40 þúsund heimsótt bæjarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar

Fréttir

Nú hafa jafnmargir sótt bæjarhátíðina Hjarta Hafnarfjaðrar heim og alla hátíðina í fyrra. Tvær helgar eru eftir. Hátíðin hefur gengið vonum framar.

Hjarta Hafnarfjarðar stækkar

„Veisla – algjör veisla,“ segir Palli Eyjólfsson í Bæjarbíói um fyrstu fjórar helgarnar á bæjarhátíðinni Hjarta Hafnarfjarðar. Það stefnir í algjört metár þetta níunda ár sem hátíðin er haldin. Nú hafa jafnmargir komið og alla hátíðina í fyrra eða 40 þúsund manns. Tvær helgar eftir.

„Þetta hefur gengið vonum framar. Allir sem koma eru komnir til að skemmta sér. Það ríkir mikil gleði í loftinu,“ segir Palli sem sjálfur steig á svið um helgina með Pöpum, hljómsveitinni sem hann stofnaði. „Hún verður bráðum 40 ára.“

Fjöldi fólks og öflug gæsla

Hjarta Hafnarfjarðar hefur þróast og breyst. Öryggisgæslan er öflug. Til að mynda dekkar myndavélakerfi allt svæðið. Þétt er setið í tjaldinu þessa þrjá daga sem hátíðin stendur hverja viku. Andinn góður. En hvað veldur því að hátíðin springur nú út?

„Ég held þetta sé þolinmæðinni að þakka,“ segir Palli og bætir við að svona hátíð gerist heldur aldrei án þess að vera með gott fólk með sér. „Og við erum lánsöm að vera með frábært starfsfólk og samstarfsaðila.“ Þá sé mikilvægt að rýna í hluti.

„Við höfum verið tilbúin að til að þróa hlutina og breyta á leiðinni. Þetta er eins og með allt: Þú finnur leiðina ef þú hefur þolinmæði fyrir henni,“ segir Palli. „Uppskriftin verður þó aldrei tilbúin þótt heildarmyndin sé svo sannarlega komin.“

Fimmta helgi hátíðarinnar verður dagana 24.-26. júlí. Dagskráin er þétt. Emmsjé Gauti, Svala Björgvins og Aron Can koma fram í Bylgjutjaldinum á fimmtudeginum, Hr. Hnetusmjör, Húbba Búbba, Pretty boi og Kristmundur Axel á föstudeginum. Á laugardeginum syngur Guðrún Árný með gestum milli klukkan 17-19. Í Bylgju tjaldinu verða svo Sprite Zero klan, Háski, Jói P X Króli með hljómsveit og Lil Curly og Séra Bjössi.

 

 

Ábendingagátt