Öll 15 mánaða börn með leikskólapláss í haust

Fréttir

Öll börn fædd í maí 2023 og fyrr hafa fengið boð um leikskólapláss í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar í haust. Vel hefur gengið að manna leikskóla Hafnarfjarðarbæjar og staðan er góð. Hafnarfjarðarbær innleiðir í haust breytingar á leikskóladegi barna fjölskyldum og starfsfólki til heilla.

Vel mannaðir leikskólar í Hafnarfirði

Öll börn fædd í maí 2023 og fyrr hafa fengið boð um leikskólapláss í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar nú í haust. Börn á innritunaraldri sem flytja til Hafnarfjarðar í haust eða vetur fá einnig boð eins og pláss leyfa hverju sinni. Vel hefur gengið að manna leikskóla Hafnarfjarðarbæjar og staðan er góð. Öll börn 15 mánaða og eldri hafa því fengið boð um leikskólapláss á nýjum skólavetri.

Breyttur leikskóladagur

Hafnarfjarðarbær innleiðir í haust breytingar á leikskóladegi barna. Það gefur færi á styttri viðveru barnanna en um leið sömu umönnun og kennslu. Foreldrar geta lækkað leikskólagjöldin um allt að 30%. Enn sem fyrr geta þó foreldrar fengið pláss fyrir börnin sín fullan leikskóladag þurfi þeir þess. Breytingarnar taka gildi 1. september í öllum leikskólum Hafnarfjarðarbæjar. Leikskóladagurinn verði skilgreindur í tíma innan hvers dags og innan skólaársins og verður leikskóladagatal að meðaltali 180 dagar á ári líkt og grunnskóladagatal. Aðrir dagar verði svokallaðir skráningardagar og foreldrar skrá börnin sín á þeim dögum, það er í vetrarfrií, jólafríi, dymbilviku og að hluta yfir sumarið.

Betri vinnustaður og fjölskylduvænni

Búist er við því að breytingarnar henti fjölskyldum og hjálpi sveitarfélaginu að halda öflugu fagfólki í starfi og fá fleiri fagmenntuð til starfa. Með skipulagðri skiptingu á leikskóladeginum verður enn líklegra að starfkraftar fagfólks í leikskólum nýtist betur með börnum.

  • Styttri dvalartími fyrir börn hefur jákvæð áhrif á skólastarfið og minnkar álag á börnin á hverri deild. Markvisst starf fer fram frá kl. 9-15. Frjálsar leikstundir fara fram frá kl. 7:30 – 9 og eftir kl. 15 á daginn.
  • Lækkun leikskólagjalda hefur bein áhrif á heimilin og fjárhagslegur ávinningur þess að dvalartími barna styttist úr 40 klst. dvöl á viku í 30 klst. sparar um 30% af leikskólagjöldum. Auk þess fær fjölskyldan aukinn tíma til samverustunda.
  • Foreldrum gefst kostur á að skrá þann tíma sem þeir þurfa og hentar fjölskyldunni, boðið verður upp á sveigjanlegan dvalartíma. Hingað til hafa foreldrar ekki geta keypt þann dvalartíma sem þeir óska en núna verður það hægt og þannig má lækka útgjöldin.

Hafnarfjarðarbær tekur við umsóknum um störf á leikskólum bæjarins og leitar nú meðal annars að þroskaþjálfum, sérkennurum og sérkennslustjóra. Hér sérðu hvort leitað er að þér.

Breytingarnar hafa verið nefndar Hafnarfjarðarleiðin. Bærinn stoltur af því að geta boðið enn betri starfsvettvang og skipulag fyrir fjölskyldur í leikskólum bæjarins.

Ábendingagátt