6 íbúða búsetukjarni fyrir fatlað fólk rís

Fréttir

All verk ehf. byggir búsetuskjarna með sólarhringsþjónustu við Smyrlahraun 41A. Húsnæðið verður tilbúið um mitt ár 2027.

Betri þjónusta í Hafnarfjarðarbæ

All verk ehf. byggir búsetuskjarna við Smyrlahraun 41A. Ritað hefur verið undir samninginn og stefnt er að því að húsið verið risið í júní 2027. Hafnarfjarðarbær óskaði eftir tilboðum í alútboði og varð All verk fyrir valinu.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir þetta stórt skref og mikilvægan áfanga. „Þrír nýir búsetukjarnar hafa opnað á síðustu 7 árum. Húsnæðisáætlun hefur verið lögð fram og ljóst við ætlum okkur að fjölga til muna fjölbreyttum búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk á næstu árum.“

Íbúðirnar í búsetukjarnanum eru sex og verða reistar fyrir fatlað fólk sem þarf sólarhringþjónustu. Íbúðirnar verða til útleigu og auk þess sem þar er íbúð sem geymir aðstöðu fyrir starfsmenn.

Hver íbúð verður 48 fermetrar ásamt 175 fermetrum í starfsmanna- og öðru sameiginlegu rými, samtals nettó um 463 fermetrar. Heildarfjárhæð verksins nemur um 380 milljónum króna.

Fallegt hagnýtt hús

Húsið verður staðsteypt og klætt með álklæðningu í ljósbrúnum lit. Skyggni er klætt með timbri sem gefur hlýlegt yfirbragð. Þakið verður tvíhalla, með 200 mm staðsteyptri þakplötu sem á kemur vatnsþolinni einangrun og úthagatorfi sem yfirborð. Gluggar eru stórir og gerðir úr tré og áli.

Aðalinngangur hússins er sunnan megin og býður upp á gott aðgengi bæði fyrir gangandi og akandi. Við innganginn er skjólgott útisvæði með setrýmum og gróðri sem skapar hlýlegt umhverfi. Innan við innganginn tekur við rúmgott anddyri sem leiðir beint inn í miðlægan tengigang, hjarta hússins, sem tengir saman íbúðir, starfsmanna- og stoðrými.

Tengigangurinn er bjartur og rúmgóður, með aukinni lofthæð þar sem hallandi þök mætast. Gluggar í risinu hleypa inn ríkulegri birtu og skapa opið og ljóst yfirbragð.

Húsið risið um mitt ár 2027

Samkvæmt samningnum á vinnan að hefjast um þessar mundir og gert er ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir fram eftir næsta ári og ljúki sem fyrr segir um mitt ár 2027. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á að verkið verði unnið í samræmi við gæði og öryggiskröfur og að tryggt verði að uppbygging í Smyrlahrauni gangi fram samkvæmt áætlun.

 

Ábendingagátt