Gleðilega þjóðhátíð í Hafnarfirði

Fréttir

Að vanda verður fjölbreytt dagskrá í boði í Hafnarfirði á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þjóðhátíðarveisla sem teygir anga sína víða um bæinn. Skipulögð dagskrá verður á Thorsplani, við Hafnarborg og Byggðasafn Hafnarfjarðar frá kl. 13:30 – 17:00

Boðið verður upp á
sannkallaða þjóðhátíðarveislu á 17. júní í Hafnarfirði. Skipulögð dagskrá
verður í miðbæ Hafnarfjarðar,  á
Thorsplani, við Hafnarborg og Byggðasafn Hafnarfjarðar.  Á Strandgötunni verða sölubásar, leiktæki,
skotbakkar, borðtennis, bogfimi, tónlist,  þrautabraut og risa loftboltar og ættu allir
fjölskyldumeðlimir að geta fundið eitthvað áhugavert við sitt hæfi.

Dagurinn hefst kl. 8 með því að skátafélagið Hraunbúar draga
fána að húni og flagga víðs vegar um bæinn. Þjóðbúningasamkoma verður í
safnaðarheimili Víðistaðakirkju kl. 11 þar sem Annríki – Þjóðbúningar og skart
veitir aðstoð við að klæðast þjóðbúningum og eru Hafnfirðingar og aðrir
áhugasamir hvattir til að taka fram þjóðbúninga allra landa og bera yfir daginn
m.a. í skrúðgöngu frá skátaheimilinu Hraunbyrgi kl. 13. Hátíðarhöld í miðbæ
Hafnarfjarðar hefjast kl. 13:30 og standa yfir til kl. 17. Fjallkonan í ár er
Eva Ágústa Aradóttir og hefjast hátíðarhöldin með ávarpi hennar. Meðal dagskráratriða
eru Karlakórinn Þrestir, Skoppa og Skrítla, víkingabardagi – Rimmugýgur, Emmsjé
Gauti, línudans eldri borgara og önnur dansatriði.

Siglingar – bátar og
kajakar – á Hamarkotslæk

Siglingaklúbburinn Þytur verður með báta og kajaka á Læknum
auk þess sem teymt verður undir börnum á hestum frá Hestamannafélaginu Sörla. Hin
stórskemmtilega Austurgötuhátíð verður á sínum stað þetta árið og er nú haldin
í sjötta sinn. Eins og fyrri ár verður margt skemmtilegt og spennandi í boði.
Meðal viðburða verður heimilislegt kaffihús með heitu súkkulaði og vöfflum,
tælenskur veitingastaður, handverk, skart, bækur og nokkrir flóamarkaðir.
Einnig verður lifandi tónlist í götunni yfir daginn. Guðrún Gunnarsdóttir
heimsækir sjúkrastofnanir ásamt Gunnari Gunnarssyni píanóleikara og heldur
tónleika. Opið verður fyrir alla í Hjólabrettahöllinni á Flatahrauni hjá
Brettafélaginu frá kl. 12 – 18.

Sýningar í söfnum
Hafnarfjarðar

Í Hafnarborg standa yfir þrjár sýningar; sýning Einars Fals
Ingólfssonar „Landsýn – Í fótspor Johannesar Larsen“, sýning á verkum Söru
Gunnarsdóttur og Unu Lorenzen og nefnist hún „Dáið er allt án drauma“ og
Annríki – Þjóðbúningar og skart mun ásamt Faldafreyjum sýna íslenska búninga. Aðgangur
er ókeypis í Hafnarborg og opið frá kl. 12-17. Byggðasafn Hafnarfjarðar er lifandi
og fróðlegt safn fyrir alla fjölskylduna. Ókeypis aðgangur að öllum söfnum og
opið frá kl. 11-17 á sex sýningarstöðum: Pakkhúsinu, Sívertsens-húsinu,
Beggubúð, Siggubæ, Bungalowinu og Gúttó auk ljósmyndasýningar á Strandstígnum.

Samgöngur og
umferðarlokanir

Miðbærinn verður lokaður fyrir bílaumferð á meðan
hátíðarhöldum stendur.  Gestir og
gangandi eru hvattir til að ganga í miðbæ Hafnarfjarðar, taka strætó eða leggja
löglega nærri miðbænum. Bent er á fjölmörg bílastæði við Lækjarskóla,
Iðnskólann, Flensborg, Íþróttahúsið Strandgötu eða Víðistaðaskóla. Bílastæði fatlaðra
eru við Linnetstíg 1.

Sjá dagskrá 17.júní HÉR

Dagskrá á PDF formi til útprentunar

Ábendingagátt