A. Hansen hreiðrar um sig í Hellisgerði þessa hátíðina

Fréttir Jólabærinn

„Þátttaka í Jólaþorpinu í hjarta Hafnarfjarðar er þegar hluti af jólahefð A. Hansen,“ segir Silbene Dias, rekstrarstjóri veitingastaðarins A. Hansen, sem verður ekki aðeins að vanda í þorpinu heldur einnig með útibú í Hellisgerði fyrir þessi jól.

A. Hansen í Hellisgerði í jólavertíðinni

„Þátttaka í Jólaþorpinu í hjarta Hafnarfjarðar er þegar hluti af jólahefð A. Hansen,“ segir Silbene Dias, rekstrarstjóri veitingastaðarins A. Hansen, sem verður ekki aðeins að vanda í þorpinu heldur einnig með útibú í Hellisgerði fyrir þessi jól.

„Við lofum góðum augnablikum og gleði og auðvitað dýrindis sælgæti, crepes og churros í þessum yndislega lystigarði Hafnfirðinga,“ segir Silbene. „Svo má fá pylsur og heitt súkkulaði eftir fjölskylduuppskriftinni til að hita sig upp í kuldanum. Það gerir allt svo jólalegt.“

Silbene segir A. Hansen fjölskyldufyrirtæki. Hún hefur rekið þetta víðfræga veitingahús í einu elsta húsi Hafnarfjarðar í um áratug. Hún var áður yfirkokkur á 1919 veitingahúsi Radison Blue í miðborginni og á Silica Hotel hjá Bláa lóninu. „Við systir mín og systkinabörn höfum tekið þátt í Jólaþorpinu 6 ár núna,“ segir hún. „Jólin eru einn af þeim tímum ársins sem við elskum mest, töfrar jólanna eru innra með hverju og einu okkar.“

Silbene er frá Brasilíu og hefur búið á landinu í tvo áratugi og er nýkomin úr tveggja mánaða orlofi frá heimalandinu. „Ég er úthvíld og tilbúin í jólaösina,“ segir hún glaðlega.

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Ábendingagátt