300 börn á siglinganámskeiðið í sumar

Fréttir

Hátt í 300 börn tóku þátt í sumarnámskeiðum siglingaklúbbsins Þyts. Aldrei hafa fleiri tekið þátt. Öll getum við byrjað siglingastarf á opnum húsum fram í október.

Sigla um Flensborgarhöfn

Hátt í 300 börn tóku þátt í sumarnámskeiðum siglingaklúbbsins Þyts. Aldrei hafa fleiri tekið þátt.

„Spænsku þjálfaranir, Laura og maðurinn hennar Marti, komu í fyrra. Þá vorum við með opið fyrir 13 börn fyrir hádegi og 13 eftir. En í sumar gátum við tvöfaldað fjölda þátttakenda og vorum með 26 fyrir og 26 eftir hádegi,“ segir Helga Veronica Foldar, formaður klúbbsins.

Börnin koma víða að

„Við vorum nánast með fullt í allt í sumar. Það er vinsælt að sigla og ótrúlega gaman. Svo sést siglingaklúbburinn vel hér í höfninni og starfið því þekkt. Foreldrar skutluðu börnunum meðal annars úr Breiðholti,“ segir Helga.

Börn á aldrinum 10-16 ára stunduðu námskeiðin. Það fyrsta var 10. júní. Síðasta var núna í lok júlí. „Við bjóðum öllum 6. bekkingum að koma hálfan dag í maí. Mörg þeirra koma svo á sumarnámskeiðin. Ein stelpa kom í þrjár vikur á námskeið nú í sumar. Já, það er eitthvað um að sömu krakkarnir mæti á námskeiðin. Mikið af þessum krökkum hafa skilað sér á æfingar inn í veturinn,“ segir Helga.

Opið hús tvisvar í viku

Helga segir vetrarstarfið nú taka við. „Við erum með opið hús á fimmtudögum og laugardögum. Svo erum við með æfingar og fullorðinsstarf. Fyrst er að koma og prufa og síðan ákveða hvað ber að gera. Það kostar ekkert. Flestir skrá sig svo og greiða fjölskyldugjald,“ segir hún. Opnu æfingarnar eru á milli klukkan 17-20 á fimmtudögum og frá 10-13 á laugardögum. „Opnu húsin eru þegar í gangi og verða fram í október.“

Helga hefur verið formaður Þyts í hátt í fimm ár. „Ég kem inn í starfið í gegnum dóttur mína. Ég fer mest á gæslubát. Annars fylgi ég öllu barnastarfi og fer á mótin,“ segir hún. Eitt slíkt er einmitt um helgina hjá Ými í Kópavogi.

Mót um helgina

„Já, Optimist-krakkarnir okkar fara á það mót. Sum þeirra hafa siglt í nokkur ár en önnur eru ný. Þetta eru bjartsýnir, kátir krakkar sem finnst gaman að sigla.“

Já, yndislegt eins og þið sjáið á þessum frábæru myndum. Áfram Þytur!

Ábendingagátt