Fjölgun ærslabelgja í Hafnarfirði

Fréttir

Allt frá því að ærslabelgur verði settur upp á Víðistaðatúni í upphafi sumars 2019 hefur verið í umræðunni að fjölga belgjum í Firðinum enda hefur belgurinn notið gríðarlegra vinsælda. 

Allt frá því að ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um kaup og uppsetningu á ærslabelgi á Víðistaðatúni var tekin vorið 2019 lá fyrir
vilji fyrir því að setja upp belgi á fleiri stöðum í bænum. Til að framfylgja
ákvörðun og vilja bæjaryfirvalda lagði stýrihópur á bak við Heilsubæinn
Hafnarfjörð til á fundi sínum í dag að nýr og glæsilegur ærslabelgur verði
keyptur og settur upp á Óla Run túni sumarið 2020. Vonir standa til þess að
framkvæmdin geti hafist á næstu vikum.

Kjörinn vettvangur fyrir ræktun heilsu og samfélagsanda

IMG_5671Fyrsti ærslabelgurinn var settur upp á Víðistaðatúni sumarið 2019. 

Ærslabelgur á Víðistaðatúni hefur notið gríðarlegra vinsælda. Um er að ræða niðurgrafna loftknúna hoppudýnu sem er jafnhá landslaginu og er hugsuð fyrir fólk á öllum aldri. Mikið líf og fjör hefur verið á Víðistaðatúni síðan belgurinn var settur þar upp og ljóst að hann hefur mikið og gott aðdráttarafl og þykir frábær viðbót og afþreying fyrir börn og ungmenni. Ærslabelgurinn hefur þannig ekki bara skapað vettvang fyrir skemmtilega og öðruvísi heilsueflingu heldur einnig vettvang fyrir fólk og nágranna á öllum aldri til að koma saman og rækta samfélagsandann. Svæðið á Óla Run túni þykir tilvalið og framkvæmdin til þess fallin að skapa meira líf á túninu. 

Ábendingagátt