30 leikskólastarfsmenn á námsstyrk

Fréttir

Frá árinu 2015 hefur starfsfólk í leikskólum bæjarins fengið námsstyrki frá Hafnarfjarðarbæ til þess að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Framkvæmdin og framtakið hefur það mikilvæga markmið að auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólum sveitarfélagsins og þar með í hópi leikskólakennara. Þrjátíu starfsmenn þiggja námsstyrk skólaárið 2020-2021.   

Frá árinu 2015 hefur starfsfólk í leikskólum bæjarins fengið námsstyrki frá Hafnarfjarðarbæ til þess að stunda nám í leikskólakennarafræðum. Framkvæmdin og framtakið hefur það mikilvæga markmið að auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólum sveitarfélagsins og þar með í hópi leikskólakennara. Því er mikil áhersla lögð á það hjá sveitarfélaginu að styðja vel við nýliðun og nám í faginu. Þannig eru tækifæri og möguleikar opnir ófaglærðu starfsfólki leikskólanna, bæði þeim sem starfað hafa hjá sveitarfélaginu til fjölda ára og nýliðum. 

  • Ýmsar leiðir færar fyrir þá sem vilja verða leikskólakennarar
  • Starf í leikskóla er fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi
  • Leikskólakennaranám er gott, hagnýtt og umfram allt gefandi nám
  • Það besta við starfið er fjölbreytni í verkefnum, dögum og barnahópum
  • Frábært að vinna við það að horfa á litla einstaklinga öðlast ýmsa færni

GuggaStephen

Í Skarðshlíðarleikskóla eru allir að læra, líka starfsfólkið. Þrír starfsmenn leikskólans eru að læra leikskólakennarafræði í vetur. Gugga og Stephen eru í hópi þeirra 30 sem fá námsstyrk frá Hafnarfjarðarbæ. 

Fengur fyrir alla að fjölga í hópi fagmenntaðra

Sérstakir námsstyrkir eru veittir árlega og eru þeir í formi launaðs námsleyfis þannig að nemendur geti stundað nám með vinnu í leikskóla en einnig vegna greiðslu á skráningargjöldum og bókakostnaði. Styrkirnir eru veittir í mislangan tíma og fer það eftir þeirri námsleið sem valin er. Þeir sem stunda nám til M.Ed gráðu í leikskólakennarafræðum fá styrki til tveggja ára en þeir sem eru að fara í fullt M.Ed nám fá styrki til fimm ára. Einnig eru veittir styrkir til þeirra sem stunda nám við leikskólabrú Borgarholtsskóla. Alls eru núna á styrk hjá Hafnarfjarðarbæ þrjátíu starfsmenn á mismunandi námsleiðum og skrifaði hópurinn undir námssamning fyrir skólaárið 2020-21 þann 4. september síðastliðinn. Það er mikill fengur fyrir leikskólasamfélagið að fjölga leikskólakennurum í sveitarfélaginu og styrkveitingarnar eru liður í markvissum aðgerðum Hafnarfjarðarbæjar.

Ertu í atvinnuleit?

Á ráðningarvef Hafnarfjarðarbæjar er að finna yfirlit yfir laus störf og þar með talið fjölbreytt störf innan skólasamfélagsins. Laus til umsóknar þessa dagana eru störf leikskólakennara á Hamravöllum, Norðurbergi, Skarðshlíðarleikskóla, Arnarberg og Hlíðarenda og deildarstjórastöður á Bjarkalundi og Álfasteini. 

Ábendingagátt