Hafnarfjarðarbær fyrirmynd Hvolpasveitarbæjar Hlíðarenda

Fréttir

„Mikið er þetta flott,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri þegar hún heimsótti börnin í leikskólanum Hlíðarenda í morgun. Þau hafa síðustu vikur unnið að útskriftarverkefni sínu, farið bæjarferðir, kynnst bænum enn betur og byggt helstu byggingar upp á listilegan hátt í skólanum sínum.

Hafnarfjarðarbær fyrirmynd Hvolpasveitarbæjar Hlíðarenda

Hvað heitir bærinn? Spurði bæjarstjórinn útskriftarárgang leikskólans á Hlíðarenda þegar hún kom og fékk að njóta lokaverkefnis þeirra í húsakynnum leikskólans. „Hvolpasveitabær,“ svöruðu þau glaðlega. Bærinn litríkur, glæsilegur og eftirmyndirnar af helstu bæjarperlunum glæsilega útfærðar.

Hellisgerði endurbyggt í Hvolpasveitarbæ.

Mikil vinna að baki

Um fjórar vinnuvikur tekur að byggja bæinn upp. Fyrr hafa þau farið í vettvangsrannsóknarferðir um bæinn sinn. Þau hafa farið á víða, meðal annars á Þjóðminjasafnið. Eftir skoðanaferðirnar funda þau og ákveða hvaða kennileiti eigi að einkenna bæinn þeirra. Fjaran, Hamarinn og Hellisgerði prýða Hvolpasveitabæ. Líka þekktar byggingar bæjarins, sundlaugar og gatnagerðakerfið fullkomið.

Áralöng hefð

Heimsókn bæjarstjóra er árleg en hver sýning einstök, enda hugsuð og hönnuð af útskriftarhópnum hverju sinni. Til rúmlega 20 ára hefur verið haldið í þessa hefð. Börnin koma öll með tillögur að nafni á bæinn sinn og Hvolpasveitabærinn hafði vinninginn að þessu sinni. Já, það var sko gaman í morgun, börnin mjög áhugasöm að sýna bæjarstjóra verkið. Það er alveg ljóst að þarna eru framtíðar-verkfræðingar, byggingarstjórar, listamenn, verkefnastjórar og hönnuðir á ferð.

Innilega til hamingju með Hvolpasveitabæinn ykkar. Hann er yndislegur.

 

Ábendingagátt