300 hafnfirskar fjölskyldur fá stuðning Mæðrastyrksnefndar

Fréttir

Allt er að smella hjá Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar sem úthlutar á morgun mat og gjöfum til um 300 hafnfirskra einstæðinga og fjölskyldna. Hafnarfjarðarbær styrkir nefndina.

Nefndin stoð í lífi hafnfirskra fjölskyldna

Allt er að smella hjá Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar sem úthlutar á morgun mat og gjöfum til um 300 hafnfirskra einstæðinga og fjölskyldna. Um 300 börn tilheyra fjölskyldunum.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri leit við á Strandgötunni rétt í þessu, þar sem nefndin hefur komið sér fyrir í ár og hnýtir nú alla lausa enda fyrir úthlutunina.

„Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar er ein af þessum stoðum í samfélaginu sem fólk sér kannski ekki alltaf, en skiptir sköpum þegar á reynir. Við í Hafnarfirði erum innilega þakklát fyrir það hlýja og ötula starf sem þar fer fram og sem bæjarstjóri er ég stoltur af því að bærinn standi af festu með þessari mikilvægu starfsemi,“ segir Valdimar en Hafnarfjarðarbær styrkir nefndina bæði fjárhagslega og um húsnæði.

Fjöldi fyrirtækja stendur þétt við bakið á Mæðrastyrksnefndinni, einnig félagasamtaka. Lions-klúbbur Hafnarfjarðar styrkti nefndina um tvær milljónir króna sem er stærsti einstaki fjárstyrkurinn. Lions-klúbburinn Ásbjörn gaf einnig fjölda gjafa í samstarfi við Icewear. Fjölskyldurnar fái inneignarkort í matvöruverslanir Krónunnar og Fjarðarkaupa. Brauð, góðgæti, smjör ostar og gos verða í pökkunum til fjölskyldnanna sem geta einnig valið úr prjónuðum gersemum og öðrum flíkum.

Petrea Ómarsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar, segir aukna ásókn í aðstoð fyrir þessi jól. Það komi ekki á óvart. Leiguverð hafi hækkað, matvara og annað sem snýr að fjölskyldum. Fólk sé mjög þakklát fyrir starf nefndarinnar. Hún finni að fyrirtæki taki nú enn betur við sér en síðustu ár. Þörfin sé mikil.

Valdimar óskar Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar góðs gengis. „Það er alveg ljóst að óeigingjarna starf ykkar í nefndinni kemur mörgum virkilega vel.“

Ábendingagátt