Afmæliskveðja forseta Íslands á aldarafmæli Hellisgerðis

Fréttir

Ágætu Hafnfirðingar og aðrir áheyrendur. Á aldarafmæli Hellisgerðis sendi ég ykkur öllum heillaóskir – heillaóskir og þakkir. Margar ljúfar minningar á ég frá þessum unaðsreit, fyrst ferðir með foreldrum á æskuárum og síðar með eigin börn.

Afmæliskveðja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar

Ágætu Hafnfirðingar og aðrir áheyrendur

Á aldarafmæli Hellisgerðis sendi ég ykkur öllum heillaóskir – heillaóskir og þakkir. Margar ljúfar minningar á ég frá þessum unaðsreit, fyrst ferðir með foreldrum á æskuárum og síðar með eigin börn. Vissulega er Hellisgerði steinsnar frá umferðaræð, í hjarta öflugs bæjar með iðandi mannlíf og atvinnuvegi. Samt veitir garðurinn öruggt skjól frá ys og þys, náttúruvin þar sem gott er að gleyma stað og stund, njóta fegurðar og góðs félagsskapar.

Ég vona að Hellisgerði blómstri áfram, í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Satt er það sem segir í kvæðinu góða eftir Guðlaugu Pétursdóttur um hinn hýra Hafnarfjörð sem horfir móti sól: „Þó hraun þín séu hrjóstrug er hvergi betra skjól.“ Og hvergi er betra að finna þau sannindi en í Hellisgerði þar sem kalt hraun og hlýr gróður kallast á og ímyndunaraflið getur svo auðveldlega farið á kreik.

Kæru Hafnfirðingar, héðan af Álftanesi fáið þið hugheila grannakveðju. Hjartanlega til hamingju aftur með afmæli Hellisgerðis. Og við þau sem þangað hafa ekki komið segi ég þetta, og vitna í ljóðlínur Guðmundar Friðjónssonar frá Sandi um bjarkalund Hafnarfjarðar, griðastað og helgisetur: „Hefurðu komið í Hellisgerði / Hafnarfjarðar gróðurver? / Hafirðu ekki, hraðaðu þér!“

Ábendingagátt