Þema í Ratleik Hafnarfjarðar í ár er þjóðleiðir, götur og stígar

Fréttir

Ratleikur Hafnarfjarðar nýtur sívaxandi vinsælda enda frábær leikur sem dregur fólk vítt og breitt um bæjarlandið, og jafnvel víðar, þar sem ýmsar perlur er að finna, merki um mannvist fyrri alda og náttúruvætti. Í ár eru það gamlar þjóðleiðir, götur og stígar sem er þema leiksins en víða um bæjarlandið má finna ummerki um ferðir íbúa fyrri alda sem hafa markað spor í jarðveginn á leið sinni t.d. til næstu verbúðar eða í sel.

27 ratleiksmerki er að finna vítt um bæjarlandið sem þátttakendur hafa allt sumarið til að finna

Ratleikur Hafnarfjarðar nýtur sívaxandi vinsælda enda frábær leikur sem dregur fólk vítt og breitt um bæjarlandið, og jafnvel víðar, þar sem ýmsar perlur er að finna, merki um mannvist fyrri alda og náttúruvætti. Í ár eru það gamlar þjóðleiðir, götur og stígar sem er þema leiksins en víða um bæjarlandið má finna ummerki um ferðir íbúa fyrri alda sem hafa markað spor í jarðveginn á leið sinni t.d. til næstu verbúðar eða í sel.

Allar upplýsingar um leikinn má finna á ratleikur.fjardarfrettir.is og á Facebook síðunni Ratleikur Hafnarfjarðar

Mæðgurnar Bára og Sóley Harpa fengu fyrstu kort sumarsins 2022 

Ratleikurinn hófst föstudaginn 3. júní er mæðgurnar Bára Hálfdánardóttir og Sóley Harpa Aronsdóttir fengu afhent fyrstu kortin en Sóley er aðeins 2ja ára og tók fyrst þátt í leiknum í móður­kviði. Bára hefur tekið þátt í leiknum í um sjö ár og er í góðum hópi sem kallar sig Gönguhópurinn hvatvísi sem hún segir oft fara af stað í meiri bjartsýni en fyrirhyggju. Sóley hefur tvö síðustu ár farið með í leikinn og notið útivistarinn­ar.

Skemmtilegur leikur fyrir alla 

Leikurinn hentar því sem næst öllum og fólk hefur val um að leita að hluta af merkjunum eða þeim öllum 27 og keppa um það að verða Þrautakóngur ársins. Finni fólk 18 merki og skilar inn lausnum getur það átt möguleika á að verða útnefnt Göngugarpur ársins og þeir sem finna 9 merki geta hlotið nafnbótina Léttfeti ársins. Veitt eru vegleg verðlaun sem fyrir­tæki hafa af rausnarskap gefið og einnig útdráttarverðlaun sem þeir eiga möguleika á að fá sem mæta á upp­skeru­hátíðina í haust en leikurinn stendur til 26. september nk.

Frítt útivistarkort

Gefið er út vandað útivistarkort sem fæst án endurgjalds á ýmsum stöðum í bænum, m.a. á sundstöðum, í Bóka­safninu, í Fjarðarkaupum og víðar. Það er Hönnunarhúsið ehf. sem gefur út leikinn í samstarfi við Hafnar­fjarðar­bæ en aðalstyrktaraðili leiksins í ár er Rio Tinto á Íslandi. Guðni Gíslason lagði leikinn í 15. sinn en Ómar Smári Ármannsson hefur veitt ómetanlega aðstoð en hann heldur úti fróðleiks­síðunni ferlir.is þar sem finna má ógrynni af fróðleik um Reykjanesið.

Hvað segja þátttakendurnir?

Þátttakendur eru á öllum aldri en leikurinn er vinsæll fjölskylduleikur. Deilir fólk gjarnan myndum og frásögnum á samfélagsmiðla og hér má sjá nokkur dæmi:

„Tröll og forynjur trufla mig við leitina að merki nr. 8, búin að gera tvær tilraunir. Blóm og náttúrufegurð trufla líka einbeitinguna,!“

„Þetta er einn besti vorboðinn, mikið hlakka ég til.“

„Nú skil ég umferðarteppuna við Fjarðarkaup.“ (þegar fyrstu kortunum var dreift)

„Þá eru fyrstu merkin komin í hús þetta árið. Gleðin við að finna ratleiksmerki er alltaf jafnmikil!“

„Eiginmaðurinn kallar þetta ratleikssamfélag „sértrúarsöfnuð“, hvað ekki er fjarri lagi!! Hann kom þó með mér á átta ratleiksstöðvar og vildi þannig til að við vorum akkúrat að leita við Víðistaðakirkju á brúðkaupsafmælisdaginn 19. júní, sléttum 28 árum eftir að við giftum okkur þar. Hvað leggur maður ekki á sig fyrir konu sína?“

Ábendingagátt