6 tíma gjaldfrjáls leikskóli í Hafnarfirði

Fréttir

Með sex tíma gjaldfrjálsum leikskóla erum við að létta undir með fjölskyldum og styrkja jafnvægið milli fjölskyldulífs og atvinnu,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar en þessi breyting varð nú um áramótin.

Leikskólinn fyrir fjölskyldurnar

Sex tíma eða skemmri gjaldfrjáls leikskóladvöl tók gildi nú um áramótin í Hafnarfirði.Foreldrar sem vista börnin í sex klukkustundir eða skemur greiða þá einungis fyrir fæði.  

Með sex tíma gjaldfrjálsum leikskóla erum við að létta undir með fjölskyldum og styrkja jafnvægið milli fjölskyldulífs og atvinnu,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.  

„Um leið tryggjum við að gæði leikskólastarfsins haldist óskert og að jafnræði ríki óháð aðstæðum foreldra. Við viljum bjóða upp á meiri sveigjanleika og jafnt aðgengi að vandaðri leikskólaþjónustu án þess að fórna gæðum.“  

Þessi breyting hefur ekki áhrif á fjölskyldur sem þurfa lengri dagvistun fyrir börnin sín. Gjöld fyrir fulla vistun hækka aðeins um það sem nemur almennri hækkun á gjaldskrá sveitarfélagsins um áramót. 

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og gegnir lykilhlutverki í þroska barna. Þar er lagður grunnur að málþroska, félagsfærni og námi, í öruggu og faglegu umhverfi þar sem gæði starfsins skipta sköpum fyrir áframhaldandi skólagöngu. 

 Hvernig virkar 6 tíma gjaldfrjáls leikskóli?   

  • Leikskóladagurinn er óbreyttur. Markvisst fagstarf og stoðþjónusta fer fram á milli kl. 9-15, frjálsar leikstundir eru frá kl. 7:30 – 9 og eftir kl. 15.   
  • Ef dvöl hefst kl. 8 að morgni lýkur sex tíma gjaldfrjálsri dvöl kl. 14, en kl. 15 ef dvöl hefst kl. 9. En hafið í huga að dagarnir mega vera mislangir svo framarlega sem dvölin sé ekki lengri en 30 klukkustundir á viku. 
  • Eina skilyrðið er fjögurra stunda lágmarksdvöl á dag alla virka daga.   

Á reiknivél leikskólagjalda á hafnarfjordur.is er hægt að reikna út leikskólagjöld. Reiknivélin reiknar út meðaltal dvalartíma barns á viku.     

Hafnarfjarðarbær hvetur foreldra og forráðamenn til að skoða þetta nýja fyrirkomulag. Markmiðið er að tryggja gæði, sveigjanleika og jafnræði fyrir allar fjölskyldur. 

Ábendingagátt