkja 2021

Málsaðili Veittur styrkur Heiti verkefnis/Heiti verkefnis
Andrés Þór Gunnlaugsson 250.000 kr Síðdegistónar í Hafnarborg veturinn 2021- 2022
Anna María Cornette 400.000 kr Valdefling kvenna í fjölmenningarsamfélagi í gegnum listferðalag milli byggðarlaga (Hafnarfjarðarhluti) í samstarfi við Bókasafns Hafnarfjarðar
Brynhildur Auðbjargardóttir 250.000 kr Til hamingju með afmælið Kór Öldutúnsskóla! Barnarómur í 55 ár
Fimleikafélagið Björk rekstur 200.000 kr 70 ára afmæli félagsins- Sögusýning og viðburðir
Guðmundur R Lúðvíksson 400.000 kr Óskastund í Hafnarfirði
Hringleikur – sirkuslistafélag 180.000 kr Sumarsirkus Hringleiks 2021
Inga Björk Ingadóttir 205.000 kr Straumur – Inga Björk & hljómsveit
Leikfélag Hafnarfjarðar 150.000 kr Leikarinn sem skapandi listamaður
Ungmennahúsið Hamarinn 180.000 kr Það er bjart framundan
Ragnar Már Jónsson 200.000 kr Bossa Nova Tríó Ragga Jóns – tónleikar
Rebekka Sif Stefánsdóttir 160.000 kr Ljúfir tónar vítt um bæinn
Selma Hafsteinsdóttir 100.000 kr Tónafljóð í Hellisgerði
Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir 150.000 kr Dúettinn Lygna sækir íbúa Sólvangs og Hrafnistu heim
Soffía Sæmundsdóttir 75.000 kr Vorsýning @ Soffía vinnustofa & gallerí

Afhending menningarstyrkjanna fór fram með óhefðbundnum hætti enda nauðsynlegt að gæta að sóttvörnum í hvívetna. Styrkhafar fengu viðurkenningarskjal, rós og persónulegar veitingar afhent í sætið við komuna í Bæjarbíó og að athöfn lokinni var tekin hópmynd yfir hálftóman salinn enda aðeins örfáir boðsgestir.

Auglýst verður eftir umsóknum fyrir síðari úthlutun ársins 2021 í ágúst.

Hafnarfjarðarbær óskar styrkhöfum öllum innilega til hamingju!

Ábendingagátt