Áfram í öruggum höndum Securitas

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Securitas hafa gert með sér áframhaldandi samning um fjarvöktun öryggiskerfa og þjónustusamninga brunaviðvörunarkerfa bæjarins til fjögurra ára með möguleika á framlengingu. 

Áframhaldandi samstarf Securitas og Hafnarfjarðarbæjar

Hafnarfjarðarbær og Securitas hafa gert með sér áframhaldandi samning um fjarvöktun öryggiskerfa og þjónustusamninga brunaviðvörunarkerfa bæjarins til fjögurra ára með möguleika á framlengingu. Tvö fyrirtæki buðu í verkefnið sem bæði uppfylltu kröfur útboðsgagna að öllu leyti. Ákveðið var að halda samstarfi við Securitas áfram sem reyndist með hagstæðara tilboðið.

Securitas sér um öll öryggismál bæjarins

Samningurinn við Securitas felur í sér að fyrirtækið sér um öll öryggismál bæjarins, m.a vöktun öryggiskerfa og þjónustu og úttektir á kerfum í byggingum á vegum bæjarins. Undir það falla söfn, sundlaugar, leik- og grunnskólar, bæjarskrifstofur og aðrar stofnanir. Samhliða verður áhersla lögð á staðsetningu og sýnileika eftirlitsbíla í bæjarfélaginu.

_IMG_6454

Ómar Svavarsson forstjóri Securitas og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar skrifuðu á dögunum undir áframhaldandi samstarfssamning um öryggismál sveitarfélagsins. 

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar fagnar áframhaldandi samningi. „Við höldum áfram að vera í öruggum höndum Securitas. Við höfum um árabil boðið reglubundið út aðkeypta þjónustu sveitarfélagsins ekki einungis í hagræðingarskyni heldur ekki síður til að tryggja endurmat og uppfærslu í takti við tækniþróun og breytta tíma. Þegar uppi er staðið snýr samningurinn að öryggi starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar og íbúa Hafnarfjarðar og útboðsskilmálar að undangengnum svona stórum útboðum tryggja að hugað sé að öllum þáttum. Hafnarfjörður er í öruggum höndum.“

Securitas fagnar áframhaldandi samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og með fjölda eftirlitsbíla í bæjarfélaginu styttist viðbragðstími bæði til fyrirtækja og einstaklinga. „Við erum með tólf eftirlits- og viðbragðsbíla mannaða hverju sinni á víð og dreif um stórhöfuðborgarsvæðið en alls eru bílarnir átján á landsvísu. Við erum á vaktinni allan sólarhringinn, alla daga ársins og höfum viðbragðsafl sem á sér ekki hliðstæðu hjá öðrum fyrirtækjum á landinu“ segir Fannar Örn Þorbjörnsson framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Securitas.

Ábendingagátt