36 íbúðir að Hringhamri Svansvottaðar: Aldrei fleiri vottaðar í einu

Fréttir

Nýbyggingin að Hringhamri 9-19 á Hamranessvæðinu í Hafnarfirði er stærsta íbúðaverkefni sem hlotið hefur Svansvottun á Íslandi. 36 íbúðir voru vottaðar í gærmorgun og hafa aldrei fleiri íbúðir hlotið vottunina í einu.

30% verkefna í Svansvottun í Hafnarfirði

Nýbyggingin að Hringhamri 9-19 á Hamranessvæðinu í Hafnarfirði er stærsta íbúðaverkefni sem hlotið hefur Svansvottun á Íslandi. 36 íbúðir voru vottaðar í gærmorgun og hafa aldrei fleiri íbúðir hlotið vottunina í einu. MótX byggir.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, var viðstaddur afhendinguna. „Það er góð fjárfesting þegar bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ákveða það að veita afslátt af gjöldum,“ sagði hann meðal annars þegar hann óskaði hlutaðeigendum til hamingju með árangurinn. Hann sagði bæjaryfirvöld hafa sýnt framsýni. „Hver er niðurstaðan? jú það eru langflest af verkefnum í Svansvottunarferli hér í Hafnarfirði. Það er gott fyrir þjóðina, gott fyrir bæjarfélagið og verður svo langbest fyrir þá sem búa í þessum húsum,“ sagði ráðherra.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri er afar ánægð að sjá fleiri byggingar í hópi Svansvottaðs húsnæðis hér í Hafnarfirði. „Bæjarfélagið hefur lagt sitt af mörkum til að hvetja til umhverfisvænna bygginga með því að endurgreiða hluta lóðaverðsins. Þessi áfangi er uppskera þeirrar ákvörðunar. Ég óska MótX til hamingju,“ segir hún.

Alls eru 30% af byggingarverkefnum í Svansvottunarferli í Hafnarfirði og alls 45% íbúðarhúsnæðis í vottunarferli, samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar.

Vilja byggja umhverfisvænt

Gunnlaugur Ragnarsson, fjármálastjóri MótX, segir að aðstandendur félagsins hafa við upphaf framkvæmdanna ákveðið að húsið yrði byggt þannig að það stæðist skilyrði Svansvottunar.

„Það var auðveld ákvörðun fyrir MótX að fara þessa leið, félagið var þegar á þeirri braut að byggja sínar byggingar með umhverfisvænum hætti,“ segir hann.

„Verkefnið sem að nú fær Svansleyfi er fyrsti áfangi af þremur í byggingaverkefni fyrirtækisins í Hamranesi sem er í Svansvottunarferli. Í þessum áfanga eru 36 íbúðir sem hljóta vottun og er þetta því stærsta verkefnið hingað til sem hlýtur Svansvottun hér á landi, þegar kemur að íbúðareiningafjölda. Alls verða 164 íbúðir vottaðar þegar öllum áföngum er lokið.“

Töku stór græn skref

Gunnlaugur segir að félagið hafi tekið stóra skrefið í átt til grænna byggingarhátta á árinu 2019 og að allar íbúðir sem að MótX hafi byggt síðan verið byggðar með þá að leiðarljósi. „Sem dæmi má nefna nýjar leiðir í loftræstingu þar sem unnið er með loftræstikerfi fyrir hverja íbúð fyrir sig. Hún tryggir tíð loftskipti og ferskt, ryklaust andrúmsloft ásamt því að lækka hitakostnað og vinna gegn rakamyndun. MótX hefur einnig nýtt blágrænar umhverfislausnir við frágang lóða og umhverfis,“ segir hann.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Því var komið á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar.

 

Ábendingagátt