40 nýjar hleðslustöðvar í Hafnarfirði

Fréttir

Nú má hlaða rafbílinn við allar sundlaugar bæjarins, fjölda grunnskóla og stofnanir. Hafnarfjarðarbær hefur samið við Ísorku til fimm ára um 4o hleðslustöðvar.

Rafhleðsla til framtíðar

Fjörutíu nýjum hleðslustöðvum fyrir rafbíla hefur verið komið upp víða um Hafnarfjörð. Hafnarfjarðarbær samdi við Ísorku til fimm ára eftir útboð um staðsetningarnar sautján.

Hleðslustöðvarnar eru við allar þrjár sundlaugarnar bæjarins, nokkra grunnskóla og stofnanir. Hægt er að hlaða tvo til fjóra bíla samtímis á hverjum stað.

Aukin þjónusta í Hafnarfirði

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir aukna þjónustu skipta Hafnfirðinga máli. „Helsta markmiðið er að auka aðgengi rafbílaeigenda að hleðslu og yfirmarkmiðið að styðja við orkuskiptin. Við viljum gera fleirum kleift að eiga rafbíla og hlaða þá víða um bæinn,“ segir hann.

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ísorku, segir hleðslunet Ísorku teygja sig um land allt. „Við erum með um 4300 stöðvar víðsvegar um landið og yfir 55 þúsund virka notendur. Við erum afar ánægð að geta boðið Hafnfirðingum þessar fjörutíu til viðbótar enda trúum við því að rafmagnið sé framtíðin.“

Stöðvarnar eru í opnar öllum rafbílum. Greitt er samkvæmt gjaldskrá Ísorku. Ísorka er með app sem sýnir allar staðsetningar nákvæmlega og býður upp á þjónustu fyrir notendur allan sólarhringinn.

Við fögnum þessu og njótum orkunnar!

 

Hvar eru hleðslustöðvarnar?

  • Engidalsskóli, Breiðvangi 42
  • Sundhöllin, Herjólfsgötu 10b
  • Bjarkarhús, Haukahrauni 1
  • Álfaskeið – Smyrlahraun, Álfaskeiði 18
  • Arnarhraun 50, búsetukjarni
  • Lækjarskóli, Sólvangsvegi 4
  • Hlíðarberg leikskóli, Hlíðarberg 1
  • Hlíðarendi leikskóli, Úthlíð 1
  • Öldutúnsskóli, Öldutúni 9
  • Öldugata 45 sambýli
  • Suðurbæjarlaug, Hringbraut 77
  • Vesturkot leikskóli, Miklaholt 1
  • Hvaleyrarskóli, Akurholt 1
  • Ásvallalaug, Ásvöllum 2
  • Engjavellir, Engjavöllum 5b
  • Skarðshlíðarskóli, Hádegisskarð 1
  • Áshamar leikskóli, Áshamar 9

Á mynd: Tómas Karl Guðsteinsson, sölu og þjónustustjóri, Valdimar Víðisson bæjarstjóri og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ísorku.

Ábendingagátt