800 nemendur hlaupa Ólympíuhlaup

Fréttir

Um 800 nemendur Hraunvallaskóla tóku þátt í setningu Ólympíuhlaups ÍSÍ 2018 og gátu þeir valið um að hlaupa 2,5KM, 5KM og 10KM.

Ólympíuhlaup ÍSÍ 2018 var sett í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði síðastliðinn fimmtudag í fínu veðri. Um 800 nemendur skólans tóku þátt í setningu hlaupsins og gátu þeir valið um að hlaupa 2,5 km, 5 km eða 10 km. Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015, var á staðnum að hvetja nemendur áfram og vakti mikla lukku. Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, afhenti Lars Jóhanni Imsland, skólastjóra Hraunvallaskóla, nokkrar gerðir af boltum að gjöf frá ÍSÍ. Fulltrúar Mjólkursamsölunnar voru á svæðinu og gáfu krökkunum ískalda mjólk í lok hlaupsins. 

Um Norræna skólahlaupið

Norræna skólahlaupið hefur farið fram í grunnskólum landsins óslitið frá árinu 1984 og lengstan hluta þess tíma verið í umsjón ÍSÍ. Á síðustu árum hefur Ísland verið eina þátttöku-þjóðin á Norðurlöndunum og nafn hlaupsins því ekki endurspeglað verkefnið. ÍSÍ hefur því ákveðið að breyta nafni hlaupsins og heitir það nú Ólympíuhlaup ÍSÍ. Verkefnið hefur nú fengið nýtt merki og viðurkenningaskjölin skarta nýju útliti.

Ábendingagátt