70 ára skreiðahús nú samkomuhús

Fréttir

Í gömlu skreiðahúsi baka til í Íshúsinu við Strandgötu eru spennandi hlutir að gerast en þar opnaði Ægir 220 nýverið. Heilsubærinn Hafnarfjörður, í samstarfi við Svefn Yoga í Lífsgæðasetri St. Jó, bjóða áhugasömum í Yoga Nidra – endurnærandi djúpslökun – og öðruvísi og einstaka upplifun á þessum nýja og hráa stað við hafið.

Gamalt hús fær nýtt hlutverk

Í gömlu skreiðahúsi baka til í Íshúsinu við Strandgötu eru spennandi hlutir að gerast. Skreiðahúsið var byggt árið 1954 sem geymsla fyrir fisk og veiðarfæri en fær nú líkt og aðrir hlutar þessa gamla húss nýtt hlutverk og dásamlegt umhverfi smábátahafnarinnar spillir ekki fyrir. Það eru Ægir brugghús og Íshús Hafnarfjarðar sem standa saman að rekstrinum og skemmtilegheit munu ráða ríkjum í Ægi 220 sem opinn er alla daga fram að jólum frá kl. 17-22 og meira og lengur í takti við skipulagða viðburði í húsinu. Ægir 220 er hvorutveggja samkomuhús á hafnarsvæðinu fyrir Hafnfirðinga og nærsveitunga og einstakur veislu- og viðburðasalur til útleigu.

Heilsubærinn býður í Yoga Nidra í Ægir 220

Heilsubærinn Hafnarfjörður, í samstarfi við Svefn Yoga í Lífsgæðasetri St. Jó, bjóða áhugasömum í Yoga Nidra – endurnærandi djúpslökun – og öðruvísi og einstaka upplifun á nýjum stað við hafið. Þegar hafa um 50 manns skráð sig til leiks á miðvikudag kl. 19:30 og líklegt að húsfyllir verði. Aðgangur er ókeypis og bæði aðdáendur og þau sem aldrei hafa prófað Yoga Nidra sérstaklega hvött til að skrá sig, mæta og njóta og öll hvött til að koma vel klædd til slökunarstundarinnar með viðeigandi búnað; dýnu, kodda og teppi. Þetta framtak heilsubæjarins Hafnarfjarðar er liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar og talar í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnunnar er að finna leiðir og lausir til að efla vellíðan íbúa og reynir heilsubærinn markvisst að bjóða upp á fjölbreytta heilsutengda viðburði allt árið um kring, nú á aðventunni og það í samstarfi við ólíka aðila. Yoga Nidra er leidd djúpslökun og sýna rannsóknir meðal annars að 45 mínútur í Yoga Nidra jafngildi 4 klukkustundum af svefni auk þess sem rannsóknir, bæði á Íslandi og erlendis, sýna gildi Nidra fyrir þá sem eru að takast á við streitu, álag, svefnerfiðleika, kvíða eða þunglyndi. Iðkendur liggja á dýnu í algerri slökun og eru leiddir áfram skref fyrir skref af Yoga Nidra kennara. Líkaminn sefur en undirmeðvitundin vakir. Þessi nærandi stund fer fram, eins og áður segir, í Ægi 220, nýjum og hráum samkomusal sem búið er að opna í 70 ára gömlu skreiðahúsi á hafnarsvæðinu. Það stefnir því allt í öðruvísi og einstaka upplifun við hafið.

Allt um Svefn Yoga

Allt um Lífsgæðasetur St. Jó 

Jólablað Hafnarfjarðar 2023

Þessi umfjöllun er hluti af efni í jólablaði Hafnarfjarðar 2023. Jólablaðið hefur þann eina og sanna tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, fyrir gestum og gangandi og varpa ljósi á þann hlýleika og fjölbreytileika sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í jólabænum Hafnarfirði. Jólablað Hafnarfjarðar er gefið út í sömu viku og Jólaþorpið opnar ár hvert og er dreift 72.500 eintökum. Jólablaðið hefur þann tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, gestum og gangandi, og varpa ljósi á hlýleikann og fjölbreytileikann sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í Hafnarfirði.

Jólablaðið er aðgengilegt í Fjarðarkaupum, Firði verslunarmiðstöð, þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar, Bókasafni Hafnarfjarðar, Hafnarborg, Byggðasafni Hafnarfjarðar og í sundlaugum bæjarins.

Jólablað Hafnarfjarðar 2023 

Allt um jólabæinn Hafnarfjörð 

Ábendingagátt