Ærslabelgirnir einn af öðrum tilbúnir í sumarið

Fréttir

Sumarið er betra á ærslabelgjum. Nú er unnið að því að koma fimm ærslabelgjum Hafnarfjarðar í stand eftir vetrardvöl. Börn og ungmenni á öllum aldri geta því tekið hoppandi á móti sólinni.

….og hjálpumst að við að halda þeim heilum

Unnið er að því að koma öllum ærslabelgjum Hafnarfjarðar í stand og nú þegar hægt að hoppa hæð sína á Víðistaðatúni, í Setbergi og Áslandi. Ærslabelgurinn á Óla Run túni verður brátt kominn í stand og unnið að viðgerð belgsins við Hraunvallaskóla. Börn og ungmenni á öllum aldri geta því nú þegar tekið hoppandi á móti sumrinu.

Fimm ærslabelgir í Hafnarfirði 

Fimm belgir hafa verið settir upp allt frá því að ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um kaup og uppsetningu á ærslabelgi var tekin vorið 2019. Ærslabelgur á Víðistaðatúni var opnaður sumarið 2019 og belgur á Óla Run túni ári seinna eða 17. júní 2020. Ærslabelgurinn í Stekkjarhrauni, skammt frá leikskólanum Hlíðarenda, var opnaður 16. júní 2021 og þá um haustið opnaði nýr belgur á lóð Hraunvallaskóla. Loks var svo ærslabelgur í Áslandi tekinn í notkun í júní 2023

  • Ærslabelgur á Víðistaðatúni
  • Ærslabegur á Óla Run túni
  • Ærslabelgur í Setbergi
  • Ærslabelgur við Hraunvallaskóla
  • Ærslabelgur í Áslandi

Á kortavef Hafnarfjarðarbæjar undir þjónusta og afþreying má sjá upplýsingar um nákvæma staðsetningu ærslabelganna í Hafnarfirði.

Hvenær má hoppa?

Ærslabelgirnir eru tímastilltir og opnir frá kl. 9-22 alla daga vikunnar yfir sumartímann og frá kl. 9-18 vor og haust þar til frysta tekur og veturinn færist yfir. Ærslabelgirnir eru loftlausir yfir frostmánuðina. Allir „hopparar“ eru vinsamlegast beðnir um að skemmta sér kostulega en fara á sama tíma varlega og eftir þeim reglum sem gilda. Og munum að belgirnir eru sameign allra Hafnfirðinga og því allra hagur að umgengni sé góð. Það gerum við aðeins saman.

Ærslabelgir í Hafnarfirði og á öllu Íslandi

 

Ábendingagátt