443 brunahanar í Hafnarfirði

Fréttir

Bæjarvefsjáin Granni er byggð á upplýsingaslóð sem hefur verið til síðan um aldamótin 2000, en er nú komin í nýjan og notendavænni búning. Ný og betrumbætt bæjarvefsjá er liður í aukinni áherslu á stafræna þjónustu og miðlun fyrir íbúa bæjarins og aðra hagsmunaaðila, í samstarfi við EFLU verkfræðistofu.

Bæjarvefsjáin Granni er byggð á upplýsingaslóð sem hefur
verið til síðan um aldamótin 2000, en er nú komin í nýjan og notendavænni
búning. Ný og betrumbætt bæjarvefsjá er liður í aukinni áherslu á stafræna
þjónustu og miðlun fyrir íbúa bæjarins og aðra hagsmunaaðila, í samstarfi við
EFLU verkfræðistofu. Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti Helgu Stefánsdóttur, forstöðumann á umhverfis- og skipulagssviði og Elsu Guðmundu Jónsdóttur, landfræðing en þær horfa á bæinn með öðrum gleraugum en flestir.

Húsa- og lóðateikningar mest sóttar í grunninn í dag

Árið 2001 var byrjað skanna húsateikningar og safna
upplýsingum sem eru grunnurinn að bæjarvefsjánni í dag. Helga hefur starfað hjá
Hafnarfjarðarbæ lengi sem og Elsa. Þær vilja vekja athygli bæjarbúa og vina
Hafnarfjarðar á hvað Granni hefur upp á að bjóða og hvetja fólk til að prófa
sig áfram. „Húsa- og lóðateikningar eru langmest sóttar í grunninn í dag. Fólk
er forvitið um slík mál. Þessi þjónusta hefur létt heilmikið á starfsfólki
bæjarins sem lengi vel afhenti slík gögn beint,“
segir Elsa. Einnig sé hægt að
nálgast gögn um deiliskipulag hverfa, hverfamörk, skólahverfi og minja- og
verndarsvæði, staðsetningu skóla, stofnana, leikvalla, stíga, sundlauga og
grenndargáma, skipulag vatnsveitu, hita- og fráveitu ásamt lagnaleiðum.

GranniII

Gríðarlegt magn upplýsinga og lifandi gagna í Granna

„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hversu mikið magn
upplýsinga og lifandi gagna er að finna þarna og það með beinni tengingu við
t.d. Skipulagsstofnun og Samgöngustofu. Hægt er að sjá m.a. hvar slys hafa átt
sér stað í bænum og hversu alvarleg,“
segir Helga og Elsa bætir við að notendur
geti valið um loftmynd eða kort, hvað sem hentar betur hverjum og einum.
„Möguleikar í innsetningu á efni og upplýsingum í Granna eru mjög miklir og við
eigum að vera með nýjustu og réttustu upplýsingarnar hverju sinni. T.d. er
nýlega búið að bæta við hvar áningarbekkir eru, ruslatunnur og tjaldstæði,
forgangsröðun í snjómokstri og síðan bætist við m.a. forgangsröðun í garðslætti
með vorinu.“
Helga bendir á til viðbótar að auðvelt sé að nálgast heimasíður
íþróttafélaga, skóla, leikskóla og stofnana í bænum þegar hver og einn staður
sé skoðaður.

Okkar hlutverk að horfa á það sem betur má fara 

„Ég gerði
niðurfallakort í fyrra og sá ekkert nema niðurföll og í haust gerði ég
brunahanakort og sá þá bara brunahana,“
segir Elsa. Blaðamaður spyr þá hvað séu
margir brunahanar í bænum og Elsa svarar um hæl: „443!“ Þær skella báðar upp
úr. Helga bætir við: „Við tökum eftir brotnum köntum, holum, skökkum
ljósastaurum og því sem betur má fara. Það er okkar hlutverk og að vera sífellt
reiðubúin að bæta og laga það sem betur má fara. Skemmtilegasta við vinnu við
Granna er hvað vinnan er lifandi og í raun aldrei búin.“

Bæjarvefsjáin Granni er í sífelldri uppfærslu, endurskoðun
og þróun með það fyrir augum að dýpka þessa upplýsingagátt enn frekar og opna á
enn betri aðgang að mikilvægum og áhugaverðum upplýsingum á einum og sama
staðnum.

Viðtal við Helgu og Elsu birtist í Hafnfirðingi 9. mars 2020.

Ábendingagátt