Á léttum nótum – Skapandi Sumarstörf

Fréttir

Söngtríóið „Á léttum nótum“, þau Helga Guðný Hallsdóttir, Breki Sigurðarson og Laufey Ósk Jóns, hafa sungið víða um Hafnarfjörðinn í sumar á vegum Skapandi Sumarstarfa.

Óaðskiljanleg síðan þau kynntust í kór á fyrsta ári í MH

Söngtríóið „Á léttum nótum“, þau Helga Guðný Hallsdóttir, Breki Sigurðarson og Laufey Ósk Jóns, hafa sungið víða um Hafnarfjörðinn í sumar á vegum Skapandi Sumarstarfa. Meðlimir hópsins kynntust á fyrsta ári í kór Menntaskólans við Hamrahlíð í og hafa síðan þá verið óaðskiljanleg. Hópurinn sérhæfir sig í kórtónlist og markmið þeirra er að flytja, kynna og fræða fólk um kórtónlist en einnig að skemmta bæjarbúum og gestum í allt sumar. Á lagalistanum þeirra eru m.a. sígild lög eins og; Nú andar suðrið, Ó, blessuð vertu sumarsól, Hver á sér fegra föðurland og Vikivaki.

Fjölbreytt áhugasvið

Tríóið hefur sameiginlegan áhuga á kórsöng, hafa þau öll sín fjölbreyttu áhugamál. Helga (alt) er sellóleikari og hefur mikinn áhuga á leiklist, Breki (tenór) er teiknandi túbuleikari og tónskáld og Laufey (sópran) er að læra sálfræði við Háskóla Íslands ásamt því að stunda nám í Söngskólanum í Reykjavík og stefnir á kórstjórnarnám.

Á léttum nótum. F.v. Breki Sigurðarson, Helga Guðný Hallsdóttir og Laufey Ósk Jóns

Logo-lettumnotumAuglýsa viðburði í gegnum samfélagsmiðla

Það er hægt að fylgjast með söngfuglunum þremur á Instagram þar sem þau deila ýmsum ljósmyndum og myndböndum af tónlistarflutningi, upplýsingum um tónleika, fróðleik og sögu tónlistar og allskyns glens og gaman sem ætti að höfða til allra. Einnig er hægt að fylgjast með auglýstum viðburðum á Facebook .

Skapandi sumarstörf eru hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar – níu verkefni sumarið 2021

Skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ eru hluti af sumarstarfi Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Skapandi sumarstörf eru auglýst sérstaklega og býðst einstaklingum og hópum að skila inn með umsókn sinni hugmyndum að skapandi verkefnum sem eru til þess fallin að glæða bæinn enn meira lífi yfir sumartímann, gera hann enn skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Horft er sérstaklega til fjölbreytileika verkefna og þess að þau höfði til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Valdir hópar fá svo tækifæri til að lífga upp á mannlíf og skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar og gleðja ferðamenn og íbúa með alls kyns uppátækjum. Á léttum nótum er eitt þessarra verkefna. Átta önnur skapandi verkefni eru starfrækt hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar í ár og munu þessi verkefni einnig verða kynnt á miðlum bæjarins.

Ábendingagátt