Aldargömul og þakklát Ásta Sigurhildur
Ásta Sigurhildur Magnúsdóttir fagnaði 100 ára afmæli þann 3. nóvember sl. Af því tilefni heimsótti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri afmælisbarnið í vikunni og færði henni blómvönd og gotterí. Saman áttu þær, auk Hafrúnar Dóru Júlíusdóttur dóttur Ástu, ljúfa stund við spjall um gömlu góðu dagana og hinar ýmsu fjölskyldu- og vinatengingar í Firðinum fagra síðustu áratugina.
Hamingjuóskir frá hjartans rótum
Ásta Sigurhildur Magnúsdóttir fagnaði 100 ára afmæli þann 3. nóvember sl. Af því tilefni heimsótti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri afmælisbarnið í vikunni og færði henni blómvönd og gotterí. Saman áttu þær, auk Hafrúnar Dóru Júlíusdóttur dóttur Ástu, ljúfa stund við spjall um gömlu góðu dagana og hinar ýmsu fjölskyldu- og vinatengingar í Firðinum fagra síðustu áratugina.
„Það er mjög gefandi að hitta fólkið sem byggði bæinn og hefur lagt sitt mark á söguna og samfélagið. Ásta Sigurhildur er mjög hlý og kát kona og við góða heilsu. Það var gaman að spjalla við Ástu sem man tímana tvenna og lifir fyrir börn sín og fjölskyldu,“ segir Rósa.
Hafnfirðingur í áttatíu ár
Sveitastúlkan Ásta Sigurhildur, sem fædd er að Móakoti í Staðarhverfi í Grindavík 1924, hefur búið í Hafnarfirði í áttatíu ár. Eftir uppvöxt við hefðbundin sveitastörf og heimilisverk hóf Ásta búskap með eiginmanni sínum, Júlíusi Sigurðssyni skipstjóra og verkstjóra, tvítug að aldri árið 1944 að Skerseyrarvegi 1 í Hafnarfirði og þar komu fyrstu fimm börnin í heiminn. Þau Júlíus giftu sig 1945. Síðar bjuggu þau að Holtsgötu 12 hvar yngsta dóttir þeirra fæddist og síðar að Arnarhrauni 8 sem var þeirra heimili þar til börnin voru flogin úr hreiðrinu. Þá byggðu þau hjónin lítið einbýlishús við Hrauntungu þar sem þau bjuggu þar til þau fluttu á Hraunvang 3 við Hrafnistu í Hafnarfirði. Þau Júlíus voru dugleg að ferðast um landið og erlendis, ein eða með fjölskyldunni og nutu vel. Júlíus dó í janúar 2019 og bjó Ásta ein í íbúð þeirra þar til hún flutti í fallegt heimili á Hrafnistu í ágúst 2023, þá 99 ára gömul. Ásta var heimavinnandi meðan börnin uxu úr grasi. Ásta starfaði í þvottahúsi Sólvangs í 20 ár og í þvottahúsi Hrafnistu í 10 ár eða þar til hún fór á eftirlaun. Ásta Sigurhildur er rík kona; ömmubörn eru 14, langömmubörnin 25 og langalangömmubörnin 7.
Sjö Hafnfirðingar 100 ára eða eldri
Fimm Hafnfirðingar fagna 100 ára afmæli á árinu 2024, einn 101 árs afmæli og einn 102 ára afmæli. Í heild sjö Hafnfirðingar sem fagna enn lífinu orðnir aldargamlir. Íbúar í Hafnarfirði í dag eru orðnir 32.052 og fer fjölgandi.