Ætlum að útrýma óútskýrðum launamun

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur verið þátttakandi í tilraunaverkefni fjármála- og velferðarráðuneytis um innleiðingu jafnlaunastaðals síðan 2013 en markmiðið er að eyða óútskýrðum launamun og uppfylla lagaskyldu atvinnurekenda um að greiða konum og körlum jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Hafnarfjarðarbær hefur verið þátttakandi í tilraunaverkefni fjármála- og velferðarráðuneytis um innleiðingu jafnlaunastaðals síðan 2013 en markmiðið er að eyða óútskýrðum launamun og uppfylla lagaskyldu atvinnurekenda um að greiða konum og körlum jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Í upphafi var ráðinn verkefnastjóri sem sinnti áætlanagerð vegna innleiðingar, en eftir að ýmsum hindrunum hafði verið rutt úr vegi tók stýrihópur, svokallað jafnlaunaráð, til starfa í byrjun árs 2016. „Innleiðingin felst að mestu leyti í því að skjalfesta það verklag sem hefur verið viðhaft hingað til. Hér eru engar kollvarpanir á ferð en þessi vinna hefur leitt af sér ýmis umbótaverkefni“ segir Andri Ómarsson verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ. Hafnarfjarðarbær hefur á tímabilinu mótað launastefnu, uppfært jafnréttisáætlun og látið gera greiningu á launum karla og kvenna. Samkvæmt staðlinum skal umfang kerfisins ná til alls starfsfólks en hjá Hafnarfjarðarbæ starfa að jafnaði um 1800 starfsmenn á 70 starfsstöðum. „Þar sem Hafnarfjarðarbær er stór vinnustaður verða ýmis verkefni risastór og tímafrek. Menntun er t.d. einn þáttur sem hefur áhrif á laun og því þótti mikilvægt að skrá menntun starfsfólks. Ég held að það hafi tekið okkur um þrjá mánuði að fara í gegnum skjalaskápa og skrá menntun allra í mannauðskerfið. En það þýðir að við getum reiknað fyrir áhrifum menntunar og fleiri þátta í  jafnlaunaúttekt til þess að finna þann launamun sem eingöngu verður rakinn til kyns“ segir Andri. Gæðastjóri var ráðinn til Hafnarfjarðarbæjar í upphafi árs sem meðal annars kemur sterkur inn í þetta umfangsmikla verkefni.

Fyrstu niðurstöður jafnlaunaúttektar benda til þess að allt sé á réttri leið og eru markmið Hafnarfjarðarbæjar á þessu sviði háleit. Verið er að rýna ferla, skilgreina og flokka störf og bregðast við frávikum með það fyrir augum að útrýma óútskýrðum launamun. „Þegar við teljum okkur hafa innleitt staðalinn með fullnægjandi hætti munum við leita til vottunarstofu til að fá staðfestingu á því að unnið sé eftir þeim kröfum sem staðallinn setur og hljóta jafnlaunamerki velferðarráðuneytis“ segir Andri að lokum.

Viðtal við Andra Ómarsson, verkefnastjóra hjá Hafnarfjarðarbæ var birt í Fréttatímanum laugardaginn  11. mars sl.

Ábendingagátt